Ertu með heimilislækni?

Þórunn,  kraginn, banner,

Samfylkingin kynnti á dögunum fimm þjóðarmarkmið í heilbrigðis- og öldrunarþjónustu.

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður

Við viljum tala skýrt og gefa kjósendum tækifæri til að kynna sér forgangsröðun Samfylkingarinnar í mikilvægum málaflokkum. Áhersluatriðin byggja að sjálfsögðu á traustum grunni jafnaðarstefnunnar en í þeim felst loforð um hvaða verkefni við viljum setja í forgang á næstu kjörtímabilum.

Gott og greitt aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu er lykillinn að bættri lýðheilsu. Þess vegna er það höfuðmarkmið okkar að innan áratugar hafi öll sem hér búa heimilislækni eða skilgreint teymi sem hægt er að leita til á næstu heilsugæslustöð. Á fyrsta kjörtímabilinu viljum við setja 60 ára og eldri og langveika í forgang.

Þessi sjálfsagða aðgerð mun skila sér í öruggum og greiðum samskiptum borgaranna við heilsugæsluna, sem alltaf á að vera fyrsti viðkomustaður okkar í heilbrigðiskerfinu. Aðeins helmingur fólks á Íslandi hefur fastan heimilislækni en sambærilegt hlutfall í Noregi er 95%. Rannsóknir sýna að þau sem ekki hafa heimilislækni eru 30% líklegri til að þarfnast innlagnar á sjúkrahús. Varla þarf að taka fram hversu miklu máli það skiptir að veita rétta heilbrigðisþjónustu á réttum stað í kerfinu út frá sjónarmiðum hagkvæmni og tímasparnaðar.

Þjónustu við aldraða er annar lykilþáttur í tillögum Samfylkingarinnar. Mikill skortur er á hjúkrunarrýmum og fjármagn til heimahjúkrunar hefur haldist óbreytt sem hlutfall af landsframleiðslu frá árinu 2009. Hér bíða okkar brýn verkefni sem ríkisstjórnir síðustu tíu ára hafa hreinlega ekki ráðið við þótt öll séum við væntanlega meðvituð um hækkandi lífaldur þjóðarinnar.

Við viljum að sjálfsögðu að fólki um allt land sé tryggt öruggt aðgengi að heilbrigðisþjónustunni í heimabyggð. En það þarf líka að styrkja sjúkraflutninga og verja hærri upphæðum til að niðurgreiða ferðakostnað þeirra sem þurfa að sækja þjónustu fjarri heimabyggð. Það segir sig sjálft að fjölskyldur geta ekki tekið á sig ítrekað vinnu- og tekjutap til dæmis vegna langvinnra veikinda.

Allir hlutar heilbrigðiskerfisins þurfa að vinna vel saman, allt frá heilsugæslu til bráðaþjónustu. Samfylkingin teflir fram skýrri heildarsýn á velferðarsamfélagið og hefur hugrekki til að segja við kjósendur að verja þurfi stærra hlutfalli af vergri landsframleiðslu til heilbrigðis- og öldrunarþjónustu. Við viljum hækka hlutfallið um 1 til 1,5% á átta árum. Það er eðlileg hækkun sem skilar betri þjónustu og bættri heilsu. Þetta gerum við án þess að hækka skatta á venjulegt launafólk en með því að draga úr misræmi skattlagningar fjármagns- og launatekna og tryggja að arður af nýtingu sameiginlegra auðlinda okkar nýtist í þágu alls samfélagsins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 8. okt. 2023.