Ræða Kristrúnar: „Allt samkvæmt áætlun hjá Samfylkingunni“

Ræða Kristrúnar Frostadóttur á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í Hofi á Akureyri, 14. október 2023.

I. Festa í Samfylkingunni

Flokksstjórn — góðir áheyrendur.

Nú reynir á. Á tímum sem þessum reynir á okkur í Samfylkingunni og jafnaðarfólk um land allt. Því þegar það er óreiða hjá ríkisstjórninni — þá á þjóðin að upplifa festu í Samfylkingunni. Þegar ráðherrar eru fastir í aukaatriðum og sínum eigin vandamálum — þá á Samfylkingin að halda áfram að horfa á aðalatriðin og hlusta á fólkið í landinu. Þegar núverandi ráðamenn nálgast endastöð eftir áratug við völd — þá á Samfylkingin að bjóða upp á nýtt upphaf og nýja forystu — fyrir land og þjóð. 

Flokksstjórn. Við tökum þetta verkefni alvarlega. Látum ekki slá okkur af laginu. Nú reynir svo sannarlega á að Samfylkingin fylgi sinni eigin áætlun — en eltist ekki við upphlaupin og ringulreiðina sem við sjáum hjá ríkisstjórninni.

Kæru vinir, þess vegna erum við saman komin hér í dag á Akureyri — flokksfélagar hvaðanæva af landinu — til að ræða næstu forgangsmál í metnaðarfullu málefnastarfi Samfylkingarinnar — sem eru: Atvinna og samgöngur. Atvinna og samgöngur munu eiga athygli okkar í Samfylkingunni og vera í forgangi í málefnastarfi flokksins næsta hálfa árið — eða fram að flokksstjórnarfundi, vorið 2024. Og þannig höldum við áfram að undirbúa okkur, jafnt og þétt, til að taka við landstjórninni eftir næstu Alþingiskosningar; fáum við til þess traust hjá þjóðinni.

II. Allt samkvæmt áætlun

En áður en lengra er haldið; þá vil ég líta yfir farinn veg og taka stöðu — nú þegar tæpt ár er liðið frá landsfundi og kjörtímabilið að minnsta kosti hálfnað.

Við í Samfylkingunni völdum breytingar — og við höfum fylgt ákveðinni áætlun síðastliðið ár. Við höfum breytt Samfylkingunni:

Við höfum náð aftur virkari tengingu við venjulegt fólk, hinn almenna launamann. Við höfum brotist út úr bergmálshellinum. Og eins og við sögðum — þá höfum við gert það að meginverkefni flokksins að opna starfið upp á gátt; færa málefnavinnu nær almenningi um land allt með því að hleypa öllum að og halda fleiri tugi opinna funda — þar sem fólk innan og utan flokks er hvatt til að mæta til leiks.

Við sögðum að við myndum ekki elta skoðanakannanir eða þá sem hafa hæst á samfélagsmiðlum. Og allt hefur þetta staðið eins og stafur á bók.

Staðreyndin er þessi: Það gengur allt samkvæmt áætlun hjá Samfylkingunni. Og við ætlum að halda áfram á sömu braut.

Við kynntum Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum — fimm þjóðarmarkmið og örugg skref í rétta átt í þessum mikilvægu málaflokkum. Næst á dagskrá eru, eins og áður sagði, atvinna og samgöngur. Og svo ætlum við að taka húsnæðis- og kjaramálin með sama hætti.

En — kæru vinir — þó að allt gangi samkvæmt áætlun hjá Samfylkingunni og þó að skoðanakannanir bendi til þess að fólkið í landinu hafi miklar væntingar til okkar — þá vitum við öll vel að núna er ekki rétti tíminn til að ofmetnast eða halla sér aftur. Við tökum engu sem gefnu. Og við ætlum ekki að gera sömu mistökin og aðrir stjórnarandstöðuflokkar, sem hafa mælst vel á miðju kjörtímabili en svo mistekist að ávinna sér traust þjóðarinnar í raun þegar á hólminn var komið.

Við ætlum ekki að lofa öllu fögru. Við ætlum ekki að fara fram með ósamrýmanleg markmið. Og við ætlum ekki að sóa tíma í einhvern pólitískan æsing. Það er þess vegna sem við erum að undirbúa okkur og taka þetta málefnastarf svona alvarlega. Eitt skref í einu. Allt samkvæmt áætlun.

III. Vaxtarplan fyrir Ísland // Frelsi með ábyrgð

Kæru félagar og jafnaðarfólk. Útspilið Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum var sótt til almennings og fjölda sérfræðinga um land allt — sem veitir okkur styrk og fullvissu. Þegar við leituðum viðbragða þá fórum við beint aftur til fólksins; nú höfum við rætt þetta útspil á vettvangi flokksstjórnar og erum þegar byrjuð að nýta það efnislega á vettvangi þingsins. Fólkið veit hvar við stöndum í heilbrigðismálum og við munum halda þessum áherslum á lofti út þetta kjörtímabil.

En nú er tími til að halda áfram, horfa fram á veginn og kynna ákvörðun stjórnar Samfylkingarinnar um verklag við næstu forgangsmál — atvinnu og samgöngur. Við höfum miklar væntingar til þessarar vinnu. Ég hlakka til — þetta er spennandi verkefni og ég veit að þjóðin fylgist með okkur.

Útkoman á að vera: „Vaxtarplan fyrir Ísland“ til næstu ára og áratugar — sem Samfylkingin kynnir næsta vor að lokinni þessari vinnu.

Vaxtarplan fyrir Ísland á grunni jafnaðarmennsku; metnaðarfull áætlun um að leysa úr læðingi krafta hvers einasta Íslendings — í hverjum einasta landshluta — í þágu fjöldans en ekki fárra útvalinna; þar sem framlag allra er virt að verðleikum; þar sem við leyfum okkur að vera stórhuga og sækja fram en gerum það af ábyrgð og virðingu fyrir atvinnu fólks og lífsviðurværi þess.

Við munum skapa skýran ramma fyrir vöxt og verðmætasköpun á Íslandi. Enda snýst jafnaðarmennska um fleira en skiptingu verðmæta — við viljum skapa verðmæti og við skiljum að verðmætasköpun er samvinnuverkefni; launafólks, atvinnurekenda og hins opinbera. Í þessum skilningi kristallast ágreiningurinn við andstæðinga okkar í stjórnmálum — sem halda því fram að starfsmenn hins opinbera skapi engin verðmæti og að sterk íslensk verkalýðshreyfing sé óþörf; því að verðmætasköpun sé í raun einkaframtak fjármagnseigandans og forstjórans. Það er ekki réttur skilningur heldur beinlínis skaðlegur misskilningur.

Samfylkingin skilur samhengið milli vinnu og velferðar. Við skiljum að ábyrg hagstjórn kallar á virka aðkomu hins opinbera. Og við skiljum að það er ekkert til sem heitir frjáls markaður í raun — öll verðmætasköpun í einkageiranum á sér stað í skjóli ramma og regluverks, laga og skipulags, sem stofnanir hins opinbera halda utan um. Það er þekkt fyrirbrigði að sterkar stofnanir eru forsenda öflugs einkaframtaks, þar sem eignarréttur er virtur, leikreglur eru skýrar og fólk getur treyst því að samningar gangi eftir. Öflugustu samfélög heims, þar sem verðmætasköpun og velferð er hvað mest, eru samfélög þar sem skilningur er á mikilvægu samspili þessarar þrenningar; launafólks, atvinnurekenda og hins opinbera.

Hið opinbera á ekki að stjórna öllu — né að sleppa öllu lausu og vona það besta. Hlutverk þess er að skapa skýran ramma og taka ábyrgð á uppbyggingu og þróun samfélagsins.

Lykilorðin eru: Frelsi með ábyrgð. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn er á undanhaldi sem breiðfylking þá getur Samfylkingin gert þessi orð að sínum: Frelsi — með ábyrgð. Mér finnst þetta gamla slagorð Gunnars Thoroddsen fanga nokkuð vel sýn okkar sósíaldemókrata á uppbyggingu í atvinnulífi — og um leið aðgreina okkur með skýrum hætti frá ofureinstaklingshyggju þeirra sem vilja setja markaðslögmál ofar öllu öðru.

Frelsi með ábyrgð — gagnvart samfélagi og náttúru — og ábyrgð okkar sem njótum gæfu gagnvart öðrum sem lífið leikur harðar.

IV. Talið við okkur // Skattar og velferð

Og já — þessi gildi og þennan skilning jafnaðarmennsku er víða að finna í íslensku samfélagi. Það er sterk jafnaðartaug í stórum hluta þjóðarinnar.

Á fundunum fimmtíu sem ég boðaði til í fyrra — áður en ég varð formaður Samfylkingarinnar — talaði ég við fjöldann allan af atvinnurekendum um land allt sem höfðu svipaða sögu að segja. Ég man eftir frumkvöðli á Egilsstöðum og alt-muligt-konu á Þórshöfn á Langanesi sem sögðu eitthvað á þessa leið: „Kristrún, ég er reyna að reka fyrirtæki. Mig vantar starfsfólk — en það vantar húsnæði og ég á nóg með minn rekstur.“ Og þegar kemur að þáttum eins og ferðakostnaði vegna heilbrigðisþjónustu þá er ekki hægt að ætlast að smærri atvinnurekendur séu að reka eitthvað sérstakt velferðarkerfi til hliðar fyrir sitt starfsfólk, til að vera samkeppnishæf um vinnuafl.

Við heyrum það sama fyrir vestan. Tugir milljarða verða til í nýjum fyrirtækjum — hvort sem það er í Kerecis eða í fiskeldi — en nauðsynlegir innviðir sitja eftir og hamla þannig samfélagsuppbyggingu. Alltof lítið hefur gerst í samgöngum og ófjármagnaður óskalisti sitjandi samgönguráðherra er lítils virði ef við sitjum áfram uppi með óbreytt stjórnarfar í landinu. Eiga atvinnurekendur sjálfir að halda úti samgöngukerfi? Eða er kannski kominn tími til að hið opinbera fjárfesti í vaxtarplani fyrir Ísland — þar sem enginn landshluti er skilinn eftir? Þetta brennur meðal annars á stjórnendum fyrirtækja.

Og ég man eftir verkalýðsforingja í ónefndu sjávarþorpi sunnar á landinu sem sagði: „Við vitum alveg að þeir geta borgað meira. Það má alveg ræða veiðigjöldin og einhverjar kerfisbreytingar — en bara í guðanna bænum ekki gera það án þess að tala við okkur. Það þarf að tala við vinnandi fólk; þetta eru okkar hagsmunir líka.“

Talið við okkur, sagði hann. Flokksstjórn — þetta er einmitt málið. Þegar stjórnmálamenn taka stórar ákvarðanir, jafnvel um heilar atvinnugreinar — þá ber okkur skylda til að eiga í virku samtali við fólkið sem þar starfar. Og það er sérstaklega mikilvægt fyrir flokk eins og Samfylkinguna; flokk launafólks. Þess vegna lofum við því að taka örugg skref — engin heljarstökk — því annars vinnum við ekki traust og umboð til að stjórna.

En sama hvað andstæðingar okkar í stjórnmálum segja — þá munum við ekki skammast okkar fyrir að tala um skatta og velferð. Við ætlum ekki að enda eins og Vinstri græn eða Framsóknarflokkurinn — sem hafa stillt sér upp sem velferðarflokkum og lofað öllu fögru án þess að finna fjármagn til að standa við stóru orðin. Það er pólitík sem er mér ekki að skapi.

Einn þáttur í þeirri vinnu sem nú fer í hönd er að móta áherslur um auðlindagjöld fyrir næsta kjörtímabil. Samfylkingin vill að arður af sameiginlegum náttúruauðlindum nýtist í þágu nærsamfélags og þjóðar. Ég ræddi þessi mál við forsætisráðherra Noregs á fundi okkar síðastliðið vor og það var fróðlegt að heyra hann segja frá stoltri hefð Norðmanna þegar kemur að nýtingu náttúruauðlinda og innheimtu auðlindagjalda — sem er skipt á milli sveitarfélaga og ríkissjóðs. En það er ekki þannig — og verður aldrei — að gjaldtaka af einhverri einni atvinnugrein eða tveimur geti staðið undir endurreisn velferðarkerfisins á Ísland. Það væri ábyrgðarlaust að tala með þeim hætti og þess vegna þurfum við að vera hreinskilin við fólkið í landinu í umræðum um skatta og velferð. Sósíaldemókrasía snýst um samtryggingu og við þurfum að rísa undir þeim væntingum sem fólkið í landinu gerir til okkar.

Að sama skapi er nauðsynlegt að Samfylkingin setji ekki fram ósamrýmanleg markmið. Við getum ekki staðið við stefnu okkar um tugi milljarða til heilbrigðis- og öldrunarmála ef við ætlum á sama tíma að taka undir ýtrustu kröfur í öllu mögulegu — jafnvel um að loka hér verksmiðjum eða heilum atvinnugreinum sem skapa okkur tekjur til velferðar. Það er hvorki trúverðugt né skynsamlegt.

Það er ærið verk fyrir höndum — og mikið undir fyrir íslenska þjóð. Við tökum atvinnu og samgöngur saman vegna þess að við skiljum samspilið þarna á milli og mikilvægi þess, bæði í höfuðborginni og ekki síður í dreifðari byggðum. Við þurfum að rjúfa kyrrstöðuna sem birtist meðal annars í algjöru jarðgangastoppi og framkvæmdafælni hjá núverandi ríkisstjórn þegar kemur að Borgarlínu og öðrum samgöngubótum á höfuðborgarsvæðinu — svo ég nefni dæmi. Og ég tala nú ekki um stefnuleysið í orkumálum og kyrrstöðu í réttlátum umskiptum á vakt sitjandi ríkisstjórnar. En nóg um það — ég er viss um að okkur mun takast vel til í þessari vinnu og ég hlakka til að hefjast handa.

V. Stýrihópur um atvinnu og samgöngur

Kæra flokksstjórn, nú vil ég kynna með stolti stýrihóp sem stjórn Samfylkingarinnar hefur skipað til að vera okkur til halds og trausts í málefnastarfinu um atvinnu og samgöngur.

Stýrihópinn skipa: Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti Rafiðnaðarsambands Íslands og fyrrum forseti Alþýðusambandsins. Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff, sem hefur meðal annars gegnt varaformennsku í Samtökum atvinnulífsins og í Viðskiptaráði. Stefán Þór Eysteinsson matvælafræðingur sem einnig er oddviti Fjarðalistans og formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar. Loks er það formaður stýrihópsins sem er Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Hún hefur komið víða við í atvinnulífinu og er jafnframt ritari Samfylkingarinnar. Þetta er glæsilegur hópur og við þökkum þeim kærlega fyrir að taka sér þetta veigamikla verkefni með okkur — gefum þeim gott klapp!

Á þessum tímapunkti er kannski líka viðeigandi að þakka stýrihópnum um heilbrigðismál sem skilaði okkur virkilega góðri vinnu — traustum grunni til að byggja á í ríkisstjórn: Anna Sigrún Baldursdóttir formaður, Guðný Birna Guðmundsdóttir og Akureyringurinn Sindri Kristjánsson — getiði staðið upp og leyft okkur að þakka ykkur almennilega fyrir? Þúsund þakkir!

Og takk öll — flokksfélagar, sérfræðingar og aðrir — sem hafið lagt okkur lið í málefnastarfinu þessa síðustu mánuði. Samfylkingin nýtur þess svo sannarlega að eiga lifandi grasrót um land allt.

Arna Lára og Stefán Þór munu fara betur yfir verkefnið og verklagið sem við leggjum upp hér á eftir varðandi atvinnu og samgöngur. Og svo setjum við vinnuna formlega af stað að því loknu. Ég vil biðja sem allra flest ykkur um að skrá ykkur til leiks á þar til gerðum skráningarblöðum — og leggja síðan hugmyndir í púkkið í samtalinu á eftir. Munið bara að þess vinna er rétt að byrja og það munu gefast næg tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri á seinni stigum. Hvert einasta aðildarfélag og hver einasta flokksfélagi getur lagt sitt að mörkum. Og eins og ég áður sagði þá munum við kynna útspil um atvinnu og samgöngur fyrir næsta flokksstjórnarfund, að vori 2024.

VI. Endurheimtum efnahagslegan stöðugleika

Flokksstjórn — að lokum vil ég koma aðeins inn á stöðuna í stjórnmálunum í dag. Það er sannarlega samhengi á milli atvinnumála, sem við ræðum hér, og þess efnahagslega óstöðugleika sem nú ríkir og birtist meðal annars í mikilli verðbólgu og háum vöxtum.

Sýn Samfylkingarinnar er skýr: Við höfum kallað eftir kjarapakka. Samfylkingin kynnti kjarapakka í tengslum við fjárlög í fyrra og verkefnalista í vor — með okkar tillögum til að verja heimilisbókhaldið og vinna um leið gegn verðbólgu. Allt sem við vöruðum við þá hefur því miður orðið að veruleika. En við köllum ennþá eftir þessum sömu aðgerðum.

Hugmyndin með kjarapakka Samfylkingarinnar er að taka á þenslunni þar sem þenslan er í raun og veru — með sértækum aðhaldsaðgerðum á tekjuhlið ríkissjóðs. Og verja heimilisbókhaldið þar sem þörfin er mest með sértækum aðgerðum á borð við vaxta- og barnabætur, tímabundna leigubremsu að danskri fyrirmynd og ívilnun til uppbyggingar á almennum íbúðum. Þannig viljum við stuðla að ró á vinnumarkaði og vinna gegn verðbólgu. En það er algjört lykilatriði til að árangur náist að svona kjarapakki sé fullfjármagnaður og meira en það.

Kæru vinir, þetta er sú leið sem við höfum bent á frá því að verðbólgan fór að láta á sér kræla. Og hún byggir á skilningi á samspili velferðar og vinnumarkaðar; verðbólgu og vaxta. Hin leiðin — sú leið sem ríkisstjórnin hefur farið — byggir á því að bíða átekta, benda á Seðlabankann og kalla þannig hærri vexti yfir heimilin og fyrirtækin í landinu. Þess vegna erum við á þeim stað sem við erum á í dag. Því að þegar ríkisstjórnin gerir minna þá þarf Seðlabankinn að gera meira. Vextirnir hækka flatt yfir öll heimili og fyrirtæki. Og ég efast stórlega um þjóðin vilji sífellt hærri vexti frekar en sértækar aðgerðir á tekjuhlið — kjarapakka eins og Samfylkingin hefur lagt til.

Nú hefur ríkisstjórnin bætt gráu ofan á svart með viðbótaraðhaldskröfu sem er öll á útgjaldahlið — og við munum nú hvar aðhaldið lenti síðasta vetur. Þegar krónutölugjöldin voru skrúfuð upp í topp.

En leið ríkisstjórnarinnar er líka skammsýn. Því að án sértækra aðgerða til að verja heimilisbókhaldið heldur vítahringur verðbólgu og hárra vaxta áfram. Kostnaðarkrísan knýr þá kröfur um almennar launahækkanir, sem lenda svo í fangi fyrirtækja, sveitarfélaga og auðvitað ríkisins. Með miklu meiri tilkostnaði en hlytist af aðgerðum af hálfu ríkisins, líkt og við höfum bent á í Samfylkingunni. Þau treysta sér ekki til að rjúfa þennan vítahring því þau eru föst í pólitískri kreddu um að fyrirsjáanleiki í sköttum sé eini fyrirsjáanleikinn sem skiptir máli — aldrei megi eiga við tekjuhlið ríkisins. Í staðinn skapa þau ófyrirsjáanleika í vaxtastigi, sem bitnar á heimilum og fyrirtækjum með flötum hætti, og fyrirtækin í landinu taka á sig velferðarhlutverkið — að vernda kaupmátt heimilanna.

Vandinn er sá að við munum aldrei losna úr vítahringnum á meðan þetta viðhorf er ráðandi innan ríkisstjórnar Íslands — að ríkið hafi nær engu hlutverki að gegna í efnahagslegum stöðugleika, líkt og fráfarandi fjármálaráðherra stillt því upp fyrr í haust. Að tæki ríkissjóðs séu ekki öflug í viðureigninni við verðbólguna eða yfirhöfuð við stjórn efnahagsmála. Undirliggjandi vandi verður ekki leystur með breytingartillögum við fjárlög þessarar ríkisstjórnar — en það er þó hægt að stíga ákveðin skref til að milda ástandið.

Mín skilaboð til ríkisstjórnarinnar og nýs fjármálaráðherra eru þessi: Kjarapakki Samfylkingarinnar er besta leiðin til að milda þetta högg sem nú hlýst af verðbólgunni og koma í veg fyrir að ástandið vindi óþarflega upp á sig. Takið hann bara. Þið megið eiga þessar tillögur og taka heiðurinn. Okkur er sama — við viljum bara sjá verðbólguna og vextina fara niður.

Það þarf að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Ef ríkisstjórnin getur ekki rifið sig í gang þá ætti hún að sjá sóma sinn í því að hætta og boða til kosninga.

VII. Efnahagsstefna fjármálaráðherra var komin í þrot

Og talandi um það — kæru félagar: Ég hef svo sem lítið að segja um upphlaupin og ringulreiðina sem við sjáum hjá ríkisstjórninni þessi misserin. En það ríkir óstjórn í efnahagsmálum og ljóst er að fráfarandi fjármálaráðherra skilar ekki sérlega góðu búi. Það er 8 prósent verðbólga og stýrivextir standa í 9,25 prósentum.

Og nú heyrast neyðaróp frá Landhelgisgæslunni — eins og við heyrðum frá Fangelsismálastofnun í fyrra. Dómsmálaráðherra svaraði fyrirspurn minni um þetta á Alþingi á þá leið að Landhelgisgæslan væri vissulega vanfjármögnuð og væri búin að gera allt sem í hennar valdi stæði til að hagræða. Ef ekki fengist meira fjármagn — þá þyrfti að selja þyrlu, flugvél eða skip.

Hvers konar stjórnarhættir eru þetta? Og hvers konar arfleifð er þetta — eftir áratug með ráðuneyti fjármála og ráðuneyti dómsmála? Þessi staða er hreint og beint til skammar fyrir Sjálfstæðismenn. Landhelgisgæsla Íslands á að vera stolt okkar sem sjálfstæðrar þjóðar; eyríkis í Atlantshafi. Hún er flaggskip almannaöryggis á Íslandi. Ein af tillögum okkar í Samfylkingunni í heilbrigðismálum er að bæta við björgunar- og sjúkraþyrlu á Norðausturlandi, til að stytta viðbragðstíma, og fjölga um leið áhöfnum til sinna betur Vestur- og Suðurlandi. En nei, eftir áratug af stjórn Sjálfstæðisflokksins þá blasir við niðurskurður — „selja þyrlu, flugvél eða skip,“ eins og dómsmálaráðherra komst að orði.

Staðreyndin er þessi: Efnahagsstefna fráfarandi fjármálaráðherra var komin í þrot. Burtséð frá bankasölunni liggur fyrir að þessi stefna var komin á endastöð, þrátt fyrir að forsætisráðherra geri allt sem í valdi hennar stendur til að verja arfleifð Sjálfstæðismanna í efnahagsmálum og arfleifð þeirra við einkavæðingu banka — sem hefur hlotið áfellisdóm hjá Ríkisendurskoðun, Seðlabanka og nú loks Umboðsmanni Alþingis.

Mikil orka hefur farið í að ræða um persónu fráfarandi fjármálaráðherra í vikunni, og því m.a. velt upp að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi mögulega styrkt stöðu sína — þegar hann sagði af sér einu valdamesta embætti landsins, sem hann hefur gegnt í áratug. Hvað get ég sagt? Ég held satt best að segja að slíkar bollaleggingar séu víðs fjarri veruleika venjulegs fólks og skipti litlu máli. Þetta snýst ekki um persónur, heldur verkefnin. Það sem skiptir máli er hvaða áhrif þetta hefur á stjórn efnahagsmála í landinu: Verður breytt um stefnu? Fjárlögin verða að breytast. Og hvað þýðir þetta fyrir kjarasamningana sem eru framundan? Þetta eru spurningar sem brenna á fólki og sem við í Samfylkingunni munum spyrja á næstu dögum og vikum.

VIII. Samfylkingin verður tilbúin

Flokksstjórn — eins og ég sagði í upphafi: Nú reynir á. Þegar þjóðin sér óreiðu hjá ríkisstjórninni þá á hún að upplifa festu í Samfylkingunni. Það gengur allt samkvæmt áætlun hjá okkur. Höldum bara áfram á sömu braut. Svo þegar ríkisstjórnin verður loksins búin — þá verðum við í Samfylkingunni tilbúin; fáum við til þess traust og umboð í kosningum. Takk fyrir að hlusta og njótið dagsins.