COP28 og stöðumat Íslands
Þing aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna hefst í lok þessa mánaðar í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Hið 28. í röðinni og gengur undir nafninu COP28. Ríkisstjórn Íslands hefur sett sér það markmið að ná svokölluðu kolefnishlutleysi árið 2040 og 55% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda eigi síðar en árið 2030. Við höfum liðlega sex ár til að ná því verðuga markmiði. Útblástur gróðurhúsalofttegunda (GHL) frá samgöngum og atvinnustarfsemi hér á landi hefur aukist jafnt og þétt á liðnum áratugum – með örlitlu sloti í heimsfaraldrinum – og markmiðin ekki í sjónmáli.
Á fræðsluvefnum Himinn og haf sem Birna Hallsdóttir starfrækir má finna gagnlegar upplýsingar um þróun losunar frá Íslandi. Þar kemur skýrt fram að hún hefur ekki einungis aukist meira en í löndunum í kringum okkur frá 1990 heldur er losun á hvern íbúa hérlendis einnig meiri en í nágrannalöndunum. Ísland er með 7. hæstu losun af OECD-löndunum 37 og reyndar þá hæstu ef losun vegna landnotkunar er meðtalin.
Stóriðjan hér á landi nýtur þess að vera innan viðskiptakerfis Evrópusambandsins með losunarheimildir (ETS) og er því er öll önnur losun, oft nefnd samfélagslosun, á ábyrgð stjórnvalda. Líkt og núverandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra þreytist ekki á að nefna þá stendur Ísland vel að vígi þegar að því kemur að tækla samfélagslosunina. Við búum að því að eiga hitaveitu og framleiða rafmagn með endurnýjanlegum orkugjöfum. Stærstu verkefni okkar í dag eru að draga rækilega úr losun GHL frá bílaumferð, standa við markmið okkar í úrgangsmálum, draga úr losun vegna landnotkunar og setja mengandi atvinnustarfsemi skilyrði er varða notkun bestu fáanlegu tækni í iðnaðarferlum. Síðan bíða stór verkefni í orkuskiptum á sjó og í lofti en hin þarf að leysa fyrst.
Allt hefur þetta legið fyrir árum saman en ekkert í aðgerðaáætlunum stjórnvalda tryggir að árangurinn náist á tilsettum tíma. Aðgerðaáætlun um samdrátt í losun GHL frá 2020 hefur enn ekki verið uppfærð og fátt er að frétta af nauðsynlegum laga- eða reglugerðarbreytingum sem skapa eiga hvata til samdráttar í losun.
Á COP28 verður í fyrsta skipti kallað eftir stöðumati frá hverju einasta aðildarríki (e. global stock take). Því er ætlað að gefa nákvæma mynd af því hvar ríki eru stödd í aðgerðum sínum í loftslagsmálum með tilliti til ákvæða Parísarsamningsins. Á vef loftslagsráðs segir að COP28 eigi að ljúka með birtingu niðurstaðna úr stöðumatinu á heimsvísu. Loftslagsráð hefur réttilega lýst loftslagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar sem óljósum og ófullnægjandi. Stöðumatið hefur enn ekki verið birt en þegar ríkisstjórn Íslands skilar því inn kemur á daginn hvar Ísland stendur og hversu langt er í land.