Gleðileg jól og farsælt komandi ár

Að baki er skemmtilegt og kraftmikið haust hjá okkur í þingflokki Samfylkingarinnar.

Undanfarið ár höfum við fundið fyrir miklum meðbyr með stefnumálum flokksins sem hefur meðal annars endurspeglast í skoðanakönnunum allt árið. Sá meðbyr er okkur öllum mikilvægur og hvatning til að halda áfram baráttunni fyrir jafnari kjörum almennings og betra samfélagi í anda jafnaðarstefnunnar. Við höfum lagt okkur fram við að halda stefnu jafnaðarfólks á lofti og lagt til fjölmörg þingmál og breytingartillögur með það að markmiði.

Í upphafi septembermánaðar tilkynnti Helga Vala Helgadóttir að hún myndi láta af þingstörfum eftir farsælan feril á Alþingi og ötula baráttu fyrir betra samfélagi. Helga Vala leiddi framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður frá árinu 2017. Við þökkum Helgu Völu kærlega fyrir gott og óeigingjarnt starf fyrir flokkinn og á Alþingi síðustu ár og óskum henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Þingið var sett þann 12. september og þá tók Dagbjört Hákonardóttir sæti á Alþingi í stað Helgu Völu. Dagbjört hafði áður komið inn á þing sem varaþingmaður en hún var í þriðja sæti á lista flokksins í Reykjavík norður fyrir Alþingiskosningarnar 2021. Dagbjört hefur komið inn í þingstörfin af miklum krafti og staðið sig vel.

Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar var haldinn 14. - 15. október á Akureyri, fjölmennur, kraftmikill og skemmtilegur. Stjórnmálaályktun fundarins má sjáhér.

Jarðhræringar við Grindavík settu eðlilega mark sitt á þingstörfin þetta haustið. Þingflokkur Samfylkingarinnar greiddi atkvæði með þeim frumvörpum ríkisstjórnarinnar sem lutu að því að styðja íbúa Grindavíkur og verja mikilvæga innviði á Reykjanesi.
Umræður um stefnuræðu forsætisráðherra fóru fram 13. september. Ræðumenn okkar þar voru Kristrún Frostadóttir og Jóhann Páll Jóhannsson.

Haustþingið hófst venju samkvæmt með framlagningu fjárlaga. Þingflokkurinn gagnrýndi harðlega úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart hárri verðbólgu, sem endurspeglaðist í fjárlagafrumvarpinu.

Kristrún, Oddný og Jóhann Páll kynntu kjarapakka Samfylkingarinnar sem var fylgt eftir með afmörkuðum breytingartillögum við fjárlög og breytingum við bandorm.

Markmið kjarapakkans var að milda höggið fyrir heimilin og vinna bug á verðbólgunni, meðal annars með því að beita aðhaldi þar sem þenslan er í raun. Auk stuðnings við skuldsett heimili er þar meðal annars að finna vaxtabætur fyrir bændur og aðgerðir til að auka húsnæðisöryggi, svo sem með því að ná stjórn á Airbnb, tímabundinni leigubremsu að danskri fyrirmynd og ívilnun til uppbyggingar almennra íbúða. Loks eru í kjarapakkanum tillögur um 24 milljarða aðhald á tekjuhlið ríkissjóðs. Þar er gert ráð fyrir 6 milljörðum til að fjármagna aðgerðir vegna ástandsins í Grindavík, svo sem afkomutryggingu og leigustuðning. Tekjutillögurnar eru óbreyttar frá þeim kjarapakka sem Samfylkingin kynnti fyrir fjárlög og kjarasamninga í desember í fyrra.

Haustið hefur verið viðburðarríkt hjá þingmönnunum okkar. Kristrún mælti fyrir þingsályktunartillögu um þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi. Efni tillögunnar er hluti hugmynda sem Samfylkingin kynnti íÖruggum skrefum í heilbrigðis- og öldrunarmálumfyrr í haust. Þær eru afrakstur vinnu flokksins fyrr á þessu ári, þar sem meðal annars voru haldnir yfir 40 opnir fundir um heilbrigðis- og öldrunarmál. Þar gafst almenningi um allt land, auk heilbrigðisstarfsfólks og sérfræðingum, tækifæri til að ræða við formann, þingmenn og fulltrúa Samfylkingarinnar milliliðalaust.

Jóhann Páll lagði fram og mælti fyrir frumvarpi um umfangsmiklar breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Meginmarkmið tillögunnar er að auka afkomuöryggi foreldra, tryggja barnshafandi foreldri rétt til launaðs meðgönguorlofs og að foreldrar barna fram að grunnskólaaldri öðlist rétt til 20% vinnutímastyttingar með stuðningi úr Fæðingarorlofssjóði í allt að sex mánuði.

Oddný lagði fram þingsályktunartillögu um réttlát græn umskipti. Með samþykkt hennar yrði ríkisstjórninni m.a. falið að gera tímasetta og fjármagnaða aðgerðaáætlun til að tryggja réttlát græn umskipti; koma í veg fyrir það ójafnrétti sem hlotist getur af loftslagsvá og tryggja að græn umskipti auki jöfnuð í samfélaginu.

Þórunn Sveinbjarnardóttir er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Nefndin hefur til umfjöllunar skýrslu Ríkisendurskoðunar um Fangelsismálastofnun og álit Umboðsmanns Alþingis um aðbúnað á Litla-Hrauni. Báðar segja sögu af vanrækslu stjórnvalda í þessum mikilvæga málaflokki. Þórunn hafði einnig haft frumkvæði að skoðun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á geðheilbrigðisþjónustu. Nefndin vinnur nú að gerð tillögu um skipun rannsóknarnefndar Alþingis vegna aðdraganda og eftirmála snjóflóðsins mannskæða í Súðavík í janúar 1995. Þórunn situr einnig í umhverfis- og samgöngunefnd og ber þar hæst þáttaka á COP28 í Dubai. Ísland styður markmiðið um að hlýnun jarðar fari ekki yfir 1,5 gráður en ekkert í aðgerðum ríkisstjórnarinnar benda til þess að hugur fylgi máli. Aðgerðir eru óljósar og alls ekki ljóst hvernig draga á úr losun fyrir árið 2030 eða ná lögbundnum markmiðum um kolefnishlutleysi árið 2040.

Dagbjört tók sæti í Allsherjar- og menntamálanefnd nú í haust. Dagbjört hefur lagt áherslu á að menntamál fái það vægi sem þau eiga skilið, með áherslu á lausnir jafnaðarstefnunnar. Hún lagði meðal annars fram frumvarp um systkinaforgang í leikskólum. Markmiðið með frumvarpinu er að gera sveitarfélögum kleift að veita yngri systkinum forgang á leikskóla eldra systkinis.

Sjálfur sit ég í utanríkismálanefnd og þar hefur umfjöllun um hryllinginn í Úkraínu og á Gaza tekið mikinn tíma. Nefndin lagði fram þingsályktunartillögu þar sem hryðjuverk og stríðsglæpir voru fordæmd, tafarlauss vopnahlés krafist á Gaza og að mannúðaraðstoð yrði tryggð. Hún var samþykkt samhljóða. Í kjölfarið gaf utanríkisráðherra munnlega skýrslu um viðbrögð ríkisstjórnarinnar, að beiðni þingflokks Samfylkingarinnar, og tókum við Kristrún þátt í þeirri umræðu. Þá lagði ég fram frumvarp um samfélagsþjónustu ungra brotamanna þar sem gert er ráð fyrir að dómstólum verði fengið það úrræði að dæma ungt fólk í samfélagsþjónustu. Það fæli í sér meiri virðingu fyrir þrískiptingu ríkisvaldsins, yki gagnsæi og gæfi dómstólum betra tækifæri til að taka á vanda ungra brotamanna.

Þrír varaþingmenn tóku sæti á Alþingi þetta haustið og létu öll að sér kveða. Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og ritstjóri hjá Forlaginu kom tvívegis inn á þing í fjarveru Þórunnar. Magnús Árni Skjöld dósent kom inn í nóvember þegar Jóhann Páll tók fæðingarorlof. Þá kom Ragna Sigurðardóttir læknir inn fyrir Dagbjörtu í nóvember.

Á nýju ári munum við halda áfram að ferðast vítt og breitt um landið, hitta jafnaðarfólk, skiptast á skoðunum og þiggja góð ráð og brýningar. Stýrihópur flokksins hefur einnig hafið vinnu við metnaðarfullt málefnastarf um atvinnu og samgöngur. Eftir áramót munum við því heimsækja vinnustaði um allt land  og halda fjölda opinna funda um atvinnu- og samgöngumál. Útkoman úr þeirri vinnu verður svo kynnt fyrir flokksstjórnarfund í vor, með útspili á borð við það sem var sett fram í heilbrigðismálum síðasta haust. Þessi vinna snýst ekki um breytingar á stefnu flokksins heldur fremur að móta áherslur, útfærslur og forgangsröðun fyrir nýja ríkisstjórn að loknum næstu kosningum og vonandi undir forystu jafnaðarfólks.

Kæru félagar, stuðningur ykkar og þátttaka hefur verið okkur mikils virði og við hlökkum til að eiga áframhaldandi samskipti á nýju ári. Þingflokkurinn sendir ykkur öllum óskir um friðsama og gleðilega hátíð og gæfuríkt komandi ár.

Jólakveðja fyrir hönd þingflokks Samfylkingarinnar,
Logi Einarsson þingflokksformaður