Kynlegt heimilishald

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Varða, rann­sókn­ar­stofn­un vinnu­markaðar­ins, birti niður­stöður rann­sókn­ar um sam­ræm­ingu fjöl­skyldu- og at­vinnu­lífs á dög­un­um. For­eldr­ar barna á aldr­in­um 12 mánaða til 12 ára voru í úr­taki könn­un­ar­inn­ar. Niður­stöðurn­ar eru slá­andi en orðrétt seg­ir í skýrsl­unni:

„Þrátt fyr­ir eina mestu at­vinnuþátt­töku kvenna í heim­in­um og að Ísland komi vel út í alþjóðleg­um sam­an­b­urði á jafn­rétti kynj­anna bera kon­ur ennþá meiri þunga af vinnu­álagi vegna heim­il­is­starfa og barna­upp­eld­is. Um þriðjung­ur kvenna er í hluta­starfi, lang­flest­ar til að auðvelda sam­ræm­ingu fjöl­skyldu- og at­vinnu­lífs.“

Sem sagt, kon­ur á vinnu­markaði aðlaga sig þörf­um fjöl­skyld­unn­ar en karl­arn­ir ekki. Þær bera þyngstu byrðar allra vakt­anna, þeirr­ar fyrstu, annarr­ar og þriðju, ásamt því að færa fórn­irn­ar sem þeim fylgja þegar kem­ur að starfs­frama og tekju­mögu­leik­um. „Það hrikt­ir í heims­mynd minni!“ voru kald­hæðnis­leg viðbrögð tveggja barna móður á besta aldri við þess­um tíðind­um.

Kon­ur minnka í mun meiri mæli starfs­hlut­fall sitt en karl­ar, þær lengja fæðing­ar­or­lofið en þeir ekki og þær bera mun meiri ábyrgð á sam­skipt­um við skóla barna. Ekki kem­ur á óvart að fjár­hags­staða ein­hleypra for­eldra er mun verri en sam­búðarfólks og þeir eiga erfiðara með að bregðast við starfs­dög­um í skóla og löngu sum­ar­leyfi barna.

Yf­ir­gnæf­andi meiri hluti karla er í fullu starfi og þeir þurfa ekki að hafa mikl­ar áhyggj­ur af því að leik- eða grunn­skól­inn hafi fyrst sam­band við þá ef barn veikist eða eitt­hvað kem­ur fyr­ir á skóla­tíma. Þeir virðast ekki hafa mikl­ar áhyggj­ur af því að geta sam­ræmt fjöl­skyldu- og at­vinnu­líf.

Í gær fögnuðu Íslend­ing­ar 105 ára full­veldi, sjálf­stæði lands og þjóðar. Á þessu ári eru líka 103 ár liðin frá því að all­ar kon­ur og fá­tæk­ir karl­ar fengu kosn­inga­rétt hér á landi. Ég minni líka á að fyr­ir meira en 60 árum var samþykkt á Alþingi að kon­ur og karl­ar skyldu fá sömu laun fyr­ir sömu vinnu. En eins og reynsl­an sann­ar, þá er eitt að breyta lög­gjöf og annað að breyta viðhorf­um, menn­ingu og sam­fé­lagi. Á það hafa kven­frels­is­kon­ur bent ára­tug­um sam­an.

Það þarf að rjúfa sam­stöðuna sem rík­ir hér á landi um tekju­fórn­ir kvenna og kyn­legt heim­il­is­hald. Það er ekk­ert eðli­legt við það að kon­ur hafi um það bil 20% lægri at­vinnu­tekj­ur en karl­ar. Lægri tekj­ur fram­kall­ast í lægri eft­ir­laun­um og verri rétt­ind­um á vinnu­markaði. Það er ekki held­ur nátt­úru­leg skip­an að mæður taki miklu stærri hluta fæðing­ar­or­lofs­ins en feður. Hætt­um að láta eins og þetta sé í lagi. Fyrst þá skap­ast for­send­ur fyr­ir efna­hags­legu sjálf­stæði kvenna og þeirra sem þær hafa á fram­færi.

Greinin birtist í Morgnublaðinu 2. desember 2023.