Raforkuöryggi heimilanna

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Fram til ársins 2003 bar Landsvirkjun ábyrgð lögum samkvæmt á raforkuöryggi á Íslandi. Það ár var innleiddur samkeppnismarkaður með raforku og frá þeim tíma hefur enginn, hvorki opinbert stjórnvald né opinber raforkuframleiðandi, borið ábyrgð á því að tryggja raforkuöryggi í landinu. Á þetta hefur margoft verið bent og einnig flutt þingmál til að vekja athygli á stöðu sem hvorki getur talist skynsamleg né sanngjörn.

Hér á landi eru í raun tveir orkumarkaðir. Markaður stórnotenda sem keppa á alþjóðamarkaði og gera leynilega langtímasamninga um kaup á raforku við stórfyrirtæki á borð við Landsvirkjun. Á hinum markaðnum er raforka seld til heimila og fyrirtækja, annarra en stóriðju. Mörg fyrirtæki og jafnvel sveitarfélög gera orkusamninga sem kveða á um skerðingar í slæmum vatnsárum gegn lægra verði. Sú staðreynd vill oft gleymast í umræðunni. 

Í samræmi við ákvæði þriðja orkupakkans bera stjórnvöld sérstaka ábyrgð á því að tryggja raforkuöryggi almennra notenda og eiga að skilgreina þá ábyrgð sem alþjónustu (e. public service obligation) í lögum. Ég flutti á síðasta löggjafarþingi tillögu um að ríkisstjórnin setti þessa skyldu við almenning í lög. Hún var ekki afgreidd en á yfirstandandi þingi lagði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fram frumvarp til breytinga á raforkulögum sem tekur á þessu atriði, það er að skilja á milli stórnotenda og almennings á raforkumarkaði.

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp frá atvinnuveganefnd þar sem lagt er til að raforkuöryggi til kaupenda á almennum orkumarkaði verði tryggt og kveðið á um að þau skuli njóta forgangs ef til skömmtunar kemur vegna ónógs raforkuframboðs. Það gerist til dæmis í vondum vatnsárum þegar uppistöðulón vatnsaflsvirkjana safna ekki þeim vatnsforða sem nauðsynlegur er til að sinna spurn eftir raforku yfir veturinn. Náttúrulegar auðlindir eru einmitt það, náttúrulegar og háðar sveiflum í vistkerfum og veðurfari. Sveiflurnar valda meðal annars vondum vatnsárum með reglulegu millibili. Það eru ekki ný tíðindi. 

Með því að kveða á um rétt almennings og smærri fyrirtækja til alþjónustu er almenningi í landinu tryggður réttur til fá afhenta raforku af tilteknum gæðum á sanngjörnu verði sem er auðveldlega og greinilega samanburðarhæft, gagnsætt og án mismununar. Þá er rétt að minna á orkustefnu til 2050 en segir að almenningur og þjónusta í almannaþágu skuli ávallt njóta forgangs umfram aðra hagsmuni.

Það er auðvelt að gagnrýna aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í þessum málum um árabil en það er ódýr pólitík að setja sig upp á móti tillögum um að raforkuöryggi heimilanna verði tryggt. Stjórnvöldum ber skylda til að tryggja raforkuöryggi almennings.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. desember 2023.