Samleið með þjóðinni

Áramótagrein formanns Samfylkingarinnar birtist í Morgunblaðinu 30. desember 2023.

Samfylkingunni hefur ekki enn tekist að verða sá flokkur sem henni var ætlað að vera. Burðarflokkur á Íslandi til lengri tíma, líkt og systurflokkar Samfylkingar hafa löngum verið á Norðurlöndum.

Fyrir því eru ýmsar ástæður. Þrátt fyrir öfluga forystusveit tókst ekki að sameina flokkinn um kjarna sinn — jafnaðarstefnu með stjórnfestu. Þar var ekki við þjóðina að sakast enda er sterk jafnaðartaug víða í íslensku samfélagi og sósíaldemókratar í flestum flokkum. Ef Samfylkingin stæði undir nafni væri slagkrafturinn hins vegar meiri fyrir fólkið í landinu.

Saman höfum við breytt Samfylkingunni
Þess vegna litum við í eigin barm. Og þess vegna ákváðum við að breyta Samfylkingunni. Með því að fara aftur í kjarnann, ná aftur virkari tengingu við venjulegt fólk og sameinast um stóru línurnar. Því að Samfylkingin á að vera flokkur sem stendur þétt með þjóðinni, við bak hins vinnandi manns, með ofuráherslu á kjör, velferð og efnahag almennings.

Þetta höfum við gert. Breytingarnar felast ekki aðeins í nýrri forystu og nýju merki — sem nú er rauð rós, alþjóðlegt tákn jafnaðarfólks. Heldur höfum við raunverulega breytt forgangsröðun, áherslum og verklagi Samfylkingarinnar. Við höfum opnað flokkinn upp á gátt og átt víðtækt samráð við fólkið í landinu. Í metnaðarfullu málefnastarfi höfum við tekið heilbrigðis- og öldrunarmál föstum tökum. Nú sinnum við atvinnu og samgöngum með sama hætti. Húsnæði og kjaramál verða næst á dagskrá.

Þannig höfum við breytt Samfylkingunni, saman, og þar hefur fjöldi fólks um land allt lagt okkur lið með beinum og óbeinum hætti á liðnu ári. Fyrir það erum við þakklát — en um leið meðvituð um að það tekur tíma að byggja upp traust á ný. Við tökum engu sem gefnu en vinnum jafnt og þétt til undirbúnings. Í von um annað tækifæri til að uppfylla hlutverk Samfylkingarinnar í þjónustu þjóðar.

Við eigum enn verk fyrir höndum og höldum áfram á þessari braut. Allt samkvæmt áætlun.

Örugg skref
Því þegar það er óreiða hjá ríkisstjórninni þá er mikilvægt að þjóðin upplifi festu í Samfylkingunni. Þess vegna höfum við haldið okkar striki og látið aðra um að eltast við skoðanakannanir og þá sem hafa hæst hverju sinni á samfélagsmiðlum.

Í haust kynntum við Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum — fimm þjóðarmarkmið til tveggja kjörtímabila og örugg skref í rétta átt í þessum mikilvægu málaflokkum. Útspilið er afrakstur hátt í fjörutíu opinna funda með almenningi í bakaríum, menningarsölum, alþýðuhúsum og félagsheimilum — og annars eins af fundum á vinnustöðum með fólkinu af gólfinu og öðrum sérfræðingum um heilbrigðiskerfið. Þó að vinna af þessu umfangi sé vitaskuld leidd af pólitískri forystu og grundvallist á klassískum gildum jafnaðarmennsku þá er tilfinningin, innblásturinn og forgangsröðunin sótt til fólksins í landinu, milliliðalaust. Það gefur okkur styrk og fullvissu.

Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum hafa fengið jákvæð viðbrögð og næsta vor kynnum við samskonar útspil eftir vinnuna sem nú stendur yfir um atvinnu og samgöngur. Útkoman á að vera Vaxtarplan fyrir Ísland til næstu ára og áratugar. Stýrihópur Samfylkingarinnar á þessu sviði hefur þegar hafið störf. Í janúar heimsækjum við frændur okkar Norðmenn og kynnum okkur stefnu þeirra og verklag þegar kemur að auðlindum, orkumálum og uppbyggingu á samgönguinnviðum. Þar náum við vinnufundum með forsætisráðherra Noregs, ráðherrum orku- og samgöngumála, sérfræðingum ráðuneyta og með fulltrúum frá norska Alþýðusambandinu (LO) og Samtökum atvinnulífsins (NHO).

Því næst ætlum við að heimsækja 100 fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Og loks höldum við í aðra hringferð um landið þar sem við heimsækjum vinnustaði og efnum til opinna funda — að þessu sinni með áherslu á atvinnu og samgöngur. Ég hlakka til. Við bindum miklar vonir við þessa vinnu og hvetjum öflugt fólk um land allt til að leggja okkur lið með samtali og ólíkum sjónarmiðum.

Engin heljarstökk
Samfylkingin er stjórnmálaflokkur sem hefur mikinn metnað fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. En eins og ég hef áður sagt þá má metnaðurinn aldrei verða til þess að við missum tengsl við daglegan veruleika og þarfir fólksins í landinu. Eins og þörfina fyrir stöðugleika, festu og öryggi.

Þess vegna boðum við engin heljarstökk heldur örugg skref. Við skiljum að það eru dýrmætir þættir í okkar samfélagi, í okkar umhverfi, sem binda okkur saman sem þjóð — og sem okkur ber skylda til að vernda og varðveita. Fólkið sem hér býr er ekki bara partur af öllu og engu. Við eigum saman þetta samfélag, á Íslandi, sem við höfum byggt upp frá kynslóð til kynslóðar.

Þetta skiptir máli. Því í heimi hraðra breytinga hefur fólk víða misst fótfestu og upplifað óöryggi þar sem áður var öryggi. Og þá getur þráin eftir því að vernda, varðveita og passa upp á ákveðið jafnvægi orðið þungamiðjan í jafnaðarstefnu sem svarar kalli tímans. Jafnaðarstefnu með stjórnfestu — sem setur öryggi, velferð og virðingu fólks í fyrsta sæti.

Þetta þýðir ekki að stjórnmálin eigi að festast. Þvert á móti. Enda hættir heimurinn ekki að snúast þó að ráðamenn forðist stórpólitískar ákvarðanir og þræti þess í stað um smærri mál á jaðrinum. Það þarf stórhuga stjórnmál til að standa vörð um undirstöður samfélagsins. Virka stjórn og afgerandi stefnu. Pólitíska forystu um að framkvæma það sem þorri þjóðar getur sameinast um — í stað þess að velkjast áfram til og frá. Þannig náum við aftur stjórn og nýtum fullveldi okkar í þágu fólksins sem hér býr. Þetta skilur Samfylkingin.

Sterk velferð, stolt þjóð
Stundum er látið eins og það sé óumflýjanleg þróun í nútímasamfélagi að við fjarlægjumst hvert annað. Að samheldnin láti undan og rætur slitni. Ég veit að það býr djúpstæð þrá meðal landsmanna eftir kröftugri andspyrnu gegn þessari þróun. Okkar sýn er að færa fólkið í landinu nær hvert öðru en ekki fjær. Meðal annars með því að gæta þess sem gerir samfélagið okkar dýrmætt — þess sem við eigum saman og höfum byggt upp saman hér á Íslandi með harðfylgi og seiglu.

Hvers konar þjóð við viljum vera? Stolt þjóð með sterkt velferðarkerfi? Eða lausbundið samansafn einstaklinga sem eiga lítið sameiginlegt nema að búa á þessari eyju norður í Atlantshafi? Svar okkar í Samfylkingunni við þessum spurningum er skýrt: Sterk velferð, stolt þjóð — það er sá valkostur sem við viljum bjóða.

Enda höfum við flest ríka þörf fyrir ákveðna samheldni og nánd. Þetta hef ég fundið sterkt á ferðum okkar um landið. Á Hólmavík heimsóttum við hvert einasta heimili til að eiga samtal um útspil okkar í heilbrigðis- og öldrunarmálum og þar slógust heimamenn í lið með okkur. Fólk keyrði jafnvel þriggja klukkustunda leið fram og til baka, héðan og þaðan af Vestfjarðakjálkanum, til að leggja okkur lið í þessu verkefni — til að afla stuðnings fyrir sterkari velferð um land allt. Þegar við ætluðum að leika sama leik á Stöðvarfirði reyndust fáir vera heima. En þá var okkur snarlega kippt inn til félags eldri borgara á staðnum þar sem tugir bæjarbúa gæddu sér á dýrindis brauðsúpu með rjóma. Og þar var okkur boðið í smakk og spjall um landsins gagn og nauðsynjar.

Það eru svona stundir sem standa upp úr á liðnu ári. Og sem fylla mann von um að við Íslendingar getum sameinast um stórhuga stjórnmál sem hlúa að þeirri samfélagsgerð sem er okkur svo kær.

Þessi dýrmæta samheldni hefur líka birst okkur á síðustu misserum í sterku samfélagi Grindvíkinga og hjá björgunarsveitarfólki og öðrum sem standa vaktina í almannaþjónustu. Svo ekki sé minnst á samhug almennra borgara sem hafa opnað heimili sín fyrir fjölskyldum frá Grindavík. Á tímum sem þessum sannar samtryggingin gildi sitt — sem við viljum hlúa að og efla.

Tilbúin til þjónustu
Á nýju ári höldum við ótrauð áfram. Við höfum einsett okkur að breyta íslenskum stjórnmálum og við byrjuðum á sjálfum okkur. Ég trúi því að Samfylkingin eigi samleið með þjóðinni. Það er hins vegar undir okkur sjálfum komið að ávinna okkur traust fólksins í landinu og að villast ekki af leið.

Samfylkingin er tilbúin til þjónustu. Og við munum ganga auðmjúk til verka — fáum við til þess traust í næstu kosningum til Alþingis.

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það liðna.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands