Einn af hverjum fjórum á vinnumarkaði

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Nokkuð hefur verið fjallað um málefni innflytjenda hér á landi undanfarna daga meðal annars vegna þess að Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur sett þennan mikilvæga málaflokka á dagskrá með afgerandi hætti. Viðbrögðin hafa ekki staðið á sér. Sumir tala um kúvendingu Samfylkingarinnar en svo er ekki. Stefna Samfylkingarinnar er óbreytt og grunngildi flokksins um virðingu fyrir mannréttindum og alþjóðasáttmálum er sem fyrr leiðarljós jafnaðarfólks. En flest erum við líklega þeirrar skoðunar að málefnaleg opinber umræða um staðreyndir sé af hinu góða.


Fjórða hver manneskja á vinnumarkaði er útlendingur. Hingað komin til að starfa í ferðaþjónustunni og heilbrigðiskerfinu, á dekkjaverkstæðum og í sprotafyrirtækjum og háskólum, svo að nokkur nærtæk dæmi séu nefnd. Mjög mörg þessara starfa eru láglaunastörf, til dæmis við ræstingu á heilbrigðisstofnunum og umönnun aldraðra á hjúkrunarheimilum. Sabine Leskopf borgarfulltrúi Samfylkingarinnar benti á það augljósa í blaðagrein í gær: Grunnþjónustan í íslensku samfélagi mundi hrynja ef fólk væri ekki tilbúið til að flytja hingað og starfa.

 

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands sem unnar eru upp úr staðgreiðslugögnum hefur hlutfall innflytjenda starfandi á íslenskum vinnumarkaði farið úr 7% í 23% á tæplega 20 ára tímabili. Á síðasta ári var því nær fjórði hver einstaklingur á vinnumarkaði innflytjandi eða um 50.000 manns. Í árslok voru innflytjendur rúmlega 18% af mannfjöldanum. Atvinnuþátttaka innflytjenda er því meiri en annarra landsmanna.

Á árunum 2018 - 2022 fjölgaði erlendum ríkisborgurum á Íslandi um 5.600 árlega að meðaltali og langflestir fluttu hingað vegna þátttöku á íslenskum vinnumarkaði. Árið 2017 var hlutfall innflytjenda á vinnumarkaði 17% en í er eins og fyrr segir 23% í dag. 

Það segir sig sjálft að hér eru á ferðinni miklar þjóðfélagsbreytingar á skömmum tíma. Breytingar sem ekki hefur verið mætt með tilskildum hætti af yfirvöldum. Gamla klisjan frá Þýskalandi: Okkur vantaði vinnuafl en við fengum fólk, á ágætlega við á Íslandi í dag. Hingað kemur fólk til starfa, það sinnir störfum sem Íslendingar sækjast ekki eftir, greiðir skatta, á börn sem þurfa að ná tökum á íslensku auk móðurmálsins. Við eigum að gera allt til þess að þau geti orðið fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Það er í anda velferðar og lýðræðis.

 

Að lokum þetta. Þorri þeirra sem hingað koma í leit að vinnu er af evrópska efnahagssvæðinu. Þeim er frjáls för hingað og héðan en mörg kjósa að setjast að á Íslandi. Það á ekki við um flóttafólk sem beiðist alþjóðlegrar verndar. Hlutskipti þess er allt annað og verra. Reynum að sýna því skilning og hafa staðreyndir á hreinu í umræðunni um innflytjendur á Íslandi.