Tekjutap kvenna af barneignum

Þórunn,  kraginn, banner,

Hver ber ábyrgð? Var spurt í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna í gær.

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Til umfjöllunar var fæðingarorlof og svokallað umönnunarbil, sem er tíminn eftir að fæðingarorlofi lýkur og þangað til barn fær pláss á leikskóla. Það er full ástæða til að spyrja um ábyrgð í þessu samhengi og þá sérstaklega um það hvort foreldrið (þegar um tvö, tvær eða tvo er að ræða) tekur að sér að brúa þetta bil.

Hér á landi er staðan enn sú að konur taka meiri hluta fæðingarorlofsins og eru mun líklegri til þess að þess að lengja orlofið eða fara í hlutastarf að því loknu í þeim tilgangi að brúa umönnunarbilið. Hvort tveggja leiðir til langvarandi og tilfinnanlegs tekjutaps fyrir konur á vinnumarkaði.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir benti nýleg á að fjármála- og efnahagsráðuneytið byggi yfir upplýsingum um muninn á tekjutapi karla og kvenna vegna barneigna. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að tekjufall kvenna eftir barneignir er allt annað og miklu meira en karla. Á það var meðal annars bent í umfjöllun tímaritsins The Economist nýverið.

Mér finnst alltaf jafn athyglisvert að heyra fólk útskýra afstöðu sína til töku fæðingarorlofs. Fyrir karla er taka fæðingarorlofs efnahagsleg ákvörðun og það frekar einföld: Hversu lengi er hægt að lifa á 600 þúsund krónum á mánuði fyrir skatta? Flest virðast sýna því mikinn skilning að karlar skeri fæðingarorlofstökuna við nögl vegna tekjutapsins sem þeir verða fyrir.

Minna ber á sömu viðbrögðum þegar konur eiga í hlut. Það er eins og það sé þegjandi samkomulag um það í hinni heimsfrægu jafnréttisparadís að tekjutap kvenna vegna fæðingarorlofstökunnar sé náttúrulögmál, að minnsta kosti ekkert sem þurfi að gera veður út af. Og megi krafturinn vera með þeirri konu sem dirfist að kvarta yfir 600 þúsund króna mánaðartekjum!

Afstaðan endurspeglar rótfastar hugmyndir um stöðu kvenna í samfélaginu, á vinnumarkaði og á heimilinu. En hún endurspeglar líka blákaldar staðreyndir um muninn á tekjum kvenna og karla. Atvinnutekjur kvenna eru 21% lægri en karla. Það er óhagganleg staðreynd sem hefur alls kyns afleiddar og afleitar afleiðingar, til dæmis á skiptingu fæðingarorlofs á milli foreldra.

 

Misréttið á vinnumarkaði og vanmat á störfum kvenna til launa hefur til allra heilla minnkað smám saman á undanförnum áratugum. En þrátt fyrir það verða reglulega á vegi mínum eldfornar hugmyndir um hlutverk kvenna inni á heimilum og á vinnumarkaði. Það er til marks um bakslagið sem orðið hefur í jafnréttisbaráttunni og ekki sér fyrir endann á.

 

Tekjufórn kvenna á vinnumarkaði vegna fæðingarorlofstöku er langt frá því að vera sjálfsagt mál. Hún leiðir til lægri ævitekna, verri kjara og verri réttinda á vinnumarkaði og að lokum til lægri eftirlauna þegar að því kemur setjast í helgan stein.  Að þessu leyti eru konur á Íslandi enn til færri fiska metnar en karlar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. mars 2024.