Auðlindir afhentar á silfurfati

Í vikunni mælti nýr matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sem einnig er á þingi fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, fyrir frumvarpi um lagareldi, sem tekur til eldis á landi og í sjó.

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður


Svæði til sjókvíaeldis við Íslandsstrendur eru takmörkuð auðlind sem er á forræði íslenskra stjórnvalda. Með útgáfu rekstrar og starfsleyfa er leyfishöfum veitt takmörkuð og tímabundin réttindi til hagnýtingar á þeim.


Textann hér að ofan má finna í stefnu Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um uppbyggingu og umgjörð lagareldis til 2040 sem kynnt var í október. Hún er sögð byggja á stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um umgjörð, lagaframkvæmd og stjórnsýslu sjókvíaeldis frá febrúar 2023 og skýrslu sem erlent ráðgjafafyrirtæki vann fyrir ráðuneytið.

Í vikunni mælti nýr matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sem einnig er á þingi fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, fyrir frumvarpi um lagareldi, sem tekur til eldis á landi og í sjó. Þar kveður við annan tón og lagt er til að rekstrarleyfi til sjókvíaeldis verði ótímabundin. Það er í hrópandi ósamræmi við stefnuna sem frumvarpið er sagt byggja á. 

Hingað til hafa fiskeldisfyrirtækin fengið rekstrarleyfum úthlutað til 16 ára í senn með möguleika á framlengingu að þeim tíma liðnum. Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar leggur til, af fullri alvöru og að því er virðist eindrægni, að afhenda núverandi og nýjum handhöfum rekstrarleyfa í sjókvíaeldi ótímabundin yfirráð yfir sameiginlegri náttúrulegri auðlind. Það er, að afhenda einkaaðilum sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar á silfurfati, án þess að gjald komi fyrir. 

 

Við fyrstu umræðu um frumvarp ráðherrans tókst þingmönnum stjórnarflokkanna ekki að styðja þessa fásinnu með neinum haldbærum rökum. Enginn gat svarað því hvers vegna ekki væri byggt á stefnumótuninni frá því í haust. Ekkert þeirra gat svarað því hvers vegna rekstrarleyfi í sjókvíaeldi geti ekki verið tímabundin eins og flest önnur nýtingarleyfi. Orkufyrirtækjum í landinu er til dæmis úthlutað tímabundnum rekstrarleyfum. 


Þingmenn héldu því fram að hér væri einungis verið að bregðast við tilmælum Ríkisendurskoðanda um að núgildandi löggjöf sé óskýr. Athyglisvert í ljósi þess að nú er einmitt tækifærið til að taka af öll tvímæli um réttarstöðu rekstrarleyfishafa og kveða skýrt á um tímabindingu leyfanna. Í löndum þar sem sjókvíaeldi er stöndugur atvinnuvegur, eins og Færeyjum, Írlandi, Skotlandi, Síle og Nýja-Sjálandi, eru heimildirnar tímabundnar. Í stjórnarsáttmála norsku ríkisstjórnarinnar má finna fyrirætlanir um tímabindingu.

Tæpum aldarfjórðungi eftir að nefnd Jóhannesar Nordal skilaði tímamótaskýrslu um auðlindamál erum við stödd á byrjunarreit. Frumvarp matvælaráðherra má ekki verða óbreytt að lögum. Það stríðir gegn almennri skynsemi og kröfunni um réttláta auðlindastefnu þar sem almenningur nýtur rentunnar af nýtingu náttúruauðlinda í sameiginlegri eigu okkar.