Ræða Kristrúnar: „Krafa um árangur“
Ræða Kristrúnar Frostadóttur á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar 20. apríl 2024 á Hótel Laugarbakka.
I.
Flokksstjórn, kæru félagar, ágætu gestgjafar úr Húnaþingi vestra, og austursýslunni, og þið sem hafið komið um lengri veg. Það er gaman að vera saman á flokksstjórnarfundi á Laugarbakka og við ætlum svo sannarlega að skemmta okkur hérna í dag, og vonandi vel fram eftir kvöldi.
En það er nú samt þannig að öllu gamni fylgir nokkur alvara! Þó við séum mörg samankomin hérna í dag þá erum við ekki beint stór hluti af þjóðinni – en þetta er mikilvægur hópur fólks; flokksstjórn Samfylkingarinnar og þið öll.
Því alvara málsins er sú að við berum mikla ábyrgð. Samfylkingin er merkisberi jafnaðarstefnu á Íslandi; sósíaldemókrasíu – þeirrar stjórnmálastefnu sem hefur getið af sér einhver farsælustu samfélög í heimi hér á Norðurlöndum. Við berum ábyrgð á framgangi þessarar stefnu fyrir fólkið sem hér býr.
Minnum okkur á: Hvers vegna við erum að þessu yfir höfuð? Byrjum á því að hugsa til fólks sem við þekkjum úr daglegu lífi – sem ber von í brjósti; um að við náum þeim árangri sem við höfum einsett okkur að ná. Þetta er alls konar fólk og það getur haft alls konar ólíkur ástæður fyrir því að vona, en á það sameiginlegt að það reiðir sig á að við stöndum okkur í stykkinu – og rísum undir ábyrgð okkar.
Þetta getur verið hugsjónafólk, vinnandi fólk, venjulegt fólk eða bara fólk með mismunandi bakgrunn, sem býr við ólíkar aðstæður og tekst á við alls konar áskoranir í sínu daglega lífi.
Stundum hafa stjórnmálin þróast þannig að landsmenn hafa fyllst vonleysi og hinn almenni Íslendingar misst trúna á að við getum unnið sigra og stjórnað Íslandi betur í þágu fjöldans.
Það er óvinnandi staða fyrir sósíaldemókratískan flokk, eins og Samfylkinguna, því án vonar vinnum við ekki neitt.
En hugsum núna til þess að á þessari stundu er fjöldi fólks um land allt – sem ber þessa von í brjósti og horfir nú til Samfylkingarinnar. Við vitum þetta alveg. Við vitum það af ferðum okkar um landið og samtölum við fjölda fólks – að það skiptir þúsundum, ef ekki tugum þúsunda; þetta fólk sem horfir nú til okkar; aftur, í einhverjum tilfellum eða jafnvel í fyrsta sinn.
Og leyfir sér að vona að okkur takist þetta: að okkur takist að endurreisa velferðarkerfið – eins og við ætlum okkur að gera, að okkur takist að lyfta innviðum landsins, að okkur takist að rífa hlutina í gang og koma Íslandi aftur á rétta braut. Eins og við ætlum okkar að gera, fáum við til þess umboð hjá þjóðinni í næstu kosningum.
Þetta eru væntingar sem við viljum standa undir, kæru félagar. Við megum ekki bregðast þessu fólki núna. Það er bara of mikið í húfi – fyrir of marga; of langur tími af of litlum árangri í íslenskum stjórnmálum.
Þátttaka okkar í pólitík er ekki til þess gerð að vinna einhvern leik. Þetta snýst um það hvernig samfélagi við viljum búa í. Og við verðum bara að sameinast um leiðir að því marki: Samstilla okkur – til að vinna sigra. Fyrst í kosningum og svo í ríkisstjórn.
Þetta er nauðsynlegt til að við náum þeim árangri sem við höfum einsett okkur að ná. Og við berum ábyrgð á þessu saman! Hvert og eitt okkar.
Kæra flokksstjórn, ég segi þetta núna – ekki vegna þess að okkur hafi ekki gengið vel upp á síðkastið – heldur einmitt vegna þess að okkur hefur gengið vel. Og það sem ég óttast mest á þessum tímapunkti er kæruleysi; að við förum að taka einhverju sem gefnu sem er svo órafjarri því að vera sjálfgefið – eins og við ættum að vita af fenginni reynslu.
En eftir heilt ár af fylgiskönnunum þar sem Samfylkingin mælist langstærsti stjórnmálaflokkurinn þá er þetta raunveruleg ógn: að kæruleysið læðist aftan að okkur og eyðileggi allt. Það má ekki gerast. Enda er ekkert í hendi og við höfum bara enga innistæðu fyrir því að vera kærulaus, eða vanmeta valdaflokkana sem við ætlum okkur að leysa af hólmi eftir næstu kosningar.
Og – ég ætla ekki að vera svona alvörugefin allan tímann – en það skiptir máli fyrir okkur öll að hafa þetta hugfast: Munum hvers vegna við erum að þessu. Og verum ekki kærulaus.
II.
Flokkstjórn, höldum okkar striki, vinnum áfram skipulegu að settu marki: Allt samkvæmt áætlun. Örugg skref – engin heljarstökk.
Hvað sögðum við síðast – á flokksstjórnarfundinum á Akureyri? Við sögðum: Þegar það er óreiða hjá ríkisstjórninni – þá á þjóðin að upplifa festu í Samfylkingunni.
Og viti menn: Á meðan ríkisstjórnin hélt áfram að fara í alls konar kollhnísa og funda með sjálfri sér um sjálfa sig… Þá tókum við enn einn hring um landið – héldum hátt í 30 opna fundi með almenningi, að þessu sinni um atvinnu og samgöngur, og heimsóttum 180 fyrirtæki um land allt; í öllum greinum atvinnulífsins.
Ekki bara eitthvað út í bláinn um allt og ekkert. Heldur nákvæmlega samkvæmt þeirri áætlun sem við lögðum upp á landsfundi haustið 2022.
Þaulskipulögð alvöru vinna með öflugan stýrihóp, víðtækt samráð og vinnufundir með sérfræðingum. Og nú erum við búin að skila af okkur þessu útspili: Krafa um árangur í atvinnu- og samgöngumálum.
Og eins og við fórum yfir hérna í umræðunni áðan þá eru þetta kröfur frá þjóðinni sem við höfum meðtekið og gerum að okkar: Þrjár grundvallarkröfur í atvinnu- og samgöngumálum sem Samfylkingin gerir til næstu ríkisstjórnar – sem við bjóðum okkur fram til að leiða. Þannig er þetta eins konar verklýsing fyrir nýja ríkisstjórn. Grundvallarkröfur í mikilvægum málaflokkum og aðgerðir til árangurs svo hægt verði að ná settu marki á tveimur kjörtímabilum.
Í fyrsta lagi: Krafa um framfarir í orku- og samgöngumálum – þar sem við setjum fram töluleg markmiðum um orkuöflun til ársins 2035 og fjárfestingar í samgönguinnviðum. Í öðru lagi: Krafa um skynsemi í auðlindastefnu – með almennum auðlindagjöldum frá fyrsta kjörtímabili, sem renni til nærsamfélags og þjóðar. Og í þriðja lagi: Krafa um íslensk kjör og atvinnustefnu fyrir Ísland – með áherslu á að auka framleiðni í hagkerfinu og að taka fast á félagslegum undirboðum á vinnumarkaði.
Við ákváðum að kynna þetta útspil fyrst fyrir flokksstjórninni hérna á Laugarbakka. Og í næstu viku munum við kynna Kröfu um árangur í atvinnu- og samgöngumálum í fjölmiðlum og taka tillögur okkar aftur út til almennings. Ég hlakka til og vona að sem flest ykkar muni leggja okkur lið í því verkefni að kynna útspilið á næstu vikum. Ég er mjög ánægð með útkomuna og stýrihópinn: Örnu Láru, Kristján Þórð, Möggu Kristmanns og Stefán Þór – takk aftur fyrir ykkar vinnu! Gefum þeim gott klapp.
Þetta er vaxtarplan sem gengur út á að lyfta innviðum Íslands upp um flokk á næstu 10 árum, til að auka öryggi og efla atvinnulíf víðs vegar um landið. Þannig viljum við styrkja lífæðar samfélagsins – grunninnviðina sem flest annað byggir á, með beinum eða óbeinum hætti, og sem stjórnvöld bera ábyrgð á að viðhalda og byggja upp.
Þar hefur núverandi ríkisstjórn skilað svo gott sem auðu, sem kristallast svolítið í Stóra núllinu; framkvæmdastoppinu frá 2017 þar sem framkvæmdir hafa hafist við 0 jarðgöng og 0 nýjar virkjanir yfir 10 MW – hvort sem litið er til virkjana sem nýta vatnsafl, jarðvarma, vind eða aðra orkugjafa. Ekki mikill árangur hjá ríkisstjórn sem vildi kenna sig við innviði!
En Samfylkingin hefur einbeittan vilja til verklegra framkvæmda. Og við höfum ákveðið að vera tilbúin til framkvæmda frá fyrsta degi í nýrri ríkisstjórn. Því að þjóðin gerir kröfu um árangur – sem við erum staðráðin í að standa undir.
Ég vil staldra aðeins við þetta, kæru félagar. Því uppbygging gallharðra innviða, vilji til verklegra framkvæmda – þetta eru risastór réttlætismál. Við höfum rætt við fjöldan allan af barnafólki á ferðum okkar um landið sem láta ástand vega koma í veg fyrir að börn þeirra sæki íþróttir, afþreyingu – sums staðar jafnvel skóla. Fólk, sérstaklega, konur veigrar sér við því að sækja atvinnutækifæri út fyrir byggðalagið því það treystir ekki innviðum landsins til að skila sér öruggu heim.
Félagar, þetta er jafnréttismál, réttlætismál að laga innviði landsins – auk þeirra gífurlegra tækifæra til verðmætasköpunar sem við verðum af því að sitja föst í umferð á höfuðborgarsvæðinu eða með því að koma í veg fyrir atvinnuuppbyggingu í hinu dreifðari byggðum. Þetta er risastórt mál og þetta gengur ekki lengur.
Með skynsamlegri og réttlátri auðlindastefnu viljum við síðan skapa sterkan ramma fyrir vöxt og verðmætasköpun um land allt. En þar hefur núverandi ríkisstjórn gjörsamlega brugðist og ekkert gert nema að skipa nefndir – í sumum tilvikum mjög stórar nefndir – en árangursleysið er algjört.
Og varðandi efnahagsstefnuna í heild: Þá hefur hagvöxtur á mann verið minni á Íslandi frá árinu 2017 en gengur og gerist á Norðurlöndum og í Evrópu, þrátt fyrir að hér hafi hagkerfið vaxið hraðar heilt yfir. Þetta skýrist af því að hér hefur hagvöxturinn verið keyrður áfram af vexti í vinnuaflsfrekum atvinnugreinum. Og samhliða því hefur orðið mikil fólksfjölgun – þar sem fjöldi innflytjenda hefur tvöfaldast á 7 árum – án þess að nauðsynlegir innviðir og grunnþjónusta hafi haldið í við þá þróun. Þetta er alvarleg staða – sem núverandi ríkisstjórn talar sjaldan um, þrátt fyrir mikinn áhuga á útlendingamálum.
Svona er þróunin þegar stefnan er engin. Lífskjör okkar á Íslandi byggja á góðum og vel launuðum störfum, atvinnugreinum með háa framleiðni og sterku velferðarkerfi. Og þess vegna ættu stjórnvöld að hafa stefnu um það hvers konar atvinnulíf byggist upp á Íslandi til að standa undir íslenskum kjörum og velferð.
Við boðum slíka stefnu í útspilinu sem kynnt var fyrr í dag.
Í staðinn hefur bara verið keyrt áfram án tillit til aðstæðna, innviða, samfélagsins, fólksins sem vinnur vinnuna. Höfum það á hreinu kæra flokksstjórn að þó Samfylkingin skilji mikilvægi verðmætasköpunar í atvinnulífinu og hagvaxtar til að standa undir nútímakröfum velferðarsamfélags þá þýðir það ekki að við styðjum vöxt á hvaða forsendum sem er. Við styðjum ekki vöxt sem gengur gegn samfélagssáttmálanum okkar – vöxt sem felur í sér að ala hér á tvískiptu samfélagi þeirra sem þjóna og þeirra sem kaupa þjónustuna, tvískiptu samfélagi sem felur í sér ójöfn valdahlutföll því fólk getur ekki tjáð sig í íslensku samfélagi, getur ekki tekið þátt í félagsstarfi, læðist meðfram veggja án þess að eftir því sé tekið.
Hér ber okkur að staldra við: Allir sem hér búa eiga að vera jafngildir þátttakendur í okkar samfélagi. Það eru engar styttri leiðir til að styrkja hagkerfi eða samfélög – hagvöxtur síðustu ára hefur verið innviðafrekur, skapað víða ofþenslu og ójafnvægi. En hann hefur líka vakið okkur til umhugsunar um gildin okkar, hvað það þýðir að vera hluti af íslensku samfélagi og hvernig við viljum sjá það þróast.
Hagvöxtur síðustu ára hefur verið of dýru verði keyptur. Of dýru verði keyptur hvað varðar álag á innviði, en það sem mikilvægara er of dýru verði keyptur hvað varðar áhrif á samfélagsgerð okkar – fleygurinn sem er að skapast á milli fólks eftir því hvar það starfar og hvaðan það kemur hefur stækkað. Svona er þróunin þegar atvinnustefnan er engin. Velferðarstefnan er engin og ágreiningur er um hvað gerir gott samfélag meðal þeirra sem stjórna – þegar fólk er ósamstillt við stjórn landsins.
III.
Kæru félagar. Eftir umfangsmikla yfirferð í atvinnu- og samgöngumálum þar sem við kynnum okkar áherslur á næstu tveimur kjörtímabilum, hvar við sjáum tækifæri til frekari verðmætasköpunar og með hvaða hætti stjórnvöld eiga að horfa til atvinnumála í landinu er því sjálfsagt framhald að snúa okkur að húsnæðis- og kjaramálunum.
Þetta er beint framhald af því sem ég talaði um rétt í þessu: tækifæri, aðstöðu, jafnrétti og tök á því að taka þátt í íslensku samfélagi. Það er ekki nóg að búa bara til atvinnu, vitna hér bara til þess að ekkert atvinnuleysi sé að finna á Íslandi – þegar við öll vitum að hér hefur þurft að sækja utan landssteinana fólk til að hjálpa okkur að byggja upp landið – fólk þarf að búa einhvers staðar, mikil fólksfjölgun og hæg húsnæðisuppbygging fer illa saman.
Og hækkandi húsnæðisverð þrýstir á laun, og hefur víða skapað ef við tölum bara alveg hreint út: gífurlega örvæntingu meðal fólks. Húsnæðismál eru okkar hjartans mál kæru félagar. Og hér þarf að taka til hendinni – ósamstillt ríkisstjórn er búin að lofa sömu 1000 íbúðunum á síðustu árum – ég veit satt best að segja ekki hversu oft það slagorð hefur verið notað á blaðamannafundum ríkisstjórnarinnar.
En vandinn er auðvitað sá, að skortur á atvinnustefnu, samsetning hagvaxtar sem þessi ríkisstjórn hefur ýtt undir, hefur orðið til þess að vandinn bara vindur upp á sig á húsnæðismarkaði. Þau komast aldrei fram fyrir vandann.
Kæru félagar, ég vil koma aðeins inn á áherslur núverandi ríkisstjórnar í velferðarmálum og stöðuna á vinnumarkaði áður en ég kynni til leiks nýjan stýrihóp: Almennt hefur traust hefur verið lítið á stjórnmálum hér á landi og eflaust er það víðar vandamál en að mínu mati á það rætur sínar að rekja til þess að fólk þarna úti upplifir oft á tíðum að aðeins sé hálf sagan sögð.
Almenningur veit nefnilega meira en oft er gengið út frá meðal þeirra sem stjórna. Hann skilur alveg samhengi hlutanna og áttar sig á því að þú færð ekki eitthvað fyrir ekki neitt.
Þess vegna var það ekki trúverðugt að halda því fram að hægt væri að ráðast í kerfisbreytingar á velferðarkerfinu í tengslum við kjarasamninga án þess að alvöru pólitísk ákvörðun um fjármögnun ætti sér stað. Sérstaklega var það ekki trúverðugt þegar því var haldið fram ítrekað fyrir jól við vinnslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár að ekkert svigrúm væri til að styrkja kerfin en nú er það svigrúm skyndilega til staðar, að því er virðist án neinna beinna aðgerða, ákvarðana um niðurskurð né tekjuákvarðana í áætlunum stjórnvalda.
Samfylkingin hefur ítrekað lagt fram tillögur við fjárlög sem fela í sér styrkingu á tilfærslukerfunum okkar; barna-, húsnæðis- og vaxtabætur.
Hugmyndin er einföld: Að fylgja fordæmi nágrannaþjóða okkar á Norðurlöndum þar sem þríhliða samstarf ríkis, vinnumarkaðar og atvinnurekanda hefur orðið til þess að traust í kjarasamningsviðræðum hefur verið meira en hér vegna þess að launþegar geta treyst á að ef efnahagsaðstæður breytast muni velferðarkerfið grípa fólk betur og bæta kjör þess svo ekki þurfi að koma til meiri launahækkana. Þetta styrkir líka stöðu fyrirtækja.
Þetta er góð efnahagsstjórn. Þetta er góð pólitík. Þetta er pólitík jafnaðarfólks og þetta er pólitík Samfylkingarinnar. En þessi pólitík felur í sér að þú verður að leggja fram allan pakkann. Þú getur ekki bara valið það sem er vinsælt á útgjaldahliðinni. Það þarf að fjármagna slíkar langvarandi breytingar á velferðarkerfinu með alvöru aðgerðum.
Við höfum sýnt á spilin í auðlindamálum – þar sem við viljum skapa fyrirsjáanleika, en jafnframt leita leiða til að nýta auðlindirnar í þágu þjóðar, til að standa undir velferðinni. Horfa til Norðmanna sem tala um „ríka hefð“ fyrir því að verðmæti af sameiginlegum náttúruauðlindum nýtist samfélaginu í heild – hjálpi okkur að byggja hér upp gott samfélag.
Og við munum horfa til annarrar fjármögnunar, réttlátrar fjármögnunar, í vinnunni um húsnæðis- og kjaramál.
Við jafnaðarfólk vitum að það er ekki hægt að reka hér velferðarsamfélag með því að krukka í fjárlögum hvers árs með kroppi hér og þar – í stöðugu viðbragði við stöðunni á vinnumarkaði.
Kæru félagar. Núverandi ríkisstjórn fjármagnar sínar viðbragðsaðgerðir í kjarasamningum með frestun á kjarabótum fyrir öryrkja – fann til 10 milljarða króna á næsta ári til að loka gatinu sem myndaðist í fjárhag ríkissjóðs því þau höfðu að sjálfsögðu ekki gert ráð fyrir því að styrkja félagslegu kerfin okkar – þau gripu ósamstillt til aðgerða, án stefnu, án framhalds, án framtíðarsýnar.
Það þarf að mæta til leiks með heildstæða áætlun – styrkingu barnabótakerfis, húsnæðiskerfis, örorkukerfis, almannatrygginga. Þetta eru risastórir málaflokkar já, og verðum að búta verkefnið niður, mæta með gerlegar tillögur, sem við getum skilað af okkur – svo við stöndum undir væntingum. Og völdum ekki vonbrigðum. Við þurfum að leggja öll spilin á borðið.
En ég er bjartsýn fyrir þessa vinnu, því þetta eru málaflokkar jafnaðarfólks. Og við höfum einsett okkur í þeirri vinnu sem skipulögð hefur verið að skoða stóru málin, skorast ekki undan ábyrgð þar.
Kæru félagar! Við höfum fengið öflugan hóp af fólki til að sitja í næsta stýrihóp Samfylkingarinnar um húsnæðis- og kjaramál, þriðja hópnum sem skilar af sér í haust fyrir landsfund:
- Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar og fulltrúi okkar í velferðarnefnd mun stýra vinnunni,
- og með honum verða Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir formaður Afls-starfsgreinafélags á Austurlandi sem kemur með mikilvæga reynslu úr verkalýðsbaráttunni inn í vinnuna,
- Kolbeinn H Stefánsson dósent við félagsráðagjafadeild Háskóla Íslands sem hefur helgað sig rannsóknum á ójöfnuði í íslensku samfélagi, ritað fjölda greina um styrkingu velferðarkerfisins og kemur með mikla þekkingu á útfærslu velferðaraðgerða inn í hópinn.
- Og Hildur Rós Guðbjargardóttir, bæjarfulltrúi okkar í Hafnarfirði og formaður Kvennahreyfingarinnar – ötul baráttukona fyrir jafnaðarstefnuna.
Hópurinn er að taka á stóru viðfangsefni. Málum sem snúa að virðingu fyrir fólki, rétti fólks til að lifa góðu lífi. Frelsi frá fjárhagsáhyggjum. Málum sem stýra hér efnahagslífinu í raun. Ríkisstjórn sem hefur tryggt stöðugleika í húsnæðis- og kjaramálum hefur tryggt efnahagslegan stöðugleika. Og viðhaldið góðu samfélagi.
IV.
Kæra flokksstjórn. Ég nefndi hér í upphafi mikilvægi þess að ganga sameinuð til verka. Það er öllum ljóst að stærsta vandamál núverandi stjórnarfars er óreiða, ósamstíga armar án skýrrar sýnar. Við ætlum ekki í slíka ríkisstjórn.
Við höfum á undanförnum mánuðum í raun verið í þjálfunarbúðum fyrir mikilvægasta verkefnið sem framundan er – það er eitt að mælast vel í skoðanakönnunum, annað að skila þeim mælingum í hús á kjördag og annað –í raun allt annað – að vera tilbúin til verka, taka samstillt við stjórn landsins ef þjóðin treystir okkur fyrir því verkefni.
Við verðum ekki ein í ríkisstjórn ef við hljótum umboðið, sama hversu vel við mælumst þessa dagana. Og við vitum að til að ná árangri í næstu ríkisstjórn, þurfum við að vera skýr á því hvar við drögum línu í sandinn og hvar við getum gefið eftir. Við þurfum að vinna saman og vinna með öðrum flokkum – vera öguð og kunna að ganga í takt.
Því það þarf kraft á móti valdi. Það þarf fylkingu fólks á móti þeim sterku öflum sem hafa verið ráðandi við stjórn landsins alltof lengi. Við erum að safna liði á þessum ferðum í kringum landið.
Og við komum saman hér í dag til að stilla okkur saman svo við getum verið samstillt á fyrsta kjörtímabili – svo við getum skilað verkunum af okkur – ég hef sagt það áður og segi það hér; að allt sem við gerum núna snýst um að tryggja endurkjör eftir næsta kjörtímabil. Því við vitum vel að það þarf að a.m.k. tvö kjörtímabil – það þarf áratug – til að snúa við stjórnarfari síðasta áratugs.
Þess vegna verðum við að vera þolinmóð, skipulögð, öguð og samstillt – sýna fólkinu í landinu að við getum unnið samkvæmt áætlun. Það höfum við gert í málefnavinnunni hingað til, í þinginu – mætt, hlustað, unnið og skilað af okkur skýru plani. Með krafti, með fylkingu fólks.
Kæru félagar. Á þessu ári er Reykjavíkurlistinn 30 ára. Munum sigurinn sem honum fylgdi – kraftur á móti valdi, á móti þaulsetnu valdi. Þegar fjórir flokkar samstilltu sig og mynduðu skýran valkost til að vinna. Í stað þess að vera í innri átökum sín á milli. Á þessum grunni var breiðfylking sköpuð – og þvílíkar framfarir sem sú samstaða skilaði sér!
Við höfum verið hérna áður. Og við þurfum að skapa þennan valkost aftur á stærri skala. Þess vegna höfum við verið að vinna svona.
Félagar, flokksstjórn. Það er mikið í húfi. Fólkið í landinu er að horfa til okkar. Væntingarnar eru miklar, væntingar sem við viljum og verðum að standa undir, kæru félagar. Við megum ekki bregðast þessu fólki núna. Það er bara of mikið í húfi – fyrir of marga; of langur tími af of litlum árangri í íslenskum stjórnmálum.
Þjóðin gerir kröfu um árangur – sem við erum staðráðin í að standa undir. Höldum áfram, sameinuð, fyrir fólkið í landinu. Takk!