Rétturinn til frjálsra kosninga ekki tryggður á Íslandi
Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) birti í vikunni dóm í máli Magnúsar M. Norðdahl og Guðmundar Gunnarssonar gegn íslenska ríkinu vegna alþingiskosninganna sem fram fóru 25. september 2021. Ríkið tapaði málinu og var gert að greiða tvímenningunum skaðabætur.
Tvennt er mikilvægast í niðurstöðu MDE:
- Rétturinn til frjálsra kosninga skv. 3. gr. í 1. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu var ekki varinn.
- Ákvæði 13. gr. sáttmálans um raunhæf og skilvirk réttarúrræði voru ekki í boði.
Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, laga nr. 33/1944, uppfyllir ekki mikilvæg skilyrði mannréttindasáttmálans um sjálfstæða, óháða dómstóla og leið borgaranna til að leita réttar síns. Í mínum huga er engum blöðum um það að fletta að Alþingi ber að bregðast við dómnum og gera nauðsynlegar umbætur á kosningalögum og stjórnarskránni. Það gladdi mig að heyra dómsmálaráðherra lýsa sömu skoðun í fjölmiðlum, því það þýðir að ef til vill má ná þverpólitískri samstöðu um breytingar sem leiða af dómi MDE. Það væri kærkomin tilbreyting í því að Alþingi næði saman um tillögur í þessu mikilvæga máli fyrir næstu alþingiskosningar. Stjórnskipan landsins er undir.
Samkvæmt niðurstöðu Mannréttindadómstólsins tryggir íslensk löggjöf ekki réttinn til frjálsra kosninga, sem er grundvallarforsenda lýðræðisins. Dómstóllinn efast ekki um rannsókn undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar haustið 2021 hafi verið trúverðug eða tillögur hennar óhlutdrægar. Hann telur sig ekki heldur geta velt vöngum yfir því hvort pólitísk afstaða hafi ráðið atkvæðagreiðslu í þingsal. Hér er rétt að minna á að undirbúningsnefndin þríklofnaði í afstöðu sinni til málsins. Hins vegar er því slegið föstu að vegna skorts á reglum sem tryggi hlutleysi megi draga í efa að atkvæðagreiðsla í þingsal hafi verið óvilhöll að ásýnd og yfirbragði. Ásýnd skiptir nefnilega líka máli í lýðræðisríki, ekki aðeins lagaframkvæmdin.
Brot gegn einni manneskju, brot gegn rétti einnar manneskju til frjálsra kosninga er brot gegn okkur öllum. Þannig er það í lýðræðisþjóðfélagi og þess vegna verður Alþingi að bregðast við dómnum. Fyrirkomulag þar sem Alþingi sjálft úrskurðar um gildi kosninga án þess að óhlutdrægni sé tryggð, án þess að niðurstaðan sé kæranleg til dómstóls eða óháðs úrskurðaraðila stenst einfaldlega ekki lágmarkskröfur um lýðræðislega stjórnarhætti, kröfur sem við höfum skuldbundið okkur til að virða ásamt öðrum Evrópuþjóðum.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hyggst taka dóm MDE til umfjöllunar og kalla til sérfræðinga í stjórnskipunarrétti. Vonandi leiðir sú athugun til þess að stjórnmálaflokkarnir nái sameiginlegri niðurstöðu um viðbrögð við dómnum. Tryggja verður frjálsa framkvæmd alþingiskosninga á Íslandi.