Við þurfum raunhæfar lausnir fyrir íslenska leikskóla

Dagbjört Hákonardóttir Alþingismaður

Það má fullyrða að umönnunarbilið á milli loka fæðingarorlofs foreldris og upphafs dagvistunar barns sé ein stærsta ógn nútímans við kynjajafnrétti hér á landi. Margsinnis hefur verið sýnt fram á skýr neikvæð áhrif barneigna á tekjur kvenna, á meðan launaumslög karla njóta beinlínis góðs af því þegar þeir verða feður. Á þessu eru ótal skýringar sem eiga rætur sínar í aldagömlu hugarfari um stöðluð kynjahlutverk og þeirri staðreynd að engin sátt ætlar að myndast um róttækar aðgerðir í því skyni að leysa mönnunarvanda leikskólanna fyrir fullt og allt með því að bæta kjör og vinnuaðstæður kennara.  

Umræðan um leikskólamál er yfirleitt í algleymingi vor hvert þegar leikskólastjórar í sveitarfélögum þessa lands  úthluta lausum plássum í leikskóla. Það er ekki nema von – eðlilega hafa flestir foreldrar barna sem hafa lengi verið á biðlista búið við talsverða óvissu um heimilishagi sína. Fái barn á annað borð pláss er í stærri sveitarfélögum allur gangur á því hvort barn fái inni í því hverfi sem fjölskyldan á heimili og þá með eldra systkini sínu, sé það einnig á leikskólaaldri. Sumir foreldrar þurfa að aka með tvö, jafnvel þrjú börn hverfa eða sveitarfélaga á milli til þess að koma öllum á sinn leikskóla eða til dagforeldris. Leikskólar í úthverfum eru jafnframt líklegri til þess að geta boðið fram laus pláss þar sem íbúum þeirra hverfa stendur til boða að innritast á skóla miðsvæðis – alla jafna í grennd við vinnustað foreldra. Við hljótum öll að skilja að í því felst hagræði fyrir suma foreldra, en börn sem búa í Hlíðum sitja undir því að þola bílferð upp í Grafarholt, langt frá félögum í hverfinu og jafnvel systkinum. 

En hvers vegna er þetta ekki bara lagað? Um þetta gildir eins og svo margt annað að lagaheimild þarf til að taka af allan vafa um lögmæti systkina- og hverfisforgangs. Undirrituð hefur í tvígang lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um leikskóla sem gætu leyst þetta vandamál og fært sveitarfélögum heimild til að innrita í leikskólana út frá aldri barna og búsetu. 

„Stóra verkefnið okkar stjórnvalda á næstu árum er að gera íslenska leikskólamódelið aftur að því flaggskipi jafnréttis sem það eitt sinn var.“

Íslensk systkini á leikskólaaldri eiga ekki að fara á mis við dýrmæta samveru á fyrsta skólastiginu og við eigum ekki að bjóða fjölskyldum upp á að þurfa að fara hverfa á milli til að sækja á leikskóla með tilheyrandi áhrifum á umhverfi og umferð. 

Leikskólakerfið á betra skilið en færibandalausnir. Óvíst er hvort þessi breyting gæti leitt af sér fjölgun leikskólaplássa, og líklega ekki ein og sér. Hitt er annað mál að stóra verkefnið okkar stjórnvalda á næstu árum er að gera íslenska leikskólamódelið aftur að því flaggskipi jafnréttis sem það eitt sinn var. Sveitarfélög og ríki verða að taka höndum saman um raunhæfar og uppbyggilegar lausnir. Hér þarf að tryggja lögbundinn rétt barna til leikskólavistar að loknu fæðingarorlofi að norrænni fyrirmynd og taka á mönnunarvanda með öllum tiltækum leiðum. Til þess þarf félagshyggja að fá að ráða för í nýrri ríkisstjórn. Við jafnaðarfólk erum tilbúin í slaginn.