Guðlaugur á rauða takkanum
Guðlaugur Þór Þórðarson orkumálaráðherra stakk niður penna í Morgunblaðinu á dögunum til að réttlæta og útskýra það framtaksleysi sem hefur ríkt í orkumálum á undanförnum árum. Um er að ræða málaflokk sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með í ríkisstjórn síðan 2013. Frá því að samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna tók til starfa haustið 2017 hafa ekki hafist framkvæmdir við neina nýja virkjun með uppsett rafafl 10 MW eða meira og ekkert gilt virkjunarleyfi verið gefið út vegna nýrrar virkjunar.
Ef marka má skrif Guðlaugs bera þó ekki aðeins stjórnarflokkarnir ábyrgð á kyrrstöðu í orkumálum heldur einnig Samfylkingin vegna þess að Samfylkingin „situr á þingi“ og hefur stýrt Reykjavíkurborg sem er stærsti eigandi Orkuveitunnar. Að orkumálaráðherra þurfi að grípa til slíkra röksemda er kannski til marks um ákveðna örvæntingu, en ég vil nota tækifærið og fara yfir nokkur atriði.
Á tímabilinu 2010 til 2020 risu þrjár virkjanir á Íslandi yfir 10 MW: Búðarhálsvirkjun, Þeistareykjavirkjun og Búrfellsvirkjun II. Búðarhálsvirkjun var fjármögnuð og reist á vakt Samfylkingarinnar í ríkisstjórn. Þeistareykjavirkjun var áherslumál þáverandi iðnaðarráðherra Samfylkingar og sett í nýtingarflokk rammaáætlunar í stjórnartíð Samfylkingar árið 2013. Þingflokkur Samfylkingarinnar studdi frumvarp um aflaukningu virkjana sem þegar eru í rekstri árið 2022 og stærstu orkuöflunarverkefnin sem nú eru á dagskrá, Hvammsvirkjun og Búrfellslundur, rötuðu í nýtingarflokk rammaáætlunar með stuðningi Samfylkingar.
Guðlaugur Þór áfellist Samfylkinguna fyrir að hafa setið hjá þegar síðasta rammaáætlun var afgreidd á Alþingi eftir pólitísk hrossakaup milli stjórnarflokkanna um tilfærslur virkjunarkosta. Guðlaugur lætur í veðri vaka að þannig hafi Samfylkingin tekið afstöðu gegn framförum í orkumálum. Það hlægilega við þessa gagnrýni ráðherra er að sjálfur sat hann ekki bara hjá heldur greiddi beinlínis atkvæði gegn rammaáætlun árið 2013 þegar 16 virkjunarkostir voru settir í orkunýtingarflokk, m.a. Þeistareykjavirkjun, og Hvalárvirkjun og jarðhitavirkjun í Krýsuvík sem hann klappar núna upp. Ef allir þingmenn hefðu greitt atkvæði eins og Guðlaugur Þór væri staðan í orkuöflunarmálum þannig enn lakari en hún er í dag.
Ég held að fólkið í landinu hafi fengið nóg af upphrópunum og pólitískum leikjum í umræðu um orkumál. Í nýju stefnuplaggi Samfylkingar sem ber yfirskriftina Krafa um árangur setjum við fram raunhæfa áætlun um að koma skikk á þennan málaflokk og skapa jafnvægi milli orkunýtingar og náttúruverndar. Við teljum að unnt sé að auka ársframleiðslu á raforku um 5 terawattstundir á næstu 10 árum. Þannig getum við staðið undir góðum gangi í orkuskiptum á landi og hafi, vexti til heimila og smærri fyrirtækja í takti við fólksfjölgun og hóflegri aukningu til núverandi og nýrra stórnotenda.
Til þess að áætlunin gangi upp þarf að fjölga virkjunarkostum í nýtingarflokki rammaáætlunar og afgreiða rammaáætlun oftar en tíðkast hefur meðan Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn hafa stýrt landinu. Jafnframt þarf að ráðast í lagabreytingar til að einfalda og flýta leyfisveitingaferli vegna nýrra virkjana án þess þó að slá af kröfum um nauðsynlegt samráð og mat á umhverfisáhrifum. Við leggjum m.a. til að stofnanir verði skyldaðar til að setja í forgang umsóknir vegna virkjunarkosta sem settir hafa verið í nýtingarflokk rammaáætlunar, að tímafrestir verði festir í lög, innheimt verði þjónustugjöld af framkvæmdaaðilum og að komið verði upp einu samþættu leyfisveitingaferli í stafrænni gagnagátt hjá nýrri Umhverfis- og orkustofnun. Allt eru þetta lykilatriði til að binda enda á áralangt framtaksleysi í orkumálum.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 30. apríl.