Guðlaugur á rauða takkanum

Jóhann Páll Jóhannsson Alþingismaður

Guðlaug­ur Þór Þórðar­son orku­málaráðherra stakk niður penna í Morg­un­blaðinu á dög­un­um til að rétt­læta og út­skýra það fram­taksleysi sem hef­ur ríkt í orku­mál­um á und­an­förn­um árum. Um er að ræða mála­flokk sem Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur farið með í rík­is­stjórn síðan 2013. Frá því að sam­steypu­stjórn Sjálf­stæðis­flokks, Fram­sókn­ar og Vinstri grænna tók til starfa haustið 2017 hafa ekki haf­ist fram­kvæmd­ir við neina nýja virkj­un með upp­sett rafafl 10 MW eða meira og ekk­ert gilt virkj­un­ar­leyfi verið gefið út vegna nýrr­ar virkj­un­ar.

Ef marka má skrif Guðlaugs bera þó ekki aðeins stjórn­ar­flokk­arn­ir ábyrgð á kyrr­stöðu í orku­mál­um held­ur einnig Sam­fylk­ing­in vegna þess að Sam­fylk­ing­in „sit­ur á þingi“ og hef­ur stýrt Reykja­vík­ur­borg sem er stærsti eig­andi Orku­veit­unn­ar. Að orku­málaráðherra þurfi að grípa til slíkra rök­semda er kannski til marks um ákveðna ör­vænt­ingu, en ég vil nota tæki­færið og fara yfir nokk­ur atriði.

Á tíma­bil­inu 2010 til 2020 risu þrjár virkj­an­ir á Íslandi yfir 10 MW: Búðar­háls­virkj­un, Þeistareykja­virkj­un og Búr­fells­virkj­un II. Búðar­háls­virkj­un var fjár­mögnuð og reist á vakt Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í rík­is­stjórn. Þeistareykja­virkj­un var áherslu­mál þáver­andi iðnaðarráðherra Sam­fylk­ing­ar og sett í nýt­ing­ar­flokk ramm­a­áætl­un­ar í stjórn­artíð Sam­fylk­ing­ar árið 2013. Þing­flokk­ur Sam­fylk­ing­ar­inn­ar studdi frum­varp um af­laukn­ingu virkj­ana sem þegar eru í rekstri árið 2022 og stærstu orku­öfl­un­ar­verk­efn­in sem nú eru á dag­skrá, Hvamms­virkj­un og Búr­fells­lund­ur, rötuðu í nýt­ing­ar­flokk ramm­a­áætl­un­ar með stuðningi Sam­fylk­ing­ar.

Guðlaug­ur Þór áfell­ist Sam­fylk­ing­una fyr­ir að hafa setið hjá þegar síðasta ramm­a­áætl­un var af­greidd á Alþingi eft­ir póli­tísk hrossa­kaup milli stjórn­ar­flokk­anna um til­færsl­ur virkj­un­ar­kosta. Guðlaug­ur læt­ur í veðri vaka að þannig hafi Sam­fylk­ing­in tekið af­stöðu gegn fram­förum í orku­mál­um. Það hlægi­lega við þessa gagn­rýni ráðherra er að sjálf­ur sat hann ekki bara hjá held­ur greiddi bein­lín­is at­kvæði gegn ramm­a­áætl­un árið 2013 þegar 16 virkj­un­ar­kost­ir voru sett­ir í ork­u­nýt­ing­ar­flokk, m.a. Þeistareykja­virkj­un, og Hvalár­virkj­un og jarðhita­virkj­un í Krýsu­vík sem hann klapp­ar núna upp. Ef all­ir þing­menn hefðu greitt at­kvæði eins og Guðlaug­ur Þór væri staðan í orku­öfl­un­ar­mál­um þannig enn lak­ari en hún er í dag.

Ég held að fólkið í land­inu hafi fengið nóg af upp­hróp­un­um og póli­tísk­um leikj­um í umræðu um orku­mál. Í nýju stefnuplaggi Sam­fylk­ing­ar sem ber yf­ir­skrift­ina Krafa um ár­ang­ur setj­um við fram raun­hæfa áætl­un um að koma skikk á þenn­an mála­flokk og skapa jafn­vægi milli ork­u­nýt­ing­ar og nátt­úru­vernd­ar. Við telj­um að unnt sé að auka árs­fram­leiðslu á raf­orku um 5 terawatt­stund­ir á næstu 10 árum. Þannig get­um við staðið und­ir góðum gangi í orku­skipt­um á landi og hafi, vexti til heim­ila og smærri fyr­ir­tækja í takti við fólks­fjölg­un og hóf­legri aukn­ingu til nú­ver­andi og nýrra stór­not­enda.

Til þess að áætl­un­in gangi upp þarf að fjölga virkj­un­ar­kost­um í nýt­ing­ar­flokki ramm­a­áætl­un­ar og af­greiða ramm­a­áætl­un oft­ar en tíðkast hef­ur meðan Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn, Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn og Vinstri græn hafa stýrt land­inu. Jafn­framt þarf að ráðast í laga­breyt­ing­ar til að ein­falda og flýta leyf­is­veit­inga­ferli vegna nýrra virkj­ana án þess þó að slá af kröf­um um nauðsyn­legt sam­ráð og mat á um­hverf­isáhrif­um. Við leggj­um m.a. til að stofn­an­ir verði skyldaðar til að setja í for­gang um­sókn­ir vegna virkj­un­ar­kosta sem sett­ir hafa verið í nýt­ing­ar­flokk ramm­a­áætl­un­ar, að tíma­frest­ir verði fest­ir í lög, inn­heimt verði þjón­ustu­gjöld af fram­kvæmdaaðilum og að komið verði upp einu samþættu leyf­is­veit­inga­ferli í sta­f­rænni gagnagátt hjá nýrri Um­hverf­is- og orku­stofn­un. Allt eru þetta lyk­il­atriði til að binda enda á ára­langt fram­taksleysi í orku­mál­um.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 30. apríl.