Íslenski útlendingavandinn

Mikið hefur verið rætt um málefni innflytjenda í vetur, bæði á Alþingi og í úti í samfélaginu, og margt verið látið flakka.

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og 3. sæti í Kraganum

Stjórnmálamenn úr þrem flokkum; Sjálfstæðis- og Miðflokki og Flokki fólksins, hafa hvað eftir annað tjáð sig á þeim nótum að ekki má skilja þau öðruvísi en að stærsti vandi íslensks samfélags sé að hingað flytji útlendingar. Lítt dulbúin útlendingaandúð, blönduð hæfilegum hræðsluáróðri um að fólkið sem hingað kemur séu afætur á samfélaginu og af sumum þeirra stafi beinlínis hætta, hefur fengið að grassera og haft tilætlaðar afleiðingar. Jaðarhópum er stillt upp gagnvart öðrum jaðarhópum. Þeim sem verst standa í samfélaginu er sagt að innflytjendur séu sökudólgar, sem standi í vegi fyrir góðri velferðarþjónustu og betri kjörum. Ekkert er fjær lagi.

Á köflum hefur þessi súra stemmning verið áþreifanleg en líklega aldrei eins og þegar Bjarni Benediktsson forsætisráðherra skrifaði sig frá vitrænni umræðu um útlendingamál með færslu á samfélagsmiðli um tjaldbúðir Palestínumanna á Austurvelli. Þar var öllu hrært saman og klykkt út með athugasemd um skipulagða alþjóðlega glæpastarfsemi. Skotleyfið hafði verið gefið og eftir höfðinu dans limirnir.

Það er ástæða til þess að rifja upp að næstum allir innflytjendur búsettir hér á landi eru komnir til Íslands til að sinna störfum á vinnumarkaði, störfum sem einhver þarf að sinna og störfum sem okkur vantar fólk í. Gríðarlegur vöxtur ferðaþjónustunnar hefur kallað á þúsundir fólks frá öðrum löndum til starfa við verslun og þjónustu. Þessi pistill er ritaður í Smiðju, nýju skrifstofuhúsnæði Alþingis. Hún hefði ekki risið án vinnuframlags byggingarverkamanna og iðnaðarmanna frá öðrum löndum. Enn er unnið í húsinu og að frágangi lóðar. Þar tala menn oftast saman á ensku hrognamáli eða sín á milli móðurmálinu. Það er ekki íslenska. Sjúkrahús og hjúkrunarheimili um allt land væru ekki í rekstri ef ræstingum og umönnun sjúklinga væri ekki sinnt af innflytjendum. Íslenskt samfélag mundi stöðvast samdægurs ef þau 50 þúsund sem hingað hafa komið frá öðrum löndum til að taka þátt í vinnumarkaðnum færu heim til sín.

 

Er ekki kominn tími til að horfast í augu við þá staðreynd að Ísland ársins 2024 er ekki Ísland 20. aldarinnar. Nýjar atvinnugreinar og frjáls för fólks um EES hafa breytt samfélagsgerðinni og gera kröfur til okkar um aðlögun og umburðarlyndi. Það segir ekki fallega sögu um íslenska þjóð að hún vilji helst fleyta rjómann ofan af en leyfa öðrum að drekka undanrennuna. En þannig er staðan í raun á vinnumarkaðnum og það má kalla hið séríslenska útlendingavandamál. Sú skoðun að innflytjendur séu nógu góðir til að efla hagvöxt og velsæld fyrir okkur öll en megi helst ekki komast í rjómann.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. maí 2024.