Ræða formanns 1. maí: „Samfylkingin vill hinn almenna launamann á þing“

Ræða Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, í tilefni af baráttudegi verkalýðsins flutt í Iðnó 1. maí 2024:

I.
Kæru félagar í verkalýðshreyfingunni og í Samfylkingunni, hér í Iðnó og um land allt: Gleðilegan baráttudag. Gleðilegan 1. maí!

„Eðli verkalýðsbaráttunnar er ekki skyndiupphlaup, hávaðafundir og ævintýri, heldur markvisst, sleitulaust strit fyrir málefnunum sjálfum.“

Svo mælti prentari að vestan, Jón Baldvinsson, sem var foringi Alþýðusambandsins og -flokksins fyrstu 22 árin – á meðan verkalýðshreyfingin starfaði ennþá sem ein skipulagsheild stéttarfélaga og stjórnmálaflokks. Jón sagði þetta á örlagaríkum fundi í Gamla bíó í Reykjavík, sem reyndist vera hans síðasti fundur, árið 1938.

Og við getum tekið þetta til okkar, við sem berum merki verkalýðsbaráttu og jafnaðarstefnu á Íslandi í dag: Ekki „skyndiupphlaup“, ekki „hávaðafundir“, heldur „markvisst, sleitulaust strit“.

II.
Félagar, það er meðal annars í þessum anda sem við höfum í sameiningu breytt Samfylkingunni. Til að vekja aftur von og trú og til að vinna aftur traust fólksins í landinu. Til að rísa undir ábyrgð okkar og til að ná þeim árangri sem við höfum einsett okkur að ná. Já, við litum í eigin barm. Og saman ákváðum við að fara aftur í kjarnann og ná virkari tengingu við venjulegt fólk, hinn almenna launamann. Þetta höfum við gert.

Breytingarnar felast ekki aðeins í nýrri forystu eða nýrri ásýnd og nýju merki – rauðu rósinni, sem er alþjóðlegt tákn jafnaðarfólks. Heldur höfum við raunverulega breytt forgangsröðun, áherslum og síðast en ekki síst verklagi Samfylkingarinnar. Við opnuðum faðminn og opnuðum flokkinn. Og við höfum átt einlægt samtal við fjölda fólks, innan flokks og utan, um land allt – ekki bara eitthvað út í bláinn um allt og ekkert heldur skipulega:

Í metnaðarfullu málefnastarfi tókum við fyrst hálft ár í heilbrigðis- og öldrunarmálin – og kynntum síðasta haust útspilið okkar, Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum. Svo tókum við hálft ár í atvinnu og samgöngur – og kynntum útspilið Krafa um árangur í atvinnu- og samgöngumálum. Og næsta hálfa árið tökum við síðan húsnæði og kjaramál af þessum sama þunga. Allt samkvæmt áætlun: Við tökum engu sem gefnu – en vinnum jafnt og þétt til undirbúnings. Það gerum við í von um annað tækifæri til að uppfylla hlutverk Samfylkingarinnar í þjónustu þjóðar.

Svona „markvisst, sleitulaust strit fyrir málefnunum sjálfum“, eins og forveri minn komst að orði – það kallar á skipulag og festu; úthald og þolinmæði. Það reynir á – og er erfitt, ekki síst fyrir baráttufólk í okkar eigin röðum sem er fullt af eldmóði og óþreyju. En hver sagði að þetta ætti að vera auðvelt? Það hefur aldrei verið auðvelt að sameina alþýðu manna, til sigurs.

Hitt er miklu auðveldara – að híma í stjórnarandstöðu, með mótmælaspjöldin á lofti, og láta duga að veita aðhald með gagnrýni. Í stað þess að móta samfélagið beint, eins og við viljum gera, með því að leiða stjórn landsmála yfir lengri tíma í ríkisstjórn Íslands, með gildi jafnaðarmennsku að leiðarljósi.

III.

Við erum stolt af breyttri Samfylkingu. Og næsta haust, þegar við klárum vinnuna um húsnæðis- og kjaramál, þá verðum við svo sannarlega reiðubúin málefnalega – og tilbúin til framkvæmda frá fyrsta degi í nýrri ríkisstjórn, fáum við til þess umboð í kosningum.

En kæru félagar, í Samfylkingunni og verkalýðshreyfingunni: Þetta leiðir okkur beint að næsta verkefni. Ábyrgð okkar er mikil.

Við vitum að fjöldi fólks um land allt leyfir sér nú að vona að þetta gangi upp hjá Samfylkingunni: að okkur takist að endurreisa velferðarkerfið, að okkur takist að lyfta innviðum landsins, að okkur takist að koma Íslandi aftur á rétta braut – eins og við ætlum okkur að gera.

Þetta fólk sér að málefnastaðan er sterk og styrkist með hverju útspili, því líkar verklagið – en það veit líka að næsta verk verður að manna liðið: að stilla upp framboðslistum sem endurspegla þessa breyttu Samfylkingu – breiðari flokk, stærri flokk, klassískan jafnaðarflokk með stjórnfestu – stjórnmálaflokk sem stendur þétt með þjóð sinni, við bak hins vinnandi manns, og leggur ofuráherslu á kjör, velferð og efnahag almennings.

IV.
Hvaða fólki teflum við þá fram til Alþingis? Þetta er eitthvað sem er mikið spáð í og spekúlerað – en við höfum ekki tjáð okkur um til þessa.

Ég vil lýsa því yfir hér með: Samfylkingin vill hinn almenna launamann á þing – fólk með sterkar rætur í nærsamfélagi sínu og sterka tengingu við almenning. Þingflokkur Samfylkingar á að endurspegla samfélagið sem við þjónum – og fólkið í landinu á að geta séð sig í okkar fulltrúum. Þess vegna segi ég: Við viljum fólk með fjölbreytta reynslu úr íslensku atvinnulífi – og já, takk: fólk úr verkalýðshreyfingunni.

Það er ekki nóg að gera kröfur í kjarasamningum á nokkurra ára fresti. Við verðum að móta samfélagið okkar, með beinum hætti, yfir lengri tíma – og þetta er besta leiðin til þess.

Samfylkingin er í grunninn flokkur alþýðu og verkalýðs – og núna er tækifærið: Við verðum að koma til baka, sterkari og samstilltari en nokkru sinni fyrr – til að ná þeim árangri sem við höfum einsett okkur að ná og til að standa undir væntingum fjölda fólks, víðs vegar um landið, sem vonar og reiðir sig á að okkur takist þetta.

Eins og ég sagði á flokksstjórnarfundinum á Laugarbakka, þarsíðustu helgi: Við megum ekki bregðast fólki núna. Það er bara of mikið í húfi fyrir of marga – of langur tími af of litlum árangri í íslenskum stjórnmálum.

Kæru vinir, það er þess vegna sem það skiptir öllu máli að okkur takist vel til við þetta stóra verkefni – og að Samfylkingin stilli upp sterkum framboðslistum í öllum kjördæmum. Við viljum breidd og fjölbreytileika sem endurspeglar Ísland allt – ekki bara hinar skrifandi stéttir. Þótt hagfræðingar, lögfræðingar og stjórnmálafræðingar geti verið ágætir þá er allt gott í hófi, og það segi ég nú bara sjálf sem hagfræðingur.

Við þurfum einfaldlega fólk með alls konar bakgrunn - án þess að ég fari að telja upp starfsstéttir. Alveg eins og vera ber í stórum jafnaðarflokki sem býður sig fram til að stjórna landinu.

V.
Og kæru félagar, það fór ekki hátt en á flokksstjórnarfundinum á Laugarbakka stigum við eitt skref í þessa átt, þar sem við breyttum reglum um val á framboðslista Samfylkingarinnar. Með því að opna á svokölluð leiðtogaprófkjör og skerpa á reglum um að hægt sé að fara blandaða leið þar sem yrði til dæmis kosið í 1. sæti eða 1. og 2. sæti í prófkjöri en að svo taki við kjörfundur eða uppstilling. Þannig yrði tryggt að markmið okkar náist um breidd og fjölbreytaleika á framboðslistum.

Í þessari ákvörðun flokksstjórnar felast skilaboð. Og ég tel að vel fari á því að almennir flokksfélagar Samfylkingarinnar og stuðningsmenn geti kosið sér forystufólk – oddvita á framboðslistum – í prófkjöri. En að svo taki við annað ferli þar sem gætt er að fleiri sjónarmiðum. Það virðist að minnsta kosti vera heppileg leið á þessum tímapunkti í endurreisn Samfylkingarinnar, þó að auðvitað geti mismunandi kjördæmi valið að fara mismunandi leiðir.

Þetta snýst um að stilla upp sterku teymi – efni í þingflokk sem endurspeglar samfélagið sem við þjónum, og þar sem fólkið í landinu getur séð sig í okkar fulltrúum. Þetta er ekki bara einhver leikur eða samkeppni einstaklinga um stök sæti. Heildarmyndin skiptir máli.

VI.
Kæru félagar. Ég vil þakka Samfylkingarfélaginu í Reykjavík fyrir að halda í hefðina með veglegu verkalýðskaffi í tilefni af 1. maí. Og það skemmir ekki að vera samankomin hér í Iðnó – þessu sögufræga húsi sem er svo samofið sögu okkar, verkalýðshreyfingar og Samfylkingarinnar.

Ég hlakka til að hlýða á aðra ræðumenn – Helga Pétursson, formann Landssambands eldri borgara, og Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formann BSRB. Við dáumst að ykkar baráttu og munum vonandi fá að eiga ykkur að í þeirri málefnavinnu sem nú fer í hönd hjá Samfylkingunni, um húsnæði og kjaramál. Enda eigum við algjöra samleið í áherslumáli okkar númer eitt: sem er að endurreisa velferðarkerfið á Íslandi – eftir uppsafnaða vanrækslu á undanförnum árum. Bæði með því að efla almannaþjónustu og með því að styrkja tilfærslukerfin okkar, og þar á meðal greiðslur almannatrygginga til eldra fólks.

Þetta eru veigamikil baráttumál, eins og við vitum, hjá bæði Landssambandi eldri borgara og BSRB.

Í vetur héldum við í Samfylkingunni uppi harðri gagnrýni – í tengslum við fjárlög ríkisstjórnarinnar og fjármálaáætlun – á það að allar aðgerðir í tengslum við kjarasamninga væru ófjármagnaðar. Því var ekki sérlega vel tekið og við vorum á móti skömmuð fyrir það að að vilja ræða fjármögnunarhliðina. Eins og við munum þá fór ríkisstjórnin undan í flæmingi. En nú hefur komið daginn að fyrsta árið er fjármögnun nær alfarið sótt í vasa öryrkja – með enn einni frestun á kjarabótum fyrir þennan hóp, upp á 10 milljarða á árinu 2025. 10 milljarða! Svo eru nokkrir milljarðar kroppaðir út úr því litla sem eftir er af vaxtabótakerfinu, þrátt fyrir að hagkvæmari húsnæðismarkaður sé varla í augsýn á næstu misserum.

Þetta sýnir auðvitað nauðsyn þess að ræða alltaf velferðarkerfið okkar út frá báðum hliðum – ekki bara útgjöldin heldur líka fjármögnun. Það munum við í Samfylkingunni alltaf gera.

Frá árinu 2017 hefur örorkulífeyrir dregist rækilega aftur úr launaþróun, og nú eiga þeir enn að bíða – það er óásættanlegt. Og sama gildir um eldra fólk: Árin 2018, 2019 og 2020 hækkaði ellilífeyrir minna en launavísitala – og meira að segja minna en verðlag árin 2021 og 2022, sem er þá raunrýrnun. Allt þrátt fyrir að í 62. grein almannatryggingalaga standi skýrum stöfum að greiðslur almannatrygginga skuli „taka mið af launaþróun“ en „þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs“. Þetta er óásættanlegt, kæru félagar. Við verðum að gera betur!

Og enn á eftir að klára kjarasamninga við opinbera markaðinn, og þar á meðal félög innan BSRB, þar sem eru fjölmennar kvennastéttir og krafan er skýr: afgerandi skref í átt að launajafnrétti – meðal annars með innleiðingu á virðistmati starfa. Við fáum væntanlega að heyra meira af því hjá Sonju Ýr á eftir. BSRB á hrós skilið fyrir að hafa farið fremst í flokki að undanförnu í baráttu fyrir jafnrétti kynja og launajafnrétti. Og þið megið vita að þar eigiði alltaf fullan stuðning okkar í Samfylkingunni.

VII.
Já, félagar – við höldum ótrauð áfram. Og munum að „eðli verkalýðsbaráttunnar er (…) markvisst, sleitulaust strit fyrir málefnunum sjálfum“. Þetta er mikil vinna – sem útheimtir aga og úthald til að árangur náist.

Þar vil ég standa mig í stykkinu. Ég legg minna upp úr leiftrandi retórík og tilþrifum úr ræðustól – sem getur verið að valdi stundum einhverjum vonbrigðum. En mín tilfinning er sú að fólkið sem við viljum þjóna, þorri almennings, geri ekki neina kröfu um hástemmdar ræður eða ljóðræna lýsingu á ástandi í þess daglega lífi – heldur frekar skilning á aðstæðum og skýra áætlun um hvað við ætlum að gera öðruvísi, komumst við í ríkisstjórn; hvernig við viljum breyta við stjórn landsins. Þess vegna skulum við segja minna og gera meira.

Og þó að staðan í stjórnmálunum sé á köflum ískyggileg þá skulum við muna að stjórnmálaarmur verkalýðs og alþýðu hefur áður séð það svart og þurft að klífa brattari brekkur. Sem dæmi þá var Jón Baldvinsson í upphafi aðeins einn síns liðs á Alþingi – til dæmis þegar Vökulögin voru samþykkt, sem kváðu á um lögbundinn hvíldartíma togarasjómanna.  En þegar hann lést árið 1938, og mælti þau orð sem ég lagði út af í upphafi ræðu minnar, þá hafði hann leitt verkalýðshreyfinguna til öndvegis við stjórn landsmála, á kreppuárunum, í Stjórn hinna vinnandi stétta eins og hún var kölluð. Hugsið ykkur árangurinn, og róttæknina í raun, sem hefur lagt grunninn að farsælustu samfélögum heims á Norðurlöndunum.

Svona förum við frá vonleysi til vonar og frá von til sigurs. Nú höfum við verk að vinna. Samstillum okkur, félagar – áfram til sigurs!