Breytingar í þágu öryrkja samþykktar á Alþingi
Með sameinaðri stjórnarandstöðu náði Samfylkingin nauðsynlegum breytingum í þágu öryrkja fyrir þinglok. En baráttan heldur áfram.
Samfylkingin hefur lagt ofuráherslu á efnahagsmálin og heimilsbókhaldið á Alþingi í vetur – enda er ærin ástæða til þar sem ríkisstjórninni hefur algjörlega mistekist að taka á stjórn efnahagsmála og kveða niður vexti og verðbólgu. Í þeim efnum ætti ríkisstjórnin leggja betur við hlustir.
Nú í aðdraganda þingloka hefur helsta áherslumál Samfylkingar verið að knýja fram breytingar á frumvarpi ríkisstjórnarinnar um breytingar á örorkulífeyriskerfinu. Frumvarpið hefur tekið stakkaskiptum eftir aðhald okkar og uppbyggilega gagnrýni á þingi og í velferðarnefnd Alþingis. Og stærstu tíðindin í þinglokasamningum sem náðust á Alþingi í vikunni eru þau að ríkisstjórnin hefur fallist á allar helstu breytingartillögur Samfylkingar og sameinaðrar stjórnarandstöðu við örorkufrumvarpið.
Samfylkingin fagnar þessum árangri í þágu öryrkja en ítrekar að tillögurnar voru lágmarkskröfur flokksins og að baráttan heldur áfram.
Stórt mál sem varðar öryggisnet alls vinnandi fólks
„Þetta er risastórt mál sem varðar ekki aðeins kjör tugþúsunda Íslendinga og fjölskyldna þeirra heldur einnig öryggisnet hins almenna launamanns, alls vinnandi fólks í landinu. Fólk sem missir starfsgetu vegna veikinda eða slysfara verður að geta reitt sig á að örorkulífeyriskerfið sé sterkt,“ segir Jóhann Páll Jóhannsson, fulltrúi Samfylkingar í velferðarnefnd og fyrsti flutningsmaður á breytingartillögum stjórnarandstöðunnar.
„Það voru ýmis skref í rétta átt í frumvarpinu eins og það var lagt fram af félagsmálaráðherra, og heilt yfir er það til bóta, en ég benti þó á alvarlega ágalla sem væri nauðsynlegt að laga. Með aðstoð Öryrkjabandalags Íslands og Þroskahjálpar náðum við fram mikilvægum breytingum á frumvarpinu inni í velferðarnefnd, meðal annars varðandi hækkun hlutaörorkulífeyris og aukið svigrúm öryrkja til vinnu án niðurfellingar hins nýja virknistyrks.“
Tillögur smíðaðar eftir að öryrkjum var boðið til Alþingis
Þá bauð Jóhann Páll öryrkjum Íslands til Alþingis og í kjölfarið voru smíðaðar þær breytingartillögur sem öll stjórnarandstaðan sameinaðist um og sem ríkisstjórnin hefur nú fallist á að samþykkja. Þær sneru einkum að því að tryggja að enginn öryrki yrði skilinn eftir við afgreiðslu frumvarpsins og voru tillögurnar í fimm liðum.
Þær breytingartillögur sem voru samþykktar óbreyttar eru eftirfarandi:
• Heimilisuppbót hækkar sem skiptir sköpum fyrir öryrkja sem búa einir
• Hnykkt á því að enginn sem er þegar með örorkumat verði þvingaður í svokallað „samþætt sérfræðimat“ – sem enn hefur ekki verið útfært
• Alþingi fær skýrslu frá ráðherra um útfærslu á þessu nýja mati áður en það verður innleitt og velferðarnefnd mun fjalla um matið
Þær breytingartillögur sem ekki verða samþykktar að þessu sinni en taka á til frekari skoðunar eru eftirfarandi:
• Aukið svigrúm fyrir öryrkja í atvinnuleit til að finna starf við hæfi án þess að nýr virknistyrkur falli niður – ríkisstjórnin segir þetta verða tekið fyrir formlega við endurskoðun frumvarpsins árið 2028
• Skerðing á örorkulífeyri vegna fjármagnstekna maka verði afnumin – ríkisstjórnin féllst ekki á þetta að svo stöddu en segir málið verða tekið til skoðunar í fjármálaráðuneyti og félags- og vinnumarkaðsráðuneyti
Vinnum áfram að betra almannatryggingakerfi
Samfylkingin mun áfram berjast fyrir betra almannatryggingakerfi og þess má geta að Jóhann Páll Jóhannsson er formaður í stýrihópi flokksins um húsnæðis og kjaramál sem vinnur meðal annars að tillögum á þessu sviði. Útspil Samfylkingar um húsnæðis- og kjaramál verður kynnt næsta haust.