Forseti Íslands

Halla Tómasdóttir er sigurvegari forsetakosninganna og verður sett inn í embætti 1. ágúst nk. Þá undirritar hún eiðstaf að stjórnarskrá Íslands.

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður

Halla verður sjöundi forseti lýðveldisins og önnur konan sem gegnir embættinu. Mig langar til að nota þetta tækifæri til þess að óska Höllu gæfu og gengis í embætti forseta Íslands. Ég er þess fullviss að hún mun móta embættið með sínum persónulega hætti, líkt og fyrirrennarar hennar hafa gert.

Margt var sagt um forsetaembættið í aðdraganda kosninganna 1. júní og stundum mátti skilja fólk svo að forsetinn væri í stöðu til að leysa flest deilumál sem uppi eru í samfélaginu. Guðni Th. Jóhannesson fór ágætlega yfir þessar ranghugmyndir á kosningavöku RÚV og gerði góðlátlegt grín að þeim. Forseti Íslands getur haft mikið áhrifavald og sett mál á dagskrá þjóðmálaumræðunnar. Það er hlustað þegar forsetinn talar og það skiptir máli hvernig forsetinn talar um menn og málefni.

 

Svokallaður málskotsréttur var einnig til umræðu. Salvör Nordal, heimspekingur og Umboðsmaður barna, fór ágætlega yfir það í aðsendri grein á Vísi hvernig frambjóðendur gætu illa sagt til um það fyrirfram hvaða málum þau mundu vísa til þjóðarinnar. Viðbrögð almennings við tilteknum lagafrumvörpum hljóta að ráða mati forsetans í þessu efni. Matið er því aðstæðubundið og ófyrirsjáanlegt.

Forsetinn veitir umboð til stjórnarmyndunarviðræðna að loknum alþingiskosningum og getur ef allt um þrýtur myndað ríkisstjórn utan flokka. Það verður þó að teljast neyðarbrauð enda forystufólk stjórnmálaflokkanna áfram um að mynda pólitískar ríkisstjórnir og tilbúið að leggja mikið á sig í þeim tilgangi.

Kosningaþátttakan var 80% og er mikið gleðiefni. Ýmislegt bendir til þess að yngstu kjósendurnir hafi nýtt rétt sinn betur en í kosningum undanfarinna ára. Það gefur vonir um góða þátttöku í alþingiskosningunum á næsta ári. En forsetakosningar eru ekki alþingiskosningar. Forsetinn er kosinn beinni kosningu og ólíkt alþingiskosningum þá vega öll jafnvægi jafnt. Það skiptir máli. 

Nokkuð hefur verið rætt um fjölda meðmælenda sem frambjóðendur þurfa að safna svo að framboðið sé gilt. Tala þeirra - 1.500 – hefur verið óbreytt í 80 ár. Stjórnlagaráð gerði tillögu um breytingar á forsetakafla stjórnarskrárinnar og lagði til að fjöldinn miðaðist við 1-2% af fjölda fólks á kjörskrá. Það þykir mér skynsamleg tillaga. Þröskuldurinn má ekki vera of hár en heldur ekki svo lágur að það taki um það bil klukkustund fyrir landsþekktar manneskjur að safna tilskildum meðmælendafjölda rafrænt.

Ég held að Íslendingum þyki almennt vænt um forsetaembættið og það að geta kosið sinn forseta milliliðalaust. Það er grunnur þess trausts sem mikilvægt er að nýr forseti rækti í starfi sínu.