„Samfylkingin mun endurheimta efnahagslegan stöðugleika“

Ræða Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingar, í eldhúsdagsumræðum á Alþingi 12. júní 2024:

I.
Forseti, kæru Íslendingar, ég vil byrja á að óska þjóðinni til hamingju með kjör sjöunda forseta lýðveldisins – og ég vil óska Höllu Tómasdóttur heilla og velfarnaðar í embætti forseta.

Maður kemur í manns stað. Því fylgja breytingar – en lýðræðið sér til þess að það er fólkið í landinu sem velur leiðina áfram.

Í næstu Alþingiskosningum verður spurt um framhaldið við stjórn landsmála. Þá fær þjóðin valdið aftur í sínar hendur – tækifæri til að gera upp við hæstvirta ríkisstjórn og svara fyrir sig með kjörseðlinum:

Hvað finnst þér um ríkisstjórnina? Hvernig gengur með stjórn efnahagsmála, heimilisbókhaldið, vextina og verðbólguna – og stóru velferðarmálin? Hvort viltu áfram meira af því sama með sama fólk í brúnni – eða breytingar og von um betri tíð; nýtt upphaf með Samfylkingu, nýja forystu og nýjan kafla í sögu Íslands?

Við getum skrifað þennan kafla saman. En það útheimtir von, vilja og kjark til breytinga – sem við í Samfylkingunni viljum vekja meðal almennings.

Samfylkingin hefur þegar sýnt að við getum leitt breytingar. Við höfum tekið frumkvæði í íslenskum stjórnmálum og við byrjuðum á sjálfum okkur með því að líta í eigin barm, leita aftur í kjarnann og færa okkur nær fólkinu sem við þjónum. Þetta höfum við gert til að koma Samfylkingunni aftur í þjónustu alþýðu og vinnandi fólks um land allt – og á sama hátt munum við koma Íslandi aftur á rétta braut, fáum við til þess umboð hjá þjóðinni í næstu kosningum.

Kæru landsmenn. Við tökum þetta verkefni alvarlega. Í stað þess að eltast við upphlaupin í ríkisstjórninni þá höfum við einbeitt okkur að ströngum undirbúningi Samfylkingar og við höfum nú þegar kynnt tvö stór útspil: Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum og svo Kröfu um árangur í atvinnu- og samgöngumálum. Næsta hálfa árið tökum við húsnæði og kjaramál af þessum sama þunga. Allt samkvæmt áætlun – enda tökum við engu sem gefnu og látum verkin tala.

II.
Við höfum sagt að meginmarkmið Samfylkingarinnar í stjórnmálum næsta áratuginn sé endurreisn velferðarkerfisins á Íslandi eftir áratug hnignunar. Það er langtímaverkefni. En ég vil lýsa því yfir hér með að fyrsta forgangsmál Samfylkingar í nýrri ríkisstjórn – áherslumál okkar númer 1 frá fyrsta degi – verður þetta:

Samfylkingin mun endurheimta efnahagslegan stöðugleika á Íslandi og kveða niður verðbólgu og vaxtastig. Og þetta er loforð. Ég heiti því að tryggja aftur efnahagslegan stöðugleika fyrir fólkið í landinu – með ábyrgum ríkisfjármálum.

Við munum gera það sem þarf til að passa upp á efnahag venjulegs fólks sem þessi ríkisstjórn hefur sett á hvolf, því miður, með hæstvirtan Bjarna Benediktsson forsætisráðherra í broddi fylkingar. Við höfum getuna, hæfnina og agann sem þarf – og við erum fyllilega meðvituð um að þetta er frumforsenda þess að hægt verði að endurreisa velferðarkerfið á næstu árum.

Samfylkingin er flokkur ábyrgra ríkisfjármála og efnahagslegs stöðugleika.

III.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið upptekinn við eitthvað annað. Ríkisstjórn hefur sýnt að hún ræður ekki við vandann. Þau geta ekki komið sér saman um leið til að taka á efnahagsmálunum og hafa í sannleika sagt verið með hugann víðs fjarri vandamálum og hagsmunum almennings.

Aftur og aftur hafa þau boðað bót og betrun. En mánuðirnir líða, árin líða, og hvað segja tölurnar?
• 1 ár af vöxtum yfir 9%.
• 4 ár af verðbólgu yfir markmiði.
• 9 ár af hallarekstri hjá ríkissjóði.

Er þetta virkilega það sem Sjálfstæðisflokkurinn kallar ráðdeild í ríkisfjármálum? Forsætisráðherra hæstvirtur virðist vera í fullkominni afneitun og þegar ég spurði um þessa stöðu í þinginu um daginn þá kallaði hann þetta – með leyfi forseta: „bestu efnahagslegu stöðu í lýðveldissögunni“. Þvílík aftenging við efnahagslegan veruleika almennings. Maður sem er svo firrtur fyrir vandanum – sem hann hefur sjálfur skapað – er augljóslega ófær um að leiða okkur út úr þessari stöðu.

Nú hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna dregist saman á fimm af síðustu sex ársfjórðungum – sem þýðir að fólk fær minna fyrir peningana í veskinu sínu. Og til viðbótar öllu þessu, til að bæta gráu ofan á svart, þá erum við núna komin í samdrátt. Stuttu eftir að hæstvirtur Bjarni Benediktsson lýsti yfir bestu efnahagslegu stöðu í lýðveldissögunni þá tók Hagstofa Íslands saman þjóðhagsreikninga þar sem kom fram að landsframleiðsla dróst saman um heil 4% á fyrsta ársfjórðungi 2024.

Forseti, það er ný staða – að við séum komin í samdrátt samhliða eins mikilli verðbólgu og raun ber vitni. En staðreyndin er sú að þrátt fyrir þennan efnahagssamdrátt þá fór verðbólgan upp í síðustu mælingu. Upp en ekki niður.

Þannig er þetta allt í ranga átt:
• Verðbólga upp – hagvöxtur niður.
• Vextir upp – íbúðauppbygging niður.
• Stöðugur hallarekstur – enda stöðugt streymi af nýjum ófjármögnuðum útgjaldatillögum.

Og staðan virðist bara versna þegar nær dregur kosningum og ráðherrarnir reyna hver í sínu horni að bjarga eigin skinni án þess að nokkur axli ábyrgð á heildarmyndinni.

Ég spyr: Hvað þarf þjóðin að þola þetta ríkisstjórnarsamstarf lengi? Það er ekki mælikvarði á árangur hversu lengi ráðherrum tekst að hanga á valdastólum. Þegar erindið er svo augljóslega þrotið þá er það rétta í stöðunni að færa valdið aftur í hendur fólksins með því að boða til kosninga.

En nú hóta þau að sitja í heilt ár í viðbót á meðan þau safna í sig kjarki til að mæta kjósendum. Þó að öllum sé ljóst að ríkisstjórnin sé löngu komin á endastöð þá halda þau áfram að sólunda dýrmætum tíma og tækifærum, svo ekki sé talað um skattfé almennings. Í fyllstu virðingu – þetta er ekki boðlegt lengur.

IV.
Kæru landsmenn, við í Samfylkingunni höfum ráðist í breytingar í okkar eigin flokki til að brjótast út úr þeirri stöðnun sem hefur ríkt í stjórnmálunum. Við höfum einsett okkur að vinna aftur traust meðal almennings og vekja von og trú fólks á að við getum komið Íslandi aftur á rétta braut.

Og þessi breytta Samfylking býður upp á skýran valkost fyrir Ísland í næstu Alþingiskosningum: Við viljum endurreisa velferðarkerfið. En fyrsta verk verður að endurheimta efnahagslegan stöðugleika með ábyrgum ríkisfjármálum.

Fram að kosningum má vona að ríkisstjórnin bæti ráð sitt. En því fyrr sem þjóðin fær tækifæri til að  gera upp við ríkisstjórnina og svara fyrir sig með kjörseðlinum – því betra.