Ræða Dagbjartar Hákonardóttur á eldhúsdegi

Ræða Dagbjartar Hákonardóttur í eldhúsdagsumræðum á Alþingi 12. júní 2024:

Virðulegi forseti - kæru landsmenn. 

Nýkjörinn forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, hefur sagt að hugrekki sé hópíþrótt og mig langar að gera þau orð hennar að mínum. Þegar hæstvirtir ráðherrar kynna til leiks kostnaðarsöm verkefni sem skortir ekki bara fjármagn, heldur líka pólitískan stuðning samstarfsflokka til að fylgja þeim eftir alla leið, þá er hugrekkið á þrotum - og stjórnmálin eru ekki einstaklingsíþrótt.

Það er eins og að ráðherrunum sé meira umhugað um að bjóða hvert öðru birginn en að sýna þjóðinni hugrekki og þjóna henni vel. Þetta birtist í vanræktum og vanfjármögnuðum verkefnum, og þegar verst lætur, ömurlegum ummælum um glæpi gegn mannkyni.

Talandi um vanfjármagnaðar umbætur, þá hefur sennilega sjaldan verið meira krefjandi að vera kennari en á liðnum árum. Frammistaða íslenskra nemenda í alþjóðlegu PISA könnuninni er sú versta í norrænum samanburði - enn eitt árið -  og árangur barnanna okkar hrapar milli ára. Stjórnvöld virðast átta sig á vandanum - en hvers vegna ættum við að treysta þeim til að bæta úr stöðunni strax á næsta skólaári? 

Viðeigandi viðbrögð hér gætu til að mynda verið þverpólitískt átak - samstíga leiðangur ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs, fagfólks og foreldra. Þarna myndum við jafnaðarmenn svo sannarlega ekki láta okkar eftir liggja - hér er allt of mikið í húfi.

En góðir landsmenn - hér er ekkert þverpólitískt stórátak í menntamálum. Þvert á móti. Til dæmis stendur ríkið þessa dagana í baráttu fyrir dómstólum - tilefnið er að ríkið hafnar því að greiða með íslenskukennslu allra barna sem eiga annað móðurmál en íslensku í Reykjavík.
Þennan heimatilbúna vanda gæti þessi ríkisstjórn leyst með einu pennastriki, pólitískan vilja og vott af hugrekki að vopni. Nei, í staðinn á að heyja rimmu við Reykjavíkurborg fyrir dómi og á meðan skulu kennarar hlaupa hraðar.

Er ríkisstjórn sem kemur svona fram við börn sem þurfa að læra góða íslensku treystandi fyrir að gerbylta íslensku menntakerfi til hins betra? Eða efla íslenska tungu á umbrotatímum? Athugum að skólunum er ætlað algert lykilhlutverk í inngildingunni - í að taka vel á móti fólki af erlendum uppruna.

Þá þarf að fjármagna verkefnin til fulls - því þegar á hólminn er komið eru þetta ennþá aðeins óbyggðar skýjaborgir - viljayfirlýsingar. Það nægir heldur ekki að bjóða skólagjaldalausa háskóla þegar stúdentar ná ekki endum saman og háskólanám gæti með þessu áframhaldi orðið aðeins á færi forréttindahópa. 

Forseti - það er ekki svo óralangt síðan að skólaganga stóð ekki öllum til boða – leikskólar eins og við þekkjum þá í dag voru ekki til þegar ég fæddist í þennan heim fyrir tæpum fjörutíu árum.  Í dag vill enginn án þeirra vera. Þessu breyttu femínistar og félagshyggjufólk - en þetta eru fjöregg sem geta fallið úr höndunum á okkur á augabragði ef við gleymum því að skólarnir eru líka jöfnunartæki – og fólkið sem starfar innan þeirra á að búa við frábærar starfsaðstæður.

Á endanum snýst þetta um að greiða rétt verð fyrir verkefni sem áður voru unnin endurgjaldslaust af konum. Í byrjun árs voru kynntar metnaðarfullar aðgerðir forsætisráðuneytis um endurmat á virði kvennastarfa og það verður áhugavert að fylgjast með hæstvirtum forsætisráðherra vinna að þeim.

Ég vil óska honum sérstaklega góðs gengis við að ná fram markmiðum forvera síns í starfi um að ná hér fullu kynjajafnrétti fyrir árið 2030.

Forseti. Á Íslandi búa leiftrandi klár börn, og við eigum hæfileikaríka kennara til að búa þau undir framtíðina. Börnin okkar hafa notið góðs af hárri atvinnuþátttöku kvenna og metnaðarfullu skólastarfi og ekki síst leikskólastarfi, sem hefur veitt þeim öryggi í þéttofnu samfélagi. Samfélagi sem núna er að verða stærra og flóknara, en líka að mörgu leyti áhugaverðara.

Nei, börnin okkar eru ekki síður fær til náms, en það er eitthvað sem bendir til þess að norræn nágrannaríki okkar hafi haldið talsvert betur á menntamálum en við.  Það er ekki til nein töfralausn til að takast á við þessar áskoranir, en við getum samt náð árangri með réttum áherslum.

Um þær þarf að ríkja skýr pólitísk sýn og ekki síst hugrekki – þá sýn og það hugrekki höfum við jafnaðarmenn í Samfylkingunni.