Ungliðar úr ASÍ og Samfylkingu stúdera norræna módelið
Sjö ungliðar úr aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samfylkingunni sóttu í vetur Nordenskolan sem er árlegt námskeið um norræna samfélagsmódelið á vegum Samráðsnefndar jafnaðarflokka og alþýðusambanda á Norðurlöndum (SAMAK).
Samstarf Ungs jafnaðarfólks og ASÍ-UNG hefur aukist að undanförnu og verið formgert. Á meðal þátttakenda í Nordenskolan í ár var Ástþór Jón Ragnheiðarson, forseti ASÍ-UNG og starfsmaður Verkalýðsfélags Suðurlands, sem svaraði nokkrum spurningum um námskeiðið.
Hvernig var í Nordenskolan og hver voru helstu umfjöllunarefni?
„Það var fróðlegt og skemmtilegt og svo eru tengslin ekki síður mikilvæg – bæði við allskonar fólk úr verkalýðshreyfingunni og jafnaðarflokkum Norðurlanda og líka í þessum öflugi hópi sem tók þátt frá Íslandi. Fyrri hluti námskeiðsins var rétt utan við Helsinki þar sem finnska alþýðusambandið er með aðstöðu fyrir svona lagað og seinni hlutinn var í höfuðstöðvum Dansk Metal í Kaupmannahöfn, félags málmiðnaðarmanna. Að því loknu tók ég þátt verkalýðsþingi Norðurlanda sem er haldið á hverju ári af SAMAK samhliða leiðtogafundi þar sem voru meðal annars gestgjafinn Mette Frederiksen, Jonas Gahr Støre, Magdalena Andersson og Kristrún Frostadóttir, ásamt forsetum alþýðusambandanna. Það er auðvitað mjög gagnlegt að kynna sér hvernig verkalýðshreyfingin vinnur á Norðurlöndum.
Í stórum dráttum var helsta umfjöllunarefni námskeiðsins norræna samfélagsmódelið – og stoðir þess sem eru skipulagður vinnumarkaður, ábyrg hagstjórn og sterkt velferðarkerfi. Ég hef mestan áhuga á aðkomu stéttarfélaganna að þessu og kem sjálfur þaðan – regluverki um starfsemi þeirra, umgjörð kjarasamninga og svo framegis. En samspilið við stjórnmálin er líka mikilvægt og ég vann hópverkefni sem gekk út á að meta árangur sósíaldemókrata í þingkosningum í samhengi sýnileika almenns verkafólks og verkalýðsleiðtoga á framboðslistum flokkanna. Það virðist vera samband þar á milli – þannig að meiri árangur náist þegar þessi tenging er sterkari,“ segir Ástþór Jón.
Hver er helsti ávinningurinn af svona námskeiði – lærdómur, tengsl, innblástur eða annað?
„Það fer líklega eftir hverjum og einum en þetta skiptir allt máli. Í mínu tilfelli held ég að tengslanetið sé mesti ávinningurinn og stemningin í þessum stóru flokkum og samtökum launafólks sem maður getur ekki upplifað með því að lesa sér bara til á netinu. Þannig að já það veitir innblástur í rauninni að fara út og kynna sér þetta. Á Norðurlöndum hefur tekist vel til við sameiningu verkalýðsfélaga – og í Danmörku er meira að segja búið að ganga svo langt að sameina stéttarfélög nær alls launafólks í einu sambandi, að undanskildum félögum langskólagenginna.
Ég horfi líka sérstaklega til þess hvernig verkalýðshreyfingin nær mestum árangri við að virkja ungt fólk til þátttöku. Þetta eru auðvitað fjölmennari lönd og félögin sterkari sem því nemur – til dæmis er finnska ASÍ-UNG með formann í fullu starfi og skilgreindan hluta af skrifstofunni sem sinnir öllu því sem snýr að yngra fólki og þar með framtíð hreyfingarinnar. Það er mikil fagmennska þarna og líka mikið stolt og sterk verkalýðshefð – enda hefur norræna verkalýðshreyfingin, og stjórnmálaflokkar hennar, byggt upp einhver farsælustu samfélög í heiminum. Ísland er ekki langt undan en við getum enn lært ýmist af nágrönnum okkar.“
Hvaða skoðun hefur þú á samstarfi verkalýðshreyfingar og jafnaðarflokka á Norðurlöndum?
„Í grunninn hef ég nálgast þetta þannig að verkalýðshreyfingin á Íslandi eigi að vera ópólitísk – þó að það sé í raun annað uppi á teningnum á Norðurlöndum. Ég hef verið skeptískur á fyrirkomulagið þar en um leið er í raun óhjákvæmilegt að það sé langmest svörun á milli verkalýðshreyfingar og flokka sem líta beinlínis á sig sem pólitískan arm hennar, eins og norrænu jafnaðarflokkarnir hafa gert. Og ef á meðan það er einkum einn stjórnmálaflokkur sem vill vinna þétt með verkalýðshreyfingunni þá er eðlilegt að þar sé samgangur og samstarf.
Kannski má segja að sjónarmið mín hafi þróast á þá leið að ég hef færst frá því að vilja ekki samstarf milli til dæmis Alþýðusambands Íslands og einstakra stjórnmálaflokka yfir í að segja: Þeim sem vilja samstarf við okkur skulum við taka vel og opna faðminn. Eins og staðan er í íslenskum stjórnmálum núna þá sýnist mér einn flokkur vilja dýpka samstarfið við ASÍ og ég vil bjóða hann velkominn. Það er Samfylkingin – sem hefur breyst mikið upp á síðkastið og leitað aftur í kjarnann, að mínu mati til hins betra.
Við þurfum meira af almennu launafólki inn á þing. Það mætti gjarnan vera fólk með djúpar rætur í verkalýðshreyfingunni og jafnvel verkalýðsleiðtogar. En aðalatriðið er bara að verkafólk geti átt sína fulltrúa á Alþingi sem hafa raunverulegan skilning á raunum, draumum og þrám þess stóra hóps. Ég er á þeirri skoðun að þetta skipti miklu máli en sé engan veginn sjálfgefin niðurstaða. Samfylkingin ætti að mínu mati að sjá til þess að verkafólk eða almennt launafólk skipi að minnsta kosti eitt sæti af fjórum efstu sætum á öllum framboðslistum til Alþingiskosninga. Það myndi styrkja flokkinn.“
* * *
Ásamt Ástþóri Jóni voru fulltrúar ungliða úr röðum ASÍ sem tóku þátt í Nordenskolan í ár þau Gunnar Hafsteinn Kristjánsson (í Félagi verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri), Haraldur Örn Arnarson (í Grafíu og formaður RSÍ-UNG) og Svanfríður Guðrún Bergvinsdóttir (í Verkalýðsfélagi Vestfjarða). Fulltrúar Ungs jafnaðarfólks voru þau Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður, Nanna Hermannsdóttir háskólanemi í Svíþjóð og Pétur Marteinn Urbancic Tómasson lögfræðingur.