Kolefnisbinding á kostnað náttúrunnar
Hér á landi ríkir almennt traust til vísindanna og framförum sem byggja á vísindalegum rannsóknum er fagnað á flestum sviðum mannlífsins. Við sáum það glöggt í heimsfaraldrinum að fólkið í landinu er vel læst á vísindaupplýsingar. Besta vísindafólkið kann líka að koma þekkingu sinni til skila til almennings á fróðlegan, ábyrgan og skemmtilegan hátt. Það er mikils virði og styður traust fólks til þekkingar sem byggir á staðreyndum.
Eitt af stærstu úrlausnarefnum samtímans er að draga úr losun gróðurhúslofttegunda til að koma í veg fyrir hamfarahlýnun. Það er skiljanlegt að frammi fyrir slíku verkefni vilji fólk beita öllum hugsanlegum aðferðum til að koma í veg fyrir ógnvænlegar afleiðingar. Vísindamenn hafa lengi bent okkur á nauðsyn þess að draga úr losun kolefnis en gæta jafnframt að líffræðilegum fjölbreytileika við loftslagsaðgerðir. Áherslan þarf aðallega að vera á samdrátt í losun og aðlögun að breyttum aðstæðum en minni á bindingu kolefnis, þó hún geti vissulega gert gagn þegar vel er staðið að verki.
Það var því með nokkurri undrun sem ég las fréttir af undirbúningi stórtækrar skógræktar – með gróðursetningu stafafuru og lerkis, alls 290 þúsund trjáa – við Húsavík. Að framkvæmdinni stendur fyrirtæki sem hyggst selja kolefniseiningar á markaði. Athygli vekur að planta á trjánum í gróið mólendi en vistgerðir á borð við mó- og graslendi í Norður-Evrópu njóta verndar samkvæmt Bernarsamningnum.
Við undirbúning framkvæmdarinnar gerði Náttúrustofa Norðausturlands athugasemdir við hana í ljósi fuglaverndunarsjónarmiða. Lítið virðist hafa verið á það hlustað. En mólendi er ekki bara mikilvægt búsvæði fugla og berjaland, það bindur líka kolefni, sem raskast og losast við trjárækt. Það er því ástæða til að spyrja um væntanlegan loftslagsávinning þessarar stórframkvæmdar.
Anna Guðrún Þórhallsdóttir, prófessor og sérfræðingur í landnýtingu, segir að þegar horft sé til langs tíma sé lággróður líkt og sá sem plægður var burt við Húsavík betri til bindingar á kolefnum en skógur. Sérstaklega þar sem endurplanta þurfi slíkum skógum á 50 til 70 ára fresti til þess að hámarka kolefnisbindingu. Ólafur S. Andrésson lífefnafræðingur hefur bent á að gróskumikið mólendi bindi kolefni sem jafngildi 550 tonnum af CO2 á hektara. Í nýlegri grein segir hann, m.a.: „… má reikna með að í ljósu, sinugrónu mólendi við Húsavík vegi hlýnunaráhrif vegna breytinga úr mólendi í barrskóg upp loftslagsávinning kolefnisbindingar við skógrækt.“
Íslenskt mólendi er ekki óræktarland heldur mikilvægur geymslustaður kolefnis. Lággróður er betri til bindingar á kolefni en skógur þegar til langs tíma er litið. Það er ástæða til að taka mark á vísindamönnum á þessu sviði eins og öðrum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. ágúst 2024.