Nýr Landspítali, gamlar geðdeildir
Nýr meðferðarkjarni Landspítalans við Hringbraut blasir við öllum sem leið eiga um Vatnsmýrina í Reykjavík. Glæsileg nýbygging sem lofar góðu um heilbrigðisþjónustuna sem þar verður veitt. Ég er þess fullviss að innan nýja Landspítalans mun starfsemin bera þess skýr merki að húsnæðið er hannað með þarfir og kröfur samtímans að leiðarljósi. Þar verða einkastofur sjúklinga reglan og aðbúnaður starfsfólks allt annar og betri en nú er. Ef áætlanir ganga eftir verður nýja sjúkrahúsið tilbúið í lok þessa áratugar. Vonandi laðar nýtt starfsumhverfi að sér heilbrigðisstarfsfólk úr öllum stéttum. Við þurfum á því að halda.
Samfylkingin hefur í stjórn og stjórnarandstöðu stutt dyggilega við uppbyggingu nýs Landspítala og viljað hraða henni. En við jafnaðarfólk höfum einnig verið óþreytandi við að benda á nauðsyn þess að fjármagna þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er á sjúkrahúsinu með fullnægjandi hætti og í þágu allra landsmanna. Þar hafa geðdeildir Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri ekki verið undanskildar.
Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið mistök að uppbygging nýrra geðdeilda var ekki höfð með í skipulagi og fjármögnun nýs Landspítala en hin stóra og metnaðarfulla framkvæmd við Hringbrautina gerir ekki ráð fyrir nýjum geðdeildum. Mér skilst að um síðustu aldamót hafi svarið verið að það þyrfti að „bíða aðeins“ með uppbyggingu þeirra.
Í umsögn Runólfs Pálssonar, forstjóra Landspítalans, um frumvarp til laga um réttindi sjúklinga frá 10. júlí sl. er varpað skýru ljósi á aðbúnað og aðstæður sjúklinga og starfsfólks á geðdeildum LSH. Í frumvarpinu er lagt til að lögfesta bann við beitingu nauðungar sem meginreglu. Um þá tillögu ætla ég ekki að fjalla hér en nýta tækifærið og vekja athygli á því hvernig forstjóri spítalans lýsir húsakosti og aðstæðum á geðdeildum LSH:
„Mikilvægt er þá að hafa í huga að húsnæði Landspítala er almennt ekki til þess fallið að draga úr nauðung og er t.d. afar ólíkt því húsnæði sem byggt hefur verið fyrir starfsemi geðsjúkrahúsa annarra Norðurlandaþjóða á síðustu 5-10 árum. Ljóst er orðið að slík nútímahönnun legudeilda sem byggist á batamiðaðri nálgun dregur úr þvingunum á deildum.“
Það má færa góð rök fyrir því að núverandi húsnæði geðdeildanna dragi úr gæðum heilbrigðisþjónustunnar sem þar er veitt. Í dag er gerð krafa um batamiðaða hönnun geðdeilda með áherslu á öruggt, uppbyggilegt og styðjandi umhverfi meðferðar með tengingu við náttúruna. Það er ekki veruleikinn sem mætir sjúklingum og aðstandendum þeirra í dag. Í lok síðasta árs skipaði heilbrigðisráðherra stýrihóp sem vinna á að frumáætlun um uppbyggingu nýrra byggingar fyrir geðdeildirnar. Það er verkefni sem stjórnmálin verða að setja í forgang.
Greinin birtist í Mogganum 22. júlí 2024.