„Uppbygging heilbrigðis- og velferðarkerfis er og verður brýnasta verkefni stjórnmálanna“

Ræða Þórunnar Sveinbjarnardóttur í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi þann 11. september 2024.  

Góðir áheyrendur, nær og fjær.

Íslenskt samfélag er í tilvistarkreppu. Við erum harmi lostin vegna ofbeldis á götum úti og unga fólksins sem kveður okkur allt of snemma.

Gulur september minnir okkur á þau.

Hann minnir okkur líka á að djúpstæðan vanda er ekki hægt að leysa með röð átaksverkefna. Uppbygging heilbrigðis- og velferðarkerfis hlýtur að vera brýnasta verkefni stjórnmálanna.

Íbúum þessa lands hefur fjölgað um 20% á liðnum áratug. Í ofanálag tökum við á móti meira en tveim milljónum ferðamanna ár hvert. Því er ekki furða að það reyni á innviði samfélagsins, innviði sem haldið er uppi af innflytjendum sem eru nógu góðir til að efla hagvöxt og velsæld okkar hinna en mega helst ekki komast í rjómann, eins og OECD hefur bent okkur á.

Í þessu samhengi langar mig að nefna systur tvær. Þær heita Vanda Sig og Drífa Sig. og koma við sögu í lífi mínu daglega. Ég verð að viðurkenna að það er ekki alltaf gott jafnvægi á milli systranna Vöndu og Drífu.

Viðar Halldórsson félagsfræðingur bendir á í nýlegri grein að það sé eins og við höfum týnt okkur sjálfum og misst sjónar á töfrum þess að búa saman í samfélaginu. Allt þarf að gerast hratt og við viljum gleypa heiminn helst í einum bita. Við þurfum að minnka hraðann og draga úr samfélagslegri streitu. Kannski eiga systurnar, Drífa og Vanda þriðju systurina. Ég held hún heiti Hvíla sig.

Frú forseti.

„Það eru engar hömlur á þau sem eiga peninga en alltaf verið að setja hömlur á okkur hin“ sagði maður á fundi Samfylkingarinnar í síðustu viku. Þar lýsti hann í einni setningu upplifun venjulegs fólks af eignaójöfnuði og misskiptingu. Þetta kristallast á húsnæðismarkaðnum þar sem fjársterkir aðilar kaupa upp íbúðir til Airbnb útleigu og einungis börn efnameiri foreldra komast inn á markaðinn.

Það hefur mikið verið rætt um læsi og lesskilning barnanna okkar á undanförnum mánuðum og misserum. Niðurstöðu PISA sýnir okkur að það er beint áhrifasamband á milli félagslegrar og efnahagslegrar stöðu heimila sem börn búa á og lesskilnings þeirra. Læsi snýst um efnahagslega og félagslega stöðu en PISA sýnir okkur líka fleira. Hún sýnir okkur að það skortir samkennd og samvinnu hjá unga fólkinu okkar. Ég hef meiri áhyggjur af því en að börnin okkar taki sig ekki á í lestrinum.

Bakslag í jafnréttisbaráttunni og kvenfrelsisbaráttunni veldur mér líka áhyggjum.

Enn eru ævitekjur kvenna 20% lægri en karla og kvennastéttir eins og leikskólakennarar knýja á um betri kjör og starfsumhverfi en í stað þess að fjármagna leikskólastigið betur er hafin tilraunastarfsemi með leikskólana án þess að jafnréttisáhrif þeirra hafi verið metin.

Ég er í engum vafa um að stytting vinnutíma og betra starfsumhverfi á leikskólum skilar sér í betri mönnun og ánægðara starfsfólki. En þjónustuskerðing og hækkuð gjöld kemur verst niður á þeim sem síst mega við því.

Það er leitun að fyrirkomulagi sem gengur eins augljóslega gegn hagsmunum kvenna og lágtekjufólks á vinnumarkaði og þessu nýja fyrirkomulagi sem stundum er kennt við Kópavog. Það er nefnilega þannig að hagsmunir barna foreldra fara saman í þessu eins og öðru.

Forseti.

Í 11 mánuði höfum við horft upp á Ísralesher gereyða Gasaströndinni og nú eru þeir byrjaðir á Vesturbakkanum. Tvö og hálft ár eru frá innrás Rússlands í Úkraínu og í Súdan geisar nú eitt hryllilegasta stríð sem sögur fara af og það er ólíkt hlutskipti stúlknanna í Kabúl og Kópavogi. Það er ekki nema von að spurt sé: Hvar eru friðflytjendurnir?

En að lokum á jákvæðari nótum.

Við þingsetninguna í gær hlýddum við á boðskap nýs biskups og ræðu nýs forseta. Þar gat að líta nýja ásýnd og nýjar áherslur þessara mikilvægu embætta. Vonandi verður þess ekki langt að bíða að nýr forsætisráðherra bætist í þennan fríða hóp.