Kjarabarátta kennara er barátta fyrir betra samfélagi

Á dögunum ræddi ég við eldri konu, kennara á eftirlaunum, sem sagði: „Þegar ég byrjaði að kenna voru kennaralaun þau sömu og þingmanna.“

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og 3. sæti í Kraganum

Það segir sína sögu af þróun launakjara kennara á þeim tíma sem liðinn er frá því að gamli kennarinn hóf störf fyrir 40-50 árum. En þessi staðreynd segir líka sögu af samfélagi sem einu sinni mat kennarastarfið að verðleikum. Þá voru vissulega aðrir tímar. Innreið kvenna á vinnumarkaðinn hafin og ekki síður menntasókn þeirra. En þá var skólinn líka margsetinn, bekkirnir stórir og raðað í þá eftir getu og börn með sérþarfir send í aðra skóla eða vistuð á opinberum stofnunum. Við búum til allra heilla í öðru og betra samfélagi í dag. Börn njóta óslitins skóladags og skólamáltíðir eru reglan. Skóli án aðgreiningar krefst skólahalds sem mætir börnum þar sem þau eru stödd, nám er einstaklingsmiðað og foreldrar tengjast skólastarfinu  oftar og nánar en áður. Auk þess hefur fjöldi skólabarna annað móðurmál en íslensku. Kjarabarátta kennara er hluti af baráttunni fyrir betra og sterkara samfélagi öllum til heilla.

Tvennt þróast samtímis: menntunarkröfur til kennara hafa stóraukist en laun þeirra lækkað í samanburði starfsgreinar sem krefjast háskólamenntunar. Ásamt þessari öfugþróun hafa aðrar kröfur til kennara vaxið jafnt og þétt. Mér rennur til rifja hvernig opinber umræða um kennslu og skóla hefur verið undanfarin misseri. Aðilar á borð við Viðskiptaráð og þetta blað hafa beinlínis sótt að kennarastarfinu. Þegar verst lætur stappar það nærri atvinnurógi. Af einhverjum undarlegum ástæðum virðast allir telja sig hafa vit á kennslu og skólastarfi. Ég hef ekki orðið vör við að skósmiðum eða augnlæknum sé „leiðbeint“ með sama hætti.

Kennarasambandið leggur á það áherslu að ríki og sveitarfélög standi við samkomulag frá 2016 um jöfnun lífeyriskjara á milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Samkomulagið markaði tímamót á vinnumarkaði og kvað á um jöfnun launa á milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins, enda um slíka grundvallarbreytingu að ræða á kjörum opinberra starfsmanna að sérstakra aðgerða var og er þörf. Í átta ár hefur hvorki gengið né rekið í því verkefni, sem virðist sitja fast í einhverju aðferðafræðilegu helvíti.

 

Jöfnun launa stendur og fellur með því að aðilar vinnumarkaðarins standi saman um hana, rétt eins og samkomulag hefur verið um krónutöluhækkun lægstu launa. Athygli mína vakti að forseti ASÍ gerir ekki athugasemdir við kaupkröfur kennara. Það veit á gott. Eina raunhæfa leiðin til að bæta kjör kennara án þess að þær hækkanir valdi keðjuverkun er að sátt sé um það á vinnumarkaði. Fordæmi eru um slíkt á Norðurlöndunum og þá leið er líka hægt að fara hér á landi. Þannig virkar norræna vinnumarkaðsmódelið.