Kvennaverkfall og hvað svo?
Langstærsti baráttufundur Íslandssögunnar var haldinn á Arnarhóli fyrir réttu ári. Þá var blásið til verkfalls kvenna og kvára og 100 þúsund manns svöruðu kallinu. Meira en fjórðungur þjóðarinnar!
Í yfirlýsingu fundarins voru eftirfarandi forgangsmál í brennidepli:
- Hættum að vanmeta virði svokallaðra kvennastarfa.
Konur bera uppi mennta-, velferðar- og heilbrigðiskerfið. Án vinnuframlags þeirra væri lítill hagvöxtur hér á landi, enda engin vinna möguleg án velferðar. Samfélag sem greiðir ofurlaun fyrir vinnu við áhættufjárfestingar en lág laun fyrir að sinna menntun barna og umönnun aldraðra, þarf að endurskoða verðmætamat sitt.
- Launamisrétti verði útrýmt og hvers kyn mismunun á vinnumarkaði.
Vinnumarkaður sem er jafn kynskiptur og sá íslenski þarf að grípa til róttækra aðgerða til að minnka muninn á milli ævitekna karla og kvenna. Hann er enn þá um það bil 20%. Lág laun framkallast í lágum eftirlaunum.
Útbreiddir fordómar gagnvart jaðarsettum konum – útlenskum, fötluðum, hinsegin og gömlum – minnka möguleika þeirra og starfsframa og veikja samfélagið.
- Karlar verða að axla ábyrgð á gangverki samfélagsins til jafns við konur.
Karlar, feður, bræður, og synir geta ekki verið stikkfrí þegar kemur að rekstri heimilisins, uppeldi barna og hinni títtnefndu þriðju vakt. Kannski ættu konur bara að leggja niður öll störf á þriðju vaktinni í eins og eitt ár. Svo að tíminn sem fer í ósýnilega skipulagið og umönnun og utanumhald verði mönnum sýnilegt. Það væri aldeilis hægt að létta byrðinni af konum.
- Konur og kvár verður að losa úr fjárhagslegum fjötrum ofbeldismanna.
Frelsi frá ofbeldi og fjárhagslegt frelsi er grundvöllur kvenfrelsis. Engin kona er frjáls borgari nema að hún sé fjárhagslega sjálfstæð og ekki upp á aðra komin. Bakslagið í jafnréttisbaráttunni er raunveruleg ógn við öryggi kvenna og barna.
Í dag, 24. október 2024, standa 34 samtök femínista, kvenna, launafólks, fatlaðs fólks og hinsegin fólks fyrir viðburði í Bíó Paradís kl. 18:30, þar sem framkvæmdastjórn Kvennaárs 2025 kynnir sameiginlegar kröfur gagnvart stjórnvöldum, réttu ári eftir stærsta baráttufund Íslandssögunnar. Að viðburði loknu, verður „Dagurinn sem Ísland stöðvaðist,” spennandi heimildamynd eftir Pamelu Hogan og Hrafnhildi Gunnarsdóttur um fyrsta Kvennafrídaginn frumsýnd.
Í auglýsingu fundarins segir, m.a.: „Hin magnaða kvennasamstaða þvert á pólitískar línur árið 1975 lagði hornstein að stórkostlegustum þjóðfélagsbreytingum. En þrátt fyrir þrotlausa baráttu í hálfa öld búa konur enn við misrétti og ofbeldi. Við ætlum ekki að bíða í 50 ár til viðbótar! Við vitum sem er að sameiginlegur kraftur okkar er óstöðvandi. Sagan sýnir okkur það. Við getum, þorum og viljum!“
Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. október 2024.