Skerðing ellilífeyris nær tvöfaldast
Það sem eftirlaunafólk þarf núna er ríkisstjórn með sterkt umboð til að efla almannatryggingakerfið
Skerðingar á ellilífeyri voru 36,5 milljarðar á ársgrundvelli þegar núverandi ríkisstjórn tók við árið 2017. Í dag nema skerðingarnar 66 milljörðum samkvæmt upplýsingum frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Þær hafa nærri tvöfaldast. Stóra ástæðan er sú að almenna frítekjumarkinu hefur verið ríghaldið í 25 þúsund krónum á hverju einasta fjárlagaári.
Frá því að ég settist á þing haustið 2021 hef ég beitt mér af þunga fyrir réttlátara almannatryggingakerfi. Ég hef gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að sniðganga lagafyrirmæli um að greiðslur Tryggingastofnunar fylgi launaþróun og bent á að með raunrýrnun frítekjumarks hafa skerðingar þyngst ár frá ári. En það er til lítils að hrópa og kalla í stjórnarandstöðu. Það sem eftirlaunafólk þarf núna er ríkisstjórn með sterkt umboð til að efla almannatryggingakerfið okkar.
Í fyrra lagði Samfylkingin fram áætlun um þjóðarátak í umönnun eldra fólks sem snýst um eflingu samþættrar heimaþjónustu og fjölgun hjúkrunarrýma og sambýla. Nú á dögunum kynntum við svo framkvæmdaplanið okkar í húsnæðis- og kjaramálum þar sem meðal annars eru settar fram aðgerðir til að treysta betur afkomuöryggi eldra fólks.
Þar leggur Samfylking áherslu á þrennt: Í fyrsta lagi að stöðva kjaragliðnun milli launa og lífeyris með því að binda greiðslur Tryggingastofnunar við launavísitölu. Í öðru lagi að hækka frítekjumark ellilífeyris úr 25 í 60 þúsund krónur á mánuði svo eldra fólk njóti meiri ávinnings af því að hafa greitt í lífeyrissjóði. Og í þriðja lagi að koma á sérstöku frítekjumarki vaxtatekna þannig að umtalsvert færri eldri borgarar fái harkalegan bakreikning frá Tryggingastofnun ár hvert.
Þetta eru verkefni sem verður ekki ráðist í nema Samfylkingin fái sterka kosningu 30. nóvember næstkomandi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. nóvember 2024.