Skerðing ellilífeyris nær tvöfaldast

Það sem eft­ir­launa­fólk þarf núna er rík­is­stjórn með sterkt umboð til að efla al­manna­trygg­inga­kerfið

Jói, Jóhann Páll, þingflokkur
Jóhann Páll Jóhannsson Alþingismaður

Skerðing­ar á elli­líf­eyri voru 36,5 millj­arðar á árs­grund­velli þegar nú­ver­andi rík­is­stjórn tók við árið 2017. Í dag nema skerðing­arn­ar 66 millj­örðum sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá fé­lags- og vinnu­markaðsráðuneyt­inu. Þær hafa nærri tvö­fald­ast. Stóra ástæðan er sú að al­menna frí­tekju­mark­inu hef­ur verið ríg­haldið í 25 þúsund krón­um á hverju ein­asta fjár­laga­ári.


Frá því að ég sett­ist á þing haustið 2021 hef ég beitt mér af þunga fyr­ir rétt­lát­ara al­manna­trygg­inga­kerfi. Ég hef gagn­rýnt rík­is­stjórn­ina fyr­ir að sniðganga laga­fyr­ir­mæli um að greiðslur Trygg­inga­stofn­un­ar fylgi launaþróun og bent á að með raun­rýrn­un frí­tekju­marks hafa skerðing­ar þyngst ár frá ári. En það er til lít­ils að hrópa og kalla í stjórn­ar­and­stöðu. Það sem eft­ir­launa­fólk þarf núna er rík­is­stjórn með sterkt umboð til að efla al­manna­trygg­inga­kerfið okk­ar.


Í fyrra lagði Sam­fylk­ing­in fram áætl­un um þjóðarátak í umönn­un eldra fólks sem snýst um efl­ingu samþættr­ar heimaþjón­ustu og fjölg­un hjúkr­un­ar­rýma og sam­býla. Nú á dög­un­um kynnt­um við svo fram­kvæmdaplanið okk­ar í hús­næðis- og kjara­mál­um þar sem meðal ann­ars eru sett­ar fram aðgerðir til að treysta bet­ur af­komu­ör­yggi eldra fólks.


Þar legg­ur Sam­fylk­ing áherslu á þrennt: Í fyrsta lagi að stöðva kjaragliðnun milli launa og líf­eyr­is með því að binda greiðslur Trygg­inga­stofn­un­ar við launa­vísi­tölu. Í öðru lagi að hækka frí­tekju­mark elli­líf­eyr­is úr 25 í 60 þúsund krón­ur á mánuði svo eldra fólk njóti meiri ávinn­ings af því að hafa greitt í líf­eyr­is­sjóði. Og í þriðja lagi að koma á sér­stöku frí­tekju­marki vaxta­tekna þannig að um­tals­vert færri eldri borg­ar­ar fái harka­leg­an bak­reikn­ing frá Trygg­inga­stofn­un ár hvert.

Þetta eru verk­efni sem verður ekki ráðist í nema Sam­fylk­ing­in fái sterka kosn­ingu 30. nóv­em­ber næst­kom­andi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. nóvember 2024.