Útvegsbændur menningarinnar

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður

Stórblaðið The New York Times var að velja Myrkrið á milli stjarnanna eftir Hildi Knútsdóttur eina af tíu bestu hrollvekjum ársins. Höfundurinn er líka búin að selja kvikmyndaréttinn til Bandaríkjanna. Hildur Knútsdóttir rithöfundur er kona eigi einhöm. Hún hefur ritað fjölda vinsælla bóka fyrir börn og ungmenni og meðal annars hlotið Fjöruverðlaunin og Íslensku bókamenntaverðlaunin.

Það er ástæða til að ræða um afrekshöfundinn Hildi Knútsdóttur í samhengi árvissrar umræðu um launasjóði listamanna hér á landi. Í nýlegu viðtali á RÚV sagði hún um listamannalaunin:

„Þetta er í raun og veru bara fjárfesting. Eins og með Myrkrið á milli stjarnanna. Ég hefði ekki skrifað hana ef ég hefði ekki verið á ritlaunum. Hún er að koma út í Bandaríkjunum og ég borga skatta af sölutekjunum þar hér heima. Svo er ég búin að selja kvikmyndaréttinn til Bandaríkjanna og ég borga skatta af því hérna. Ég er ekki í neinu skattaskjóli. Þetta eru peningar sem skila sér aftur.“

Allt er þetta í samræmi við niðurstöður skýrslu sem Ágúst Ólafur Ágústsson hagfræðingur vann fyrir Lilju D. Alfreðsdóttur, fráfarandi menningar- og viðskiptaráðherra, og birt var í haust. Þar kom fram að beint framlag menningar og skapandi greina nam 3,5 % af landsframleiðslu eða um 150 milljörðum króna árið 2022. Það er litlu minna framlag en sjávarútvegs til landsframleiðslunnar! Opinber framlög, eða öllu heldur fjárfesting, í menningu og skapandi greinum verður að þremur krónum í hagkerfinu. Ég er ekki viss um að slík ávöxtun bjóðist víða.

Enn fremur er sagt frá því að óbein hlutdeild menningar og skapandi greina hækki hlutfall af landsframleiðslu í 4,5% sem nemur um 190 milljónum króna á ársgrundvelli. Í skýrslunni eru áætlaðar skatttekjur hins opinbera vegna skatta á laun og neyslu vinnuafls í menningu og skapandi greinum ásamt tekjum vegna áhrifa þessara greina á ferðamannafjölda sagðar að minnsta kosti 40 milljarðar króna.

Fólki má vera ljóst að þau sem starfa í menningu og skapandi greinum færa björg í bú rétt eins og útgerðin, stóriðjan og ferðaþjónustan. Þeirra framlag til verðmætasköpunar er umtalsvert eins og tölurnar úr skýrslunni sýna glöggt. Það eitt ætti að þagga niður í hinu árlega listamannalaunanöldri. Það á ekki að vera „fjárhagslega fullkomlega galin ákvörðun“ að gerast rithöfundur á Íslandi, eins og Margrét Tryggvadóttir formaður Rithöfundsambandsins benti réttilega á í nýlegu viðtali. Hið sama á við um aðrar listgreinar.

1.339 umsóknir bárust í launasjóði listamanna fyrir árið 2025. 251 listamaður fékk úthlutun í þrjá, sex, níu eða tólf mánuði eftir atvikum. Mánaðarleg greiðsla ú launasjóðnum er 560.000 krónur, verktakagreiðsla fyrir skatt. Þeim peningum er vel varið.