Útgerðin þarf að gera hreint fyrir sínum dyrum

Í vikunni voru kynnt drög að frumvarpi um leiðréttingu veiðigjalda. Sú leiðrétting mun gera stjórnvöldum kleift að fjárfesta í vegum og innviðum í landinu og vinna á þeirri gríðarlegu innviðaskuld sem fyrri ríkisstjórn skildi eftir sig.
Fjárhæð veiðigjalda samkvæmt frumvarpinu tvöfaldast. Við fáum eðlilegri hluta af arðinum af auðlindinni til uppbyggingar samfélagsins, í stað þess að veiðigjöld dugi aðeins fyrir umsýslu og rannsóknum vegna sjávarútvegs.
Athygli vekur að þessi niðurstaða fæst með því að byggja gjaldtökuna á raunverulegu markaðsverði á fiski í stað þess að miða við verð sem útgerðin sjálf hefur gefið upp, að stórum hluta í viðskiptum við landvinnslu í eigu sömu aðila. Uppgefið verðmæti hefur með öðrum orðum verið aðeins um helmingur af markaðsverði. Ríkissjóður hefur orðið af milljarðatugum vegna þessa. Hingað til hefur útgerðin og talsmenn hennar ekki ávarpað þennan þátt málsins. Það gengur ekki. Þvert á móti þarf útgerðin að gera hreint fyrir sínum dyrum. Þetta varðar nefnilega fleira en veiðigjöld.
Í fyrsta lagi hefur uppgefið verðmæti afla bein áhrif á laun sjómanna. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, vill af þessu tilefni að þingið skipi rannsóknanefnd til að kanna hve miklu hefur verið „stolið frá íslenskum sjómönnum“. Vilhjálmur og margir fleiri hafa lengi bent á það að útgerðin geti ákveðið fiskverð og þar með hlut sjómanna einhliða því að veiðar og vinnsla séu iðulega á sömu hendi. Þennan anga málsins þarf að gera upp.
Í öðru lagi hafa laun sjómanna bein áhrif á það útsvar sem þeir greiða til viðkomandi sveitarfélags. Víða á landsbyggðinni vega þessi laun þungt, eins og við höfum fengið að heyra í umræðunni um loðnubrest. Leggja þarf mat á hvaða útsvarstekjur sveitarfélög hafa farið á mis við.
Í þriðja lagi hefur aflaverðmæti bein áhrif á löndunargjöld í höfnum. Á undanförnum árum hafa aðeins þrjár til fjórar hafnir verið reknar réttum megin við núllið. Hafnarsjóðir um land allt gætu átt umtalsverðar upphæðir inni. Hafnarsambandið ætti skýlaust að efna til rannsóknar á þessu því það er erfitt fyrir einstakar hafnir að standa í slíkum slag við helstu viðskiptavini sína.
Nú kristallast hverjir standa með almenningi og almannahagsmunum, og hverjir standa með sérhagsmunum og útgerðinni. Var eitthvað að marka yfirlýsingar Framsóknarflokksins og varaformanns flokksins Lilju Alfreðsdóttur í síðustu ríkisstjórn og aðdraganda kosninga um að þjóðin ætti að fá eðlilegan og aukinn arð af sjávarauðlindinni? Mér sýnist ekki. Er einhver von á að Sjálfstæðisflokkurinn og Sigmundur standi með almenningi? Nei. Það er mikil gæfa að loksins sé komin ríkisstjórn sem er ekki í vasanum á útgerðinni.
Dagur B. Eggertsson
Þingmaður Samfylkingarinnar
Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. mars 2025