Útgerðin þarf að gera hreint fyrir sínum dyrum

Dagur

Í vik­unni voru kynnt drög að frum­varpi um leiðrétt­ingu veiðigjalda. Sú leiðrétt­ing mun gera stjórn­völd­um kleift að fjár­festa í veg­um og innviðum í land­inu og vinna á þeirri gríðarlegu innviðaskuld sem fyrri rík­is­stjórn skildi eft­ir sig.

Fjár­hæð veiðigjalda sam­kvæmt frum­varp­inu tvö­fald­ast. Við fáum eðli­legri hluta af arðinum af auðlind­inni til upp­bygg­ing­ar sam­fé­lags­ins, í stað þess að veiðigjöld dugi aðeins fyr­ir um­sýslu og rann­sókn­um vegna sjáv­ar­út­vegs.

At­hygli vek­ur að þessi niðurstaða fæst með því að byggja gjald­tök­una á raun­veru­legu markaðsverði á fiski í stað þess að miða við verð sem út­gerðin sjálf hef­ur gefið upp, að stór­um hluta í viðskipt­um við land­vinnslu í eigu sömu aðila. Upp­gefið verðmæti hef­ur með öðrum orðum verið aðeins um helm­ing­ur af markaðsverði. Rík­is­sjóður hef­ur orðið af millj­arðatug­um vegna þessa. Hingað til hef­ur út­gerðin og tals­menn henn­ar ekki ávarpað þenn­an þátt máls­ins. Það geng­ur ekki. Þvert á móti þarf út­gerðin að gera hreint fyr­ir sín­um dyr­um. Þetta varðar nefni­lega fleira en veiðigjöld.

Í fyrsta lagi hef­ur upp­gefið verðmæti afla bein áhrif á laun sjó­manna. Vil­hjálm­ur Birg­is­son, formaður Verka­lýðsfé­lags Akra­ness, vill af þessu til­efni að þingið skipi rann­sókna­nefnd til að kanna hve miklu hef­ur verið „stolið frá ís­lensk­um sjó­mönn­um“. Vil­hjálm­ur og marg­ir fleiri hafa lengi bent á það að út­gerðin geti ákveðið fisk­verð og þar með hlut sjó­manna ein­hliða því að veiðar og vinnsla séu iðulega á sömu hendi. Þenn­an anga máls­ins þarf að gera upp.

Í öðru lagi hafa laun sjó­manna bein áhrif á það út­svar sem þeir greiða til viðkom­andi sveit­ar­fé­lags. Víða á lands­byggðinni vega þessi laun þungt, eins og við höf­um fengið að heyra í umræðunni um loðnu­brest. Leggja þarf mat á hvaða út­svar­s­tekj­ur sveit­ar­fé­lög hafa farið á mis við.

Í þriðja lagi hef­ur afla­verðmæti bein áhrif á lönd­un­ar­gjöld í höfn­um. Á und­an­förn­um árum hafa aðeins þrjár til fjór­ar hafn­ir verið rekn­ar rétt­um meg­in við núllið. Hafn­ar­sjóðir um land allt gætu átt um­tals­verðar upp­hæðir inni. Hafn­ar­sam­bandið ætti ský­laust að efna til rann­sókn­ar á þessu því það er erfitt fyr­ir ein­stak­ar hafn­ir að standa í slík­um slag við helstu viðskipta­vini sína.

Nú krist­all­ast hverj­ir standa með al­menn­ingi og al­manna­hags­mun­um, og hverj­ir standa með sér­hags­mun­um og út­gerðinni. Var eitt­hvað að marka yf­ir­lýs­ing­ar Fram­sókn­ar­flokks­ins og vara­for­manns flokks­ins Lilju Al­freðsdótt­ur í síðustu rík­is­stjórn og aðdrag­anda kosn­inga um að þjóðin ætti að fá eðli­leg­an og auk­inn arð af sjáv­ar­auðlind­inni? Mér sýn­ist ekki. Er ein­hver von á að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn og Sig­mund­ur standi með al­menn­ingi? Nei. Það er mik­il gæfa að loks­ins sé kom­in rík­is­stjórn sem er ekki í vas­an­um á út­gerðinni.

Dagur B. Eggertsson

Þingmaður Samfylkingarinnar

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. mars 2025