Hærri veiðigjöld eru sjálfsagt réttlætismál

Dagur

Alþingi hefur brugðist í því að tryggja þjóðinni eðlilegan arð af sjávarauðlindinni. Þetta var kjarninn í ræðu sem ég hélt nýverið til stuðnings löngu tímabærri hækkun veiðigjalda á Alþingi. Deilur um sjávarútveg og upphæð veiðigjalda eru ekki nýjar.

Sáttin um upphæð veiðigjalda átti að felast í að útgerðin héldi eftir 67% af auðlindarentunni – en þjóðin fengi þriðjung. Mér finnst þetta reyndar ekki mjög réttlát skipting.

Síðustu fimmtán ár hefur aðeins um helmingur þess sem til stóð komið í hlut þjóðarinnar í formi veiðigjalda, eða um 16-18% af auðlindarentunni. Því er eðlilegt að hækka þau.

Hækkun veiðigjalda er aðeins leiðrétting. Að fleiru þarf að hyggja. Harðsnúnir hagsmunaaðilar fengu því framgengt að leiðir voru opnaðar til að lækka greidd veiðigjöld, m.a. með hröðum afskriftum fjárfestinga í bókhaldi sjávarútvegsfyrirtækja. Það þarf að skoða líka. Næsta skref væri tilraunaverkefni við uppboð aflaheimilda. Þannig myndi sjávarútvegurinn sjálfur verðleggja aðgang sinn að auðlindinni, á markaðsforsendum.

Gróði sem myndast vegna aðgengis fárra að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar er ein meginástæða þess að auður og völd eru að safnast á allt of fáar hendur á Íslandi. Fjórar fjölskyldur og eitt Kaupfélag eiga samtals tæpa fimm hundruð milljarða í eigið fé – af þessum sökum – skv. samantekt Frjálsrar verslunar.

Ljóst er að sterk fjárhagsstaða útgerðarfélaga byggist að umtalsverðu leyti á einkaleyfi þeirra til nýtingar sameiginlegrar auðlindar þjóðarinnar og skipar það þeim í sérflokk í íslensku atvinnulífi, sérstaklega stærstu félögunum. Tækniframfarir og samþjöppun fyrirtækja hefur enn fremur aukið arðsemi útgerðanna.

Skýrar vísbendingar eru um að fjárfestingar tengdar fyrirtækjum í sjávarútvegi út fyrir greinina hafi aukist mjög í takt við aukinn hagnað af nýtingu auðlindarinnar. Það getur hæglega leitt til verulegrar uppsöfnunar eigna og áhrifa á fárra hendur og dregið úr virkri samkeppni á mörkuðum. Vegna smæðar innanlandsmarkaða er íslenskt atvinnulíf sérstaklega viðkvæmt fyrir fákeppni.

SFS og stjórnarandstaðan hafa talað mikið um áhrif þess að samþykkja lögin um veiðigjöld – og haft af því áhyggjur. Það er sjálfsögð umræða. En útgerðin ræður vel við þetta og gott betur. Við þurfum ekki síður að ræða hvaða áhrif það hefur ef við leiðréttum veiðigjöldin ekki.

Það er lykilmál að tryggja þjóðinni eðlilegan arð af sameiginlegri auðlind. Hærri veiðigjöld eru mikilvægt fyrsta skref. Ef ekki er brugðist við mun auður og völd safnast áfram á fárra hendur í krafti arðs af sameign þjóðarinnar. Það er vont fyrir byggðirnar. Það er vont fyrir atvinnulífið. Það er vont fyrir samkeppni. Það er vont fyrir lýðræðið. Og það er vont fyrir samfélagsgerðina.

Dagur B. Eggertsson, alþingismaður Reykvíkinga. Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. maí 2025.