Leiðrétting veiðigjalda er tímamótaskref

Þórunn,  kraginn, banner,

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra mælti í gær fyrir frumvarpi um veiðigjöld. Það felur í sér nýtt mat á aflaverðmæti sem tryggir að horft sé til raunverulegs verðmætis aflans við útreikning gjaldanna. Hefur það ekki alltaf verið þannig? Svarið við því er nei.

Stærstur hluti viðskipta með íslenskan afla á sér stað innan fyrirtækja þar sem veiðar og vinnsla eru á sömu hendi. Afleiðingar þessa fyrirkomulags eru að fyrirtækin ákveða verðmæti aflans í viðskiptum við sig sjálf. Þetta er mögulegt vegna lóðréttrar samþættingar fyrirtækjanna. Á mannamáli þýðir þessi breyting að fyrirtækin ákveða ekki lengur sjálf reiknistofn veiðigjaldsins.

Með þeirri aðferðafræði sem lögð er til í frumvarpinu munu veiðigjöld verða 17,3 milljarðar króna á næsta ári í stað þess að vera 11,2 milljarðar króna, líkt og þau yrðu ef lögin stæðu óbreytt. Vert er að taka fram að kostnaður ríkissjóðs vegna þjónustu við sjávarútveg var 11 milljarðar króna árið 2023. Veiðigjöld þess árs dugðu ekki fyrir útgjöldum ríkisins vegna atvinnugreinarinnar!

Útgerðin fær áfram 67% hagnaðar af hverri veiðiferð en 33% hagnaðar verða greidd í veiðigjald fyrir afnot af auðlindinni. Við þessar breytingar mun framlegð útgerðarfélaga fara úr 93,8 milljörðum niður í 84,2 milljarða króna sé miðað við árið 2023. Hækkun frítekjumarks mun draga úr áhrifum á lítil og meðalstór útgerðarfyrirtæki.

Í meira en þrjá áratugi hafa staðið illvígar deilur á Íslandi um eignarhald sjávarútvegsauðlindarinnar og ranglætið sem fólst í því að afhenda aflaheimildir án endurgjalds og leyfa svo framsal þeirra á markaði. Um árabil tók ritstjórn Morgunblaðsins fullan þátt í þeirri umræðu og lagðist á sveif með þeim sem vildu leiðrétta ranglætið.

Þegar Samfylkingin var stofnuð fyrir réttum aldarfjórðungi var fyrningarleiðin mjög mikilvægt kosningamál. Hefði henni verið hrint í framkvæmd hefði á tveim áratugum verið hægt að endurúthluta öllum aflaheimildum og fá fyrir þær markaðsverð. En jafnaðarflokkur Íslands fékk ekki tækifæri til að innleiða fyrningarleiðina. Það er allt saman efni í aðra umfjöllun.

Ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins er einhuga um að innheimta eigi réttlát gjöld af auðlindum lands og sjávar og að hluti þeirra eigi að renna til nærsamfélaga. Fyrir liggur að tekjurnar af veiðigjöldum munu að stóru leyti renna til innviðafjárfestinga. Því ber að fagna í ljósi innviðaskuldarinnar sem ný ríkisstjórn hefur fengið í arf.

Þetta er mildari leið réttlátra breytinga í sjávarútvegi en sumir stjórnarflokkarnir hafa talað fyrir á undanförnum árum en ljóst er að með þessum breytingum er ríkisstjórnin að stíga mikilvægt og tímabært skref og um það ríkir samstaða meðal stjórnarflokkanna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 6. maí 2025. Höfundur er forseti Alþingis.