Ræða formanns 1. maí: „Verkstjórn í þágu vinnandi fólks“

Ræða Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingar og forsætisráðherra, á baráttudegi verkalýðsins 1. maí 2025 í Reykjavík.
I.
Kæru félagar, í verkalýðshreyfingunni og í Samfylkingunni. Gleðilegan 1. maí! Og takk fyrir að halda merkjum okkar á lofti og heiðra þennan hátíðlega dag.
Fyrir mér er 1. maí dagur stolts og virðingar. Stolts og virðingar fyrir hinn almenna launamann. Áminning um að saman erum við sterk. Og að með samstöðu hefur verkalýðshreyfingin mótað samfélag okkar í þágu alþýðu manna. Það var svo langt frá því að vera sjálfgefið þegar fyrstu stéttarfélögin voru stofnuð á Íslandi fyrir meira en 100 árum. Þá var þorri almennings enn í fjötrum fátæktar, réttleysis og niðurlægingar – en frelsið aðeins fyrir fámenna yfirstétt í landinu.
Býsna margt hefur breyst. En barátta verkalýðshreyfingarinnar er og hefur alltaf verið frelsisbarátta fyrir venjulegt fólk. Barátta fyrir því að hinn almenni maður geti notið frelsis og öryggis í daglegu lífi, óháð stétt og stöðu. Og það gildir eins á okkar dögum – enda er þetta eilífðarverkefni.
II.
Ég lít svo á að verkalýðshreyfingin vinni bæði í gegnum stéttarfélögin sjálf og á vettvangi stjórnmála. Og á síðustu árum hefur Samfylkingin farið aftur í kjarnann eins og þekkt er orðið.
Forseti Alþýðusambands Íslands fagnaði því á landsfundi okkar um daginn að jafnaðarmenn væru nú að sameinast, fremur en hitt, í Samfylkingu – og benti á að við værum sprottin af sömu rót og eigum okkar sameiginlegt upphaf í stofnun Alþýðusambands og Alþýðuflokks árið 1916. Hann hvetur félaga sína til þátttöku í stjórnmálum þó að stéttarfélögin séu ekki flokkspólitísk – enda blasi við að áhrif af kjarasamningum á þróun samfélagsins séu takmörkuð.
Í sömu ræðu sagði forseti Alþýðusambandsins að Samfylkingin væri rödd verkalýðshreyfingarinnar á Alþingi Íslendinga. Það var sérlega gleðilegt að heyra. Enda höfum við í Samfylkingunni lagt mikið á okkur til að færa flokkinn á réttan stað – þétt með þjóðinni – og förum nú með forystu í ríkisstjórn. Og í þessari stöðu felast sannarlega tækifæri. Ég vil leyfa mér að fullyrða að ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins standi nær vinnandi fólki og fjær hvers kyns sérhagsmunum en nokkur önnur ríkisstjórn á Íslandi í háa herrans tíð – að minnsta kosti í meira en áratug.
Við verðum að nýta þetta tækifæri. Til að vinna langvarandi sigra fyrir fólkið í landinu. Og það ætlum að við gera.

Gott fólk. Á þessum mikilvæga degi er ánægjulegt að geta sagt frá því að ríkisstjórnin stendur sannarlega með verkalýðshreyfingunni. Í stefnuyfirlýsingu Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins kemur skýrt fram að ríkisstjórnin hyggst taka fast á félagslegum undirboðum, meðal annars með því að herða eftirlit með starfsmannaleigum, innleiða keðjuábyrgð í stærri verklegum framkvæmdum, efla heimildir til vinnustaðaeftirlits og lögfesta skýrari refsiákvæði vegna vinnumansals.
Vinna að þessum málum er þegar farin af stað og ég mun fylgja henni fast eftir.
III.
Kæru vinir. Ég vil leiða verkstjórn í þágu vinnandi fólks. En ég er fyllilega meðvituð um að það er ekki nóg að segja þetta bara. Verkin tala.
Og við verðum dæmd af verkum okkar – hvernig okkur gengur að sinna hagsmunum vinnandi fólks í raun og veru.
* * *
Þess vegna megum við ekki frjósa föst í báða fætur af ótta við breytingar eða erfiðar ákvarðanir eða jafnvel í einhverjum tilvikum endurskoðun á okkar eigin afstöðu. Ég skal taka dæmi: Á síðustu árum og áratugum höfum við jafnaðarmenn oft barist fyrir breytingum á lögum og reglum og stjórnsýslu í því skyni að verja réttindi einstaklinga fyrir ofríki stjórnvalda – til dæmis á sviði skipulagsmála þegar kemur að ýmiskonar uppbyggingu, á húsnæði og öðrum innviðum. Þetta er góðra gjalda vert og hluti af alþjóðlegri þróun. En öllu eru takmörk sett og í einhverjum tilvikum getur verið að pendúllinn hafi sveiflast of langt í aðra áttina. Til dæmis með þeim afleiðingum að það verður einfaldlega of erfitt að byggja nógu mikið, nógu hratt, af nauðsynlegum innviðum. Og þá þarf að leita á ný að réttu jafnvægi.
Því að ríkið verður að virka. Og stjórnvöld sem standa ekki undir uppbyggingu til að mæta þörf fólks fyrir íbúðir á viðráðanlegu verði, vegi, orkuinnviði, hjúkrunarheimili, leikskóla og svo framvegis – slík stjórnvöld eru ekki að starfa í þágu vinnandi fólks í raun. Þá þarf að gera betur. Sérstaklega þegar að jafnaðarflokkur er við stjórn: Þar sem er skortur á nauðsynjum eigum við að stíga inn og skapa meira – eða að minnsta kosti skapa umgjörð sem vinnur á skortinum.
Kerfið verður að virka. Það má ekki vera svo mikil tregða í kerfinu að það grafi undan grunninnviðum og þjónustu við almenna borgara. Regluverk getur verið innleitt í góðri trú og af gildum ástæðum á tilteknum tímapunkti – en við megum aldrei sofa á verðinum gagnvart því að það þarf alltaf að vega og meta mismunandi hagsmuni. Of íþyngjandi regluverk getur bitið í skottið á sér og leitt til þess að fólk missi trú á stjórnvöld og að stjórnkerfið geti virkað sem skyldi.
Gagnrýni á ríkið, á kerfið, á að vera í okkar höndum - við getum ekki eftirlátið þeim sem vilja ekki að kerfið virki, vilja ekki að ríkið virki að gagnrýna það og rífa það niður. Þetta verður verkalýðshreyfingin líka að hafa í huga í samvinnu við okkur og við eigin baráttu og skipulag. Allt er breytingum háð, samfélög breytast og eitthvað sem átti við á einum tíma getur þurft að taka breytingum við aðrar aðstæður. En það skiptir máli hvernig það er gert, og hver gerir það.
Höfum eitt í huga: það er eitt að tala um regluverk og eftirlit fyrir einkageirann - það er enginn að tala um að hleypa öllu hér lausu án eftirlits og reglna. En það er annað þegar regluvæðing ríkisins sjálfs hindrar að ríkið - og hið opinbera - geti hreyft sig. Þegar fjárheimildir ríkisins rata ekki út vegna flækjustigs. Ríki sem getur ekki byggt nauðsynlega samfélagslega innviði fyrir fólkið í landinu er ekki að þjóna fólkinu.
Við erum hér til að þjóna fólkinu og það gerir verkalýðshreyfingin líka.
Hættan er meðal annars – fyrir okkur jafnaðarmenn og verkalýðshreyfinguna – að slíkar aðstæður, þegar ríkið virkar ekki, getur ekki byggt, getur ekki þjónað - geti verið vatn á myllu öfgaafla í pólitík. Jaðarflokka sem nærast á skortinum og þykjast geta boðið betur – jafnvel með því að brjóta niður velferðarkerfið og þau verðmæti sem við eigum saman.
* * *
Þessar vangaveltur snúa að uppbyggingu á grunninnviðum. Þar verður flokkur eins og Samfylkingin að standa sig í stykkinu. En það væri allt eins hægt að ræða á svipuðum nótum um önnur atriði sem skipta fólk máli en geta kallað á erfiðar ákvarðanir – eða allavega mat á mismunandi hagsmunum og sjónarmiðum sem vegast á. Ég get nefnt sem dæmi: Útlendinga- og innflytjendamál. Löggæslumál og öryggi borgaranna. Varnarmál og virk þátttaka í varnarsamstarfi NATO.
Þó að við séum fyrst og fremst jafnaðarflokkur og velferðarsinnar, þétt með verkalýðshreyfingunni – þá eru þetta allt dæmi um málaflokka sem liggja mörgum á hjarta. Og sem við verðum að sinna með þeim hætti að það skapi breiða sátt í samfélaginu og auki öryggistilfinningu fólks í daglegu lífi frekar en hitt.
Því að það er fleira sem skiptir fólk máli en hvernig kökunni er skipt og hvernig við beitum sköttum og velferð til að vinna að jöfnuði.
Forsenda fyrir því að pólitík okkar jafnaðarmanna fái brautargengi er að okkur sé treyst til að taka á málum sem standa fólki næst – og að við náum árangri. Og þetta getum við gert af virðingu.
Ef við lokum augunum fyrir áhyggjum fólks í málum sem okkur finnst erfitt takast á við – þá er hætt við að öfgaflokkar vaxi og dafni í kosningum fyrir vikið. Og því miður sjáum við dæmi þess alltof víða á Vesturlöndum á síðustu árin.
Þess vegna segi ég: Andvaraleysi og kæruleysi er ekki í boði. Við í Samfylkingunni verðum að taka þá ábyrgð sem okkur er falin alvarlega. Og ég hvet verkalýðshreyfinguna sömuleiðis til að taka þátt með virkum hætti í samfélagsumræðu um viðkvæm en mikilvæg mál sem liggja félögum þeirra á hjarta.
Eitt er að tryggja kraftmikla verðmætasköpun og sterka velferð. Það er höfuðverkefni okkar í pólitík. En við verðum líka að búa fólki ákveðið öryggi og jafnvægi. Það er líka í okkar verkahring.
IV.
Já – kæru félagar. Stéttarfélögin standa sterk. Og Samfylkingu hefur verið treyst til að leiða stjórn landsmála. Sama á reyndar við um marga systurflokka okkar í nágrannalöndunum – þrátt fyrir margumræddan uppgang öfgaflokka.
Þetta er jákvætt. Verkalýðshreyfing og sósíaldemókratísk pólitík eru í raun á þokkalega góðum stað ef svo má segja. En við setjum markið hátt. Markmiðið er að móta samfélagið okkar yfir lengri tíma í ríkisstjórn. Í þágu vinnandi fólks. Og til þess þarf Samfylkingin að verða burðarflokkur í meira en eitt stakt kjörtímabil.
Við vitum að það tekur langan tíma að byggja upp traust. En styttri tíma að tapa því niður. Við höfum tekið markviss skref við að endurheimta traust hjá fólkinu í landinu á síðustu árum – og ég veit að við eigum meira inni ef við höldum áfram á sömu braut. Trúið mér. En það útheimtir sleitlaust strit fyrir málefnunum og að við höldum áfram að vera í virku sambandi við venjulegt fólk – hringinn í kringum landið.
Ég hef eytt talsverðum tíma frá því að ég steig inn á hið pólitíska svið í ferðalög um landið, haldið fundi hér á höfuðborgarsvæðinu og í öllum kjördæmum reglulega. Þetta hef ég gert til að tryggja tengingu við fólkið í landinu, halda mér á jörðinni. Og nýr þingflokkur Samfylkingarinnar hefur sannarlega verið duglegur við þetta nú þegar.
Ef ég ætti að taka það saman í eitt orð – sem ég hef tekið með mér og tamið mér eftir alla þessa hringi um landið síðustu árin, sem gefst auðvitað meiri tími til í stjórnarandstöðu en í forystu ríkisstjórnar – þá er orðið sennilega:
Virðing.
Virðing fyrir ólíku fólki með mismunandi bakgrunn. Virðing fyrir Íslandi og fólkinu sem byggir landið. Og virðing fyrir því að við höfum öll mismunandi hlutverkum að gegna í samfélaginu.
Enn meiri væntumþykja – tenging við veruleika fólks og skilningur á því hvað gerir sterkt samfélag: Og það er svo sannarlega meira en bara sterk fyrirtæki og sterkt opinbert velferðarkerfi sem þarf bara að stilla rétt til af hámenntuðum sérfræðingum í ráðuneytum. Við sjáum nú bara sameinandi mátt verkalýðshreyfingar og stéttarfélaga hér í salnum í dag. Eins mætti nefna menningar og sjálfboðaliðastarf víða, trúfélög, íþróttafélögin, æskulýðsstarfið, félagsstarf eldri borgara og svo mætti lengi telja.
Hugsið ykkur samfélagið sem við eigum hérna saman.
Það er svo margt sem bindur okkur saman sem þjóð og við eigum svo ofboðsleg verðmæti sem við megum til með að standa vörð um og passa upp á.
Við getum verið ósammála fólki um allt mögulegt í stjórnmálum. Og til þess er jú pólitík – að leysa úr álitamálum þar sem fólk greinir á. En ég hef lært að það er fleira sem er mikilvægt í þessu.
Það snýst ekki allt um hvað við gerum – heldur skiptir líka máli hvernig: Hvernig við segjum hlutina. Hvernig við tölum við fólk. Og hvernig við vinnum með öðru fólki.
Virðing fyrir fólki byggir á þeirri trú að öll höfum við okkar ástæður og öll höfum við eitthvað fram að færa – þótt lífið sér hverfult. Öll höfum við réttindi en líka skyldur gagnvart hvert öðru. Þannig er það auðvitað ekki rökrétt afleiðing af slíkum boðskap - að við hlustum á öll sjónarmið og mætum til leiks með kærleik - að samfélagið okkar megi einkennast af einhvers konar markaleysi eða stjórnleysi. Því að röð og regla er ein forsenda þess að virðingar sé gætt manna á milli. En það skiptir máli hvernig það er gert.
Ég trúi því að sérhvert samfélag sé sterkast og virki best þegar það grundvallast á virðingu. Það á við um pólitíkina. Það á við um verkalýðshreyfinguna. Og það á við um þjóðlífið allt.
Andhverfa þess er þegar fólk er afskipt eða útilokað eða þegar sá sterki valtar yfir hinn veika. Þannig er ekki samfélag sem ég vil tilheyra.
Ég trúi á samstöðu, rétt og eins verkalýðshreyfingin. Og ég tel að því séu takmörk sett hvað lítið samfélag eins og okkar gæti þolað af klofningi eða ójöfnuði. Þess vegna vil ég beita mér fyrir því með minni forystu að færa fólkið í landinu nær hvert öðru en ekki fjær. Til dæmis með því að leggja ekki of umfangsmiklar breytingar á landann í einu vetfangi – og með því að keyra ekki á klofningsmálum heldur leitast eftir því að ná árangri á þeim sviðum sem sameina þorra þjóðarinnar. En þetta er og verður alltaf jafnvægislist í flóknum heimi. Og má ekki leiða til þess að við frjósum föst í báða fætur. Verkstola. Þess vegna er líklega best að ganga til verka og prófa sig áfram – en alltaf af virðingu!
Ég legg mig fram um að vanda mig við þetta í nýju starfi sem forsætisráðherra og vil að ríkisstjórnin öll geri slíkt hið sama – og flokkurinn og verkalýðshreyfingin. Ég er vel meðvituð um ábyrgð mína að þessu leyti gagnvart landi og þjóð.
* * *
Þó við tökum stóra slagi í pólitíkinni þessa dagana og gefum ekki tommu eftir – þá vil ég að lokum leggja þetta til: Virðum og elskum náungann. Og forðumst að láta kappið bera virðinguna ofurliði. Ég trúi því að sérhvert samfélag sé sterkast og virki best þegar það grundvallast á virðingu. Það á við um pólitík. Og þjóðlífið allt.
Til hamingju með baráttudag verkalýðsins! Og þakkir til Samfylkingarfélagsins í Reykjavík fyrir að standa að hátíðarhöldunum. Takk fyrir mig og njótið dagsins.