Stöndum þverpólitískt saman gegn þjóðarmorði

Ég stend á fer­tugu og var því um ell­efu ára þegar ég sá Schindler’s List, þvert á til­mæli Kvik­mynda­eft­ir­lits rík­is­ins. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þau áhrif sem þessi mynd skildi eft­ir sig hjá mér, en hún hef­ur mótað mig sem mann­eskju og stjórn­mála­mann all­ar göt­ur síðan.

Ég hef á ýms­um vett­vangi kynnst heil­steyptu fólki frá Ísra­el, auk þess sem menn­ing og arf­leifð Gyðinga hef­ur alltaf átt sér­stak­an stað í mínu hjarta. Við meg­um aldrei horfa fram hjá því að mjög víða um heim hef­ur gyðinga­hat­ur verið land­lægt sam­fé­lags­mein sem Íslend­ing­ar hafa ekki upp­lifað í eig­in sam­fé­lagi í sama mæli og íbú­ar til að mynda á Norður­lönd­um og í Evr­ópu.

Það er ein­mitt þess vegna sem mér finnst hafið yfir all­an vafa að for­dæma fram­göngu Ísra­ela sem her­námsaðila í Palestínu, sem nú tala fyr­ir þjóðflutn­ing­um og nota hung­urs­neyð sem og óhjá­kvæmi­lega út­breiðslu smit­sjúk­dóma sem vopn í hernaðarátök­um, sam­hliða stór­aukn­ingu á land­hernaði á síðustu dög­um. Við vit­um öll hvað þarna geng­ur á. Aðgerðir Ísra­els­stjórn­ar með tálm­un mannúðaraðstoðar eru ekki með nokkru móti rétt­læt­an­leg­ar, hvorki út frá alþjóðalög­um né mann­legu siðferði.

Rík­is­stjórn Kristrún­ar Frosta­dótt­ur hef­ur ásamt Spáni haft frum­kvæði að und­ir­rit­un yf­ir­lýs­ing­ar sjö þjóða um taf­ar­laus­ar aðgerðir í þágu mannúðar á Gasa­svæðinu. Þannig má merkja stuðning við þenn­an málstað frá stjórn­mála­fólki ytra sem áður hef­ur stutt hernaðaraðgerðir Ísra­ela en er nú ger­sam­lega ofboðið, til að mynda úr röðum íhalds­manna á breska þing­inu.

Heyrst hef­ur ákall um að stjórn­mála­sam­bandi verði slitið við Ísra­el. Rík­is­stjórn Kristrún­ar Frosta­dótt­ur hef­ur lagt fram þá kröfu við stjórn­völd í Ísra­el á er­lend­um vett­vangi að vopna­hléi verði komið á að nýju, und­ir eins. Það væri ekki fót­ur fyr­ir slíku sam­tali ef stjórn­mála­sam­bandi yrði skyndi­lega slitið og viðskiptaþving­un­um komið á ein­hliða af hálfu Íslands. Ísland beit­ir sér hvar sem hægt er að beita sér og verður að geta það áfram í gegn­um hið póli­tíska sam­tal. Í þessu sam­bandi skal nefnt að án stjórn­mála­sam­bands myndi það vera Íslandi nær ókleift að koma flótta­fólki til hjálp­ar. Slit á stjórn­mála­sam­bandi yrðu ekki að neinu gagni í bar­áttu fyr­ir friði, og kæmu þvert á móti verst niður á þeim sem við vilj­um styðja, sem eru al­menn­ir borg­ar­ar á Gasa.

Það hef­ur ekki reynst auðvelt að binda enda á ára­tuga­langa deilu í Mið-Aust­ur­lönd­um, og hún mun ekki leys­ast í bráð. Vand­inn er marglaga og flók­inn. Verk­efnið okk­ar er nú hins veg­ar þetta: Hleyp­um mannúðaraðstoð til Gasa og köll­um eft­ir vopna­hléi.

Ég biðla því til þeirra sem hafa haft samúð með málstað Ísra­ela í gegn­um árin og að und­an­förnu, að styðja við þver­póli­tískt og alþjóðlegt sam­tal sem rík­is­stjórn Kristrún­ar Frosta­dótt­ur fer nú fyr­ir.


Greinin birtist í Morgunblaðinu, 20. maí. Höf­und­ur er Dagbjört Hákonardóttir, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.