Stöndum þverpólitískt saman gegn þjóðarmorði

Ég stend á fertugu og var því um ellefu ára þegar ég sá Schindler’s List, þvert á tilmæli Kvikmyndaeftirlits ríkisins. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þau áhrif sem þessi mynd skildi eftir sig hjá mér, en hún hefur mótað mig sem manneskju og stjórnmálamann allar götur síðan.
Ég hef á ýmsum vettvangi kynnst heilsteyptu fólki frá Ísrael, auk þess sem menning og arfleifð Gyðinga hefur alltaf átt sérstakan stað í mínu hjarta. Við megum aldrei horfa fram hjá því að mjög víða um heim hefur gyðingahatur verið landlægt samfélagsmein sem Íslendingar hafa ekki upplifað í eigin samfélagi í sama mæli og íbúar til að mynda á Norðurlöndum og í Evrópu.
Það er einmitt þess vegna sem mér finnst hafið yfir allan vafa að fordæma framgöngu Ísraela sem hernámsaðila í Palestínu, sem nú tala fyrir þjóðflutningum og nota hungursneyð sem og óhjákvæmilega útbreiðslu smitsjúkdóma sem vopn í hernaðarátökum, samhliða stóraukningu á landhernaði á síðustu dögum. Við vitum öll hvað þarna gengur á. Aðgerðir Ísraelsstjórnar með tálmun mannúðaraðstoðar eru ekki með nokkru móti réttlætanlegar, hvorki út frá alþjóðalögum né mannlegu siðferði.
Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur ásamt Spáni haft frumkvæði að undirritun yfirlýsingar sjö þjóða um tafarlausar aðgerðir í þágu mannúðar á Gasasvæðinu. Þannig má merkja stuðning við þennan málstað frá stjórnmálafólki ytra sem áður hefur stutt hernaðaraðgerðir Ísraela en er nú gersamlega ofboðið, til að mynda úr röðum íhaldsmanna á breska þinginu.
Heyrst hefur ákall um að stjórnmálasambandi verði slitið við Ísrael. Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur lagt fram þá kröfu við stjórnvöld í Ísrael á erlendum vettvangi að vopnahléi verði komið á að nýju, undir eins. Það væri ekki fótur fyrir slíku samtali ef stjórnmálasambandi yrði skyndilega slitið og viðskiptaþvingunum komið á einhliða af hálfu Íslands. Ísland beitir sér hvar sem hægt er að beita sér og verður að geta það áfram í gegnum hið pólitíska samtal. Í þessu sambandi skal nefnt að án stjórnmálasambands myndi það vera Íslandi nær ókleift að koma flóttafólki til hjálpar. Slit á stjórnmálasambandi yrðu ekki að neinu gagni í baráttu fyrir friði, og kæmu þvert á móti verst niður á þeim sem við viljum styðja, sem eru almennir borgarar á Gasa.
Það hefur ekki reynst auðvelt að binda enda á áratugalanga deilu í Mið-Austurlöndum, og hún mun ekki leysast í bráð. Vandinn er marglaga og flókinn. Verkefnið okkar er nú hins vegar þetta: Hleypum mannúðaraðstoð til Gasa og köllum eftir vopnahléi.
Ég biðla því til þeirra sem hafa haft samúð með málstað Ísraela í gegnum árin og að undanförnu, að styðja við þverpólitískt og alþjóðlegt samtal sem ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur fer nú fyrir.
Greinin birtist í Morgunblaðinu, 20. maí. Höfundur er Dagbjört Hákonardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.