Grindavík og vegabætur líða fyrir málþóf

Dagur

Stjórnarandstaðan hefur undanfarið lagst í grímulaust málþóf vegna leiðréttinga á veiðigjöldum. Það er í þágu fárra, á kostnað margra. Lengi hefur verið rætt um að sanngjarnt sé að þjóðin fái þriðjung auðlindarentunnar á móti útgerðinni.

Stjórnarandstaðan hefur undanfarið lagst í grímulaust málþóf vegna leiðréttinga á veiðigjöldum. Það er í þágu fárra, á kostnað margra. Lengi hefur verið rætt um að sanngjarnt sé að þjóðin fái þriðjung auðlindarentunnar á móti útgerðinni. Það finnst mér ekki hár hlutur. Til að bíta höfuðið af skömminni hafa veiðigjöldin aðeins numið 16-18% af auðlindarentunni sl. 12 ár. Ekki þarf að hafa mín orð fyrir því. Þetta kemur fram í Auðlindinni okkar, sameiginlegu riti fyrri ríkisstjórnar og sjávarútvegsins sem kom út í fyrra. Tillaga um löngu tímabæra leiðréttingu veiðigjalda liggur því fyrir Alþingi og á að afgreiða tafarlaust.

Afleiðingarnar af þessari misskiptingu á auðlindarentunni birtast meðal annars í því að auður hefur safnast upp hratt í sjávarútvegi. Í lok árs 2023 voru eignir sjávarútvegsfyrirtækja umfram skuldir komnar í 449 milljarða samkvæmt upplýsingum sem sjávarútvegurinn sjálfur lét Deloitte taka saman. Þetta eigið fé hafði vaxið um 152 milljarða á aðeins tveimur árum. Milljarðatugir hafa verið teknir í arð út úr fyrirtækjunum og meðal annars verið fjárfest í öðrum og óskyldum rekstri. Hagfræðistofnun HÍ vinnur nú að skýrslu um þennan anga málsins, að beiðni minni og fleiri þingmanna. Á sama tíma hafa samfélagslegir innviðir verið látnir drabbast niður.

Tvær fréttir frá byrjun vikunnar draga fram óviðunandi afleiðingar af málþófi stjórnarandstöðunnar. Grindvíkingar bíða stuðningsúrræða fyrir fólk og fyrirtæki sem samþykkja þarf á Alþingi. Í máli Fannars Jónassonar bæjarstjóra Grindavíkur á mbl.is á mánudaginn segir hann málin föst í þinginu vegna veiðigjaldamálsins. Biðin skapi óvissu. Það er því miður hárrétt. Breytingar á Jöfnunarsjóði bíða einnig. Þar fengi Grindavíkurbær rúmar hundrað milljónir vegna breytingartillögu meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar. Þær tillögur eru einnig fastar.

Vegagerðin greindi frá því á RÚV á mánudaginn að tafir á boðuðum fjárveitingum frá Alþingi hefðu haft mikil og neikvæð áhrif á framgang viðhaldsverkefna á landsbyggðinni. Fresta þurfi stærri styrkingarverkefnum á vegakerfinu því langt sé liðið á sumar og stærri útboð þar með útilokuð. Þetta er ömurlegt.

Það er ekki aðeins Vegagerðin sem bíður samþykktar fjáraukalaga þar sem þrír milljarðar eiga að fara aukalega í viðhaldsverkefni um landið. Þar eru einnig fjárveitingar til að tryggja að meðferðarúrræðum vegna fíknivanda verði ekki lokað í sumar og fjárveitingar til að fjölga lögreglumönnum um fimmtíu. Fjöldi annarra mikilvægra mála líður fyrir málþóf.

Veiðigjaldamálið er fyrsta stóra prófmál nýrrar ríkisstjórnar. Enginn bilbugur á stjórnarmeirihlutanum að standa með almenningi og greiða atkvæði með hærri veiðigjöldum. Og nú er mál að linni. Burt með málþófið.

Höfundur er alþingismaður Reykvíkinga. Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. júlí 2025.