Mergur veiðigjaldamálsins

Eydís Ásbjörnsdóttir þingmaður skrifar um veiðigjaldamálið. Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. júlí 2025.
Leiðrétting veiðigjalds er sanngirnis- og réttlætismál. Með henni er verið að tryggja að gjaldið skili tekjum í ríkissjóð umfram þann kostnað sem ríkissjóður leggur út vegna þjónustu við sjávarútveg og að þjóðin í heild fái beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar.
Tekjurnar munu nýtast í uppbyggingu í þágu þjóðarinnar, til dæmis löngu tímabærar samgöngubætur á landsbyggðinni. Með leiðréttingu veiðigjalds er ekki verið að tefla sjávarútvegi í neina hættu. Ef vel gengur og hagnaður útgerðarinnar er mikill hækkar veiðigjaldið. Ef illa árar og hagnaður dregst saman, þá lækkar það.
Íslenskum sjávarútvegi vegnar vel. Það hefur verið góður gangur árum saman og eigið fé innan greinarinnar nam yfir 500 milljörðum króna í lok árs 2023, þrátt fyrir að á hverju ári skili rekstur fyrirtækjanna eigendum þeirra tugmilljörðum króna í arð.
Rekstrarhagnaðarhlutfall í sjávarútvegi er mun hærra en gengur og gerist í öðrum atvinnugreinum á Íslandi og verður það áfram eftir þessar breytingar.
Ef veiðigjaldið hefði verið innheimt með sama hætti árið 2023 og fyrirhugaðar breytingar gera ráð fyrir hefði samanlagður hagnaður sjávarútvegsins lækkað úr 67,5 milljörðum króna í um 60 milljarða. Það þýðir að hagnaður greinarinnar hefði dregist saman um rúm 11 prósent árið 2023. Það er allt og sumt.
Á þessu litla dæmi sést að það er enginn vafi á að það er umtalsvert svigrúm til staðar innan sjávarútvegs að greiða meira til eiganda auðlindarinnar fyrir nýtingu hennar.
Ein helsta gagnrýnin á frumvarpið var sú að innan sjávarútvegsins sé þetta svigrúm mismikið. Smærri fyrirtæki geti ekki tekið á sig jafnmikla hækkun gjalda og þau stærri. Við þessum áhyggjum hefur verið brugðist með umtalsverðri hækkun frítekjumarks, sem tryggir að áhrif breytinganna leggjast helst á stærstu og breiðustu bökin í greininni.
Vert er að árétta að með leiðréttingunni er ekki verið að leggja til með neinum hætti breytingar á rekstri fiskvinnslufyrirtækja eða segja útgerðum sem eiga sínar vinnslur sjálfar á hvað þær eigi að selja sjálfum sér fisk. Það er hins vegar verið að færa í lög að veiðigjaldið sem útgerðirnar verða að greiða taki mið af raunverulegu markaðsvirði aflans. Það er sanngjarnt og það er réttlátt.
Rekstur samfélagsins er samvinnuverkefni. Ég var kjörin á Alþingi til að vinna fyrir fólkið og fyrirtækin í landinu og til að gæta almannahagsmuna. Það hefur verið skýrt ákall frá þjóðinni um að sjávarútvegur greiði réttlátt gjald fyrir aðgang að auðlind í eigu þjóðar. Við því er verið að bregðast.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi.