Mergur veiðigjaldamálsins

Eydís Ásbjörnsdóttir þingmaður skrifar um veiðigjaldamálið. Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. júlí 2025.

Leiðrétt­ing veiðigjalds er sann­girn­is- og rétt­læt­is­mál. Með henni er verið að tryggja að gjaldið skili tekj­um í rík­is­sjóð um­fram þann kostnað sem rík­is­sjóður legg­ur út vegna þjón­ustu við sjáv­ar­út­veg og að þjóðin í heild fái beina og sýni­lega hlut­deild í af­komu við veiðar á nytja­stofn­um sjáv­ar.

Tekj­urn­ar munu nýt­ast í upp­bygg­ingu í þágu þjóðar­inn­ar, til dæm­is löngu tíma­bær­ar sam­göngu­bæt­ur á lands­byggðinni. Með leiðrétt­ingu veiðigjalds er ekki verið að tefla sjáv­ar­út­vegi í neina hættu. Ef vel geng­ur og hagnaður út­gerðar­inn­ar er mik­ill hækk­ar veiðigjaldið. Ef illa árar og hagnaður dregst sam­an, þá lækk­ar það.

Íslensk­um sjáv­ar­út­vegi vegn­ar vel. Það hef­ur verið góður gang­ur árum sam­an og eigið fé inn­an grein­ar­inn­ar nam yfir 500 millj­örðum króna í lok árs 2023, þrátt fyr­ir að á hverju ári skili rekst­ur fyr­ir­tækj­anna eig­end­um þeirra tug­millj­örðum króna í arð.

Rekstr­ar­hagnaðar­hlut­fall í sjáv­ar­út­vegi er mun hærra en geng­ur og ger­ist í öðrum at­vinnu­grein­um á Íslandi og verður það áfram eft­ir þess­ar breyt­ing­ar.

Ef veiðigjaldið hefði verið inn­heimt með sama hætti árið 2023 og fyr­ir­hugaðar breyt­ing­ar gera ráð fyr­ir hefði sam­an­lagður hagnaður sjáv­ar­út­vegs­ins lækkað úr 67,5 millj­örðum króna í um 60 millj­arða. Það þýðir að hagnaður grein­ar­inn­ar hefði dreg­ist sam­an um rúm 11 pró­sent árið 2023. Það er allt og sumt.

Á þessu litla dæmi sést að það er eng­inn vafi á að það er um­tals­vert svig­rúm til staðar inn­an sjáv­ar­út­vegs að greiða meira til eig­anda auðlind­ar­inn­ar fyr­ir nýt­ingu henn­ar.

Ein helsta gagn­rýn­in á frum­varpið var sú að inn­an sjáv­ar­út­vegs­ins sé þetta svig­rúm mis­mikið. Smærri fyr­ir­tæki geti ekki tekið á sig jafn­mikla hækk­un gjalda og þau stærri. Við þess­um áhyggj­um hef­ur verið brugðist með um­tals­verðri hækk­un frí­tekju­marks, sem trygg­ir að áhrif breyt­ing­anna leggj­ast helst á stærstu og breiðustu bök­in í grein­inni.

Vert er að árétta að með leiðrétt­ing­unni er ekki verið að leggja til með nein­um hætti breyt­ing­ar á rekstri fisk­vinnslu­fyr­ir­tækja eða segja út­gerðum sem eiga sín­ar vinnsl­ur sjálf­ar á hvað þær eigi að selja sjálf­um sér fisk. Það er hins veg­ar verið að færa í lög að veiðigjaldið sem út­gerðirn­ar verða að greiða taki mið af raun­veru­legu markaðsvirði afl­ans. Það er sann­gjarnt og það er rétt­látt.

Rekst­ur sam­fé­lags­ins er sam­vinnu­verk­efni. Ég var kjör­in á Alþingi til að vinna fyr­ir fólkið og fyr­ir­tæk­in í land­inu og til að gæta al­manna­hags­muna. Það hef­ur verið skýrt ákall frá þjóðinni um að sjáv­ar­út­veg­ur greiði rétt­látt gjald fyr­ir aðgang að auðlind í eigu þjóðar. Við því er verið að bregðast.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi.