Fundarsköp flokksstjórnar
1.0 Upphaf flokksstjórnarfundar
2.0 Stjórn flokksstjórnarfundar
3.0 Nefndir
4.0 Umræður
5.0 Tillögur og atkvæðagreiðsla
6.0 Afgreiðsla og breyting fundarskapa
1.0 Upphaf flokksstjórnarfundar
1.1 Formaður Samfylkingarinnar eða varaformaður setur flokksstjórnarfund hafi stjórn ekki ákveðið annað.
1.2 Formaður framkvæmdastjórnar stjórnar fundi og varaformaður framkvæmdastjórnar í forföllum hans. Heimilt er að tilnefna annan fundarstjóra ef þörf þykir.
1.3 Ritari flokksins ritar fundargerð flokksstjórnarfundar og ritari framkvæmdastjórnar í forföllum hans.
1.4 Mál sem ekki er tilgreint í útsendri dagskrá verður ekki tekið til afgreiðslu á viðkomandi fundi án samþykkis 2/3 hluta atkvæðisbærra flokksstjórnarfulltrúa.
1.5 Fundir flokksstjórnar eru opnir öllu félagsfólki Samfylkingarinnar sem njóta skal málfrelsis, tillöguréttar og kjörgengis en ekki atkvæðisréttar sbr. þó grein 1.6. Framkvæmdastjórn getur kallað til flokksstjórnarfundar, ef hún telur ástæðu til, þar sem einungis til þess bærir fulltrúar hafa seturétt. Skrá um atkvæðisbærra flokksstjórnarfulltrúa skal liggja frammi hjá fundarstjóra.
1.6 Flokksstjórn er heimilt að funda fyrir luktum dyrum, samþykki meirihluti atkvæðisbærra og viðstaddra flokksstjórnarfulltrúa þá ráðstöfun í atkvæðagreiðslu.
1.7 Heimilt er að hljóðrita allt talað orð á flokksstjórnarfundi. Heimilt er að birta upptökur af ræðum á heimasíðu flokksins.
1.8 Framkvæmdastjórn í samstarfi við starfsfólkundirbýr flokksstjórnarfundi.
2.0 Stjórn flokksstjórnarfundar
2.1 Fundarstjóri stjórnar fundi og sér um að allt fari fram með góðri reglu, tekur við öllum erindum til flokksstjórnarfundarins og skýrir frá þeim og dreifir eftir því sem við á.
2.2 Vilji fundarstjóri taka þátt í umræðum frekar en fundarstjórastaða krefur þá víkur hann fundarstjórasæti og stýrir varaformaður framkvæmdastjórnar, eða annar sá sem valinn hefur verið sem fundarstjóri, fundi á meðan.
2.3 Hlutverk ritara er að halda gerðabók undir umsjón fundarstjóra og skal í henni getið allra mála, er rædd eru á fundum og úrslita þeirra. Sömuleiðis sér hann með fundarstjóra um að ályktanir og breytingartillögur sem fram koma á fundinum séu skrásettar. Þá skulu fundarritari og fundarstjóri tryggja að upprunalegur texti hverrar ályktunar sem lögð er fyrir fundinn sé skráett.
2.4 Fundarstjóri skipar fólk til að annast gerð og dreifingu atkvæðaseðla. Fundarstjóri skipar teljara úr hópi félagsfólks á fundinum og/eða starfsmanna svo sem þykir þurfa á hverjum tíma.
3.0 Nefndir
3.1 Á fyrsta fundi flokksstjórnar eftir landsfund leggur framkvæmdastjórn fram tillögu um forystu og fyrirkomulag málefnanefnda.
3.2 Flokksstjórnarfundurinn getur stofnað nefndir, aðrar en málefnanefndir, á hvaða stigi máls sem er, gefist tilefni til. Sé það gert áður en umræðum er lokið, skal umræðum frestað.
3.3 Nefndir skili skriflegu áliti sínu til flokksstjórnarfundarins og skal því dreift til flokksstjórnarfundarfulltrúa.
Sé ekki eining um niðurstöðu nefndar geta þau sem að séráliti standa skipað sér frummælanda sem hefur sama rétt og frummælandi meirihluta við umræður á fundum, enda sé séráliti skilað skriflega og það stutt skriflega af ekki færri en 5 félagsmönnum á fundinum.
4.0. Umræður
4.1 Hver félagsmaður sem taka vill til máls skal óska heimildar fundarstjóra samkvæmt þeim reglum sem fundarstjóri ákveður. Ef tveir eða fleiri kveða sér hljóðs samtímis ákveður fundarstjóri í hvaða röð þeir tala.
4.2 Að jafnaði skal mæla úr ræðustól og jafnan víkja ræðu sinni til fundarstjóra og fundarins.
4.3 Formaður má taka til máls eins oft í umræðum og hann óskar. Frummælendur meiri- eða minnihluta nefndar mega taka til máls tvisvar sinnum um málefni það er þeir flytja, að hámarki 5 mínútur í senn. Aðrir félagsmenn mega ekki tala oftar en tvisvar við sömu umræðu um sama mál og í 5 mínútur í senn. Þó er jafnan heimilt að gera stutta athugasemd um atkvæðagreiðslu, fundarstjórn eða fundarsköp. Tillöguflytjanda er heimilt að taka til máls í lok umræðu um viðkomandi tillögu, þó ekki lengur en í 3 mínútur. Regla þessi gildir um einn einstakling úr hópi tillöguflytjenda séu tillöguflytjendur fleiri en einn.
4.4 Ef fundarstjóri telur umræðu dragast úr hófi fram getur hann takmarkað ræðutíma.. Þá getur fundarstjóri hvenær sem er lagt til að umræðum skuli lokið á ákveðnum tíma. Flokksstjórnarfundurinn afgreiðir tillögur fundarstjóra í þessu efni umræðulaust. Félagsmenn geta borið fram slíka tillögu enda sé hún skriflega studd með undirritun ekki færri en 5 félagsmanna. Skal tillagan afgreidd umræðulaust.
4.5 Skylt er fundarmönnum að lúta valdi fundarstjóra í hvívetna er að því lýtur að gætt sé góðrar reglu. Láti fundarmenn sem vikið hafa frá góðri reglu eigi segjast skal fundarstjóri víta þá og nefna til ástæður. Ef fundarmaður er víttur tvisvar á sama fundi getur fundarstjóri lagt til við fundinn að hann verði sviptur málfrelsi það sem eftir lifir fundar. Skal sú tillaga afgreidd umræðulaust.
5.0 Tillögur og atkvæðagreiðsla
5.1 Engar aðaltillögur er hægt að bera upp til atkvæða sem ályktun fundarins nema þær hafi borist framkvæmdastjórn a.m.k. tveimur vikum fyrir boðaðan fund og að þeim hafi verið dreift skriflega til fundarmanna. Þegar flokksstjórnarfundur er boðaður með sjö daga fyrirvara skal fresturinn vera a.m.k. þrír sólarhringar fyrir boðaðan fund. Sé fundur boðaður með 24 klst. fyrirvara skal fresturinn vera a.m.k. sex klst. fyrir boðaðan fund. Þetta á ekki við um stjórn og/eða framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar sem er heimilt að leggja fram mál/ályktanir á fundinum í samræmi við grein 7.08 í lögum flokksins.
5.2 Í öllum málum samkvæmt kafla þessum ræður einfaldur meirihluti atkvæða flokksstjórnarfundarfulltrúa nema lög Samfylkingarinnar eða fundarsköp þessi mæli fyrir á annan veg.
5.3 Undir liðnum önnur mál er heimilt að taka upp hvert það mál sem félagsmenn óska eftir umræðu um, önnur en þau sem þegar hafa hlotið afgreiðslu fundarins. Ekki er þeim þó undir þessum lið heimilt að bera fram tillögur til ályktunar um annað en að fela stjórn/framkvæmdastjórn og/eða formanni Samfylkingarinnar að vinna að tilteknum verkefnum eða málefnum milli flokksstjórnarfunda.
5.4 Allar tillögur, skv. grein 5.6, sem bornar eru fram af öðrum en stjórn eða framkvæmdastjórn skulu vera skriflegar, undirritaðar af tillöguflytjendum og skriflega studdar af ekki færri en 5 félagsmönnum að tillöguflytjendum meðtöldum. Ekki er heimilt að taka tillögu til umræðu fyrr en fundarstjóri hefur lýst henni.
5.5 Fari svo að tillaga sé í heild sinni dregin til baka, getur hver sem er úr hópi félagsfólks gert slíka tillögu að sinni í heyranda hljóði á sama fundi og undirritað hana síðan til staðfestingar, enda sé aflað stuðnings úr hópi félagsfólks við hana að nýju sbr. grein 5.4.
5.6 Efnislegar tillögur eru þessar:
1) Aðaltillaga.
2) Breytingartillaga.
5.7 Félagsfólki er heimilt að bera upp breytingartillögur á aðaltillögur.
5.7 Við atkvæðagreiðslu skal fyrst bera upp breytingartillögu við aðaltillögu. Síðan skal bera upp aðaltillögu með áorðnum breytingum hafi breytingartillögur verið samþykktar. Að öðrum kosti er aðaltillaga borin upp í upphaflegri mynd.
5.8 Þær breytingartillögur sem lengra ganga skal bera upp á undan þeim sem ganga skemur. Breytingartillögu sem kollvarpar eða breytir aðaltilgangi annarrar tillögu eða sem varðar önnur efnisatriði en sú tillaga sem lagðar eru til breytingar á, má fundarstjóri ekki taka til greina. Þessu áliti sínu skal fundarstjóri lýsa fyrir fundi.
Til að breytingartillaga nái fram að ganga þarf hún að hljóta sama fjölda atkvæða eins og aðaltillagan þarf til þess að teljast samþykkt.
5.9 Forgangstillögur eru í þessari röð:
1) Tillaga um að ganga þegar til atkvæða
2) Tillaga um að vísa máli frá.
3) Tillaga um að taka fyrir næsta mál á dagskrá.
4) Tillaga um að fresta máli.
5) Tillaga um að fundað skuli fyrir luktum dyrum.
6) Tillaga um að vísa máli til annars valds.
Tillögur undir 1. tl. má ekki ræða. Um aðra forgangstillögur skv. 2. - 6. tl. má gera stuttar athugasemdir.
Forgangstillögur skulu vera skriflegar, undirritaðar af tillöguflytjendum og skriflega studdar af ekki færri en 5 félagsmönnum að tillöguflytjendum meðtöldum.
5.10 Fundarstjóra er heimilt að bera tillögu upp í tveimur eða fleiri liðum en þó því aðeins að hver liður sé sjálfstæður og að skiptingin geri tillöguna ekki óljósa.
5.11 Tillögu, sem hefur verið felld, má ekki bera upp á sama fundi.
5.12 Atkvæðagreiðsla um tillögur fer fram með handauppréttingu.
Leynileg atkvæðagreiðsla fer fram ef þess er óskað skriflega og tillagan skriflega studd af minnst 5 flokksstjórnarfundarfulltrúum.
Atkvæðagreiðslur við nafnakall leyfast ekki.
5.13 Komi fram breytingartillaga um ráðherraval á flokksstjórnarfundi skal gengið til leynilegrar atkvæðagreiðslu.
5.14 Atkvæðagreiðslan telst lögmæt með þeim flokksstjórnarfundarfulltrúum sem mættir eru til fundar.
5.15 Fundarstjóri skipar teljara til talningar atkvæða úr hópi félagsfólks og/eða starfsmanna, svo marga sem henta þykir.
Jafnan skulu teljarar úr hópi fundarmanna, allt eftir því sem við á, vera skipaðir úr hópum andstæðra fylkinga á fundum.
6.0. Afgreiðsla og breyting fundarskapa
6.1 Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða atkvæðisbærra flokksstjórnarfulltrúa ræður um afgreiðslu fundarskapa.
6.2 Komi fram tillögur um fundarstjórn eða meðferð mála sem þessi fundarsköp ná ekki til, þá ræður einfaldur meirihluti enda sé fundur löglegur.
Samþykkt af flokksstjórn Samfylkingarinnar 22. nóvember 2008, með breytingum 10. mars 2012 og með breytingum 20. apríl 2024.