Hvernig læknum við heilbrigðiskerfið - opinn fundur í Iðnó

Samfylkingin bauð til fundar um heilbrigðismál í IÐNÓ á miðvikudagskvöldið 29. febrúar. Fundurinn var vel sóttur enda liggur mikið við þar sem við stöndum frammi fyrir hættuástandi á bráðamóttöku Landspítala og heilbrigðisstofnanir eru vanfjármagnaðar um land allt.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar Alþingis stýrði fundinum og opnaði hann með því að segja aðeins frá hennar vinnu í velferðarnefnd síðustu vikur, en nefndin hefur varið miklum tíma í það frá áramótum að kynna sér stöðuna í heilbrigðiskerfinu til þess að fá mynd á það hvernig hægt er að bregðast við þeirri stöðu sem hefur myndast.

Henný Hinz hagfræðingur ASÍ fór yfir fjármögnun heilbrigðiskerfisins í tölum og gröfum sem gaf mjög góða mynd af þróuninni í gegnum árin og sýnir fram á það að það er ekki um neina sérstaka stórsókn í heilbrigðismálum að ræða. Hún sýndi einnig fram á það hvernig við höfum dregist aftur úr nágrannaþjóðum okkar þegar kemur að útgjöldum til heilbrigðisþjónustu. 

Elín Tryggvadóttir, hjúkrunarfræðingur á bráðadeild Landsspítalans lýsti ástandinu á spítalanum á afar lifandi hátt. Lýsingarnar voru ekki fallegar. Hún gaf mynd af bráðadeild þar sem þrengslin eru þvílík og ástandið óboðlegt, hvort sem er fyrir sjúklinga, heilbrigðisstarfsfólk eða aðstandendur. Ekki má mikið út af bregða svo að illa fari. Margt spilar inn í þessar aðstæður en það er ekki síst skortur á hjúkrunarfræðingum sem er stóri vandinn. Fimmti hver hjúkrunarfræðingur er hættur að starfa við hjúkrun fimm árum eftir útskrift. Það segir mjög margt og greinilegt að þar er pottur brotinn. Hjúkrunarfræðingar hafa setið eftir í kjarasamningum í mörg ár og kjarasamningar hafa verið lausir nú í 10 mánuði. Hjúkrun er erfitt starf sem á að vera launað í samræmi við þá menntun sem hjúkrunarfræðingar hafa og það álag sem þeir vinna undir. 

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar fór yfir nokkrar leiðir sem hægt væri að fara til þess að bæta ástandið en hann telur að endurskipulagning á öllu kerfinu sé nauðsynleg. Við eigum að nýta heilsugæslurnar okkar betur og endurhugsa hvernig við nýtum sérfræðinga við langtímameðferðir.

Góðar umræður sköpuðust á fundinum og það er greinilega mikill hugur og mikill metnaður í okkar fólki að hér verði byggð upp öflug heilbrigðisþjónusta fyrir alla óháð efnahag og búsetu.