Jónína Björg Magnúsdóttir

2. sæti Norðvesturkjördæmi

Syngjandi keiluþjálfari sem er reiðubúin að bretta upp ermarnar

Jónína Björg hefur víðtæka reynslu úr íslensku atvinnulífi; hefur mikið starfað með fötluðum auk þess að starfa sem stuðningsfulltrúi og kennari, keiluþjálfari, vitavörður, matráður, flokkstjóri og aðstoðað í sauðburði í mörg á að Hömrum í Haukadal. Svo hefur hún setið á þingi í eina viku og hræðist starfið alls ekki. Jónína fer syngjandi í gegnum lífið og er yngst tíu systkina. Jónína er í öðru sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.

Jónína Björg öðlaðist landsfrægð á einni nóttu fyrir kjarnyrtan lagatexta við lagið Mamma þarf að djamma í tilefni af því að hún og samstarfsfélagar hennar í fyrstihúsi HB Granda á Akranesi fengu íspinna að launum fyrir metafköst fyrirtækisins sem skiluðu hluthöfum stórar summur. Nú er hún reiðubúin til að berjast fyrir betra samfélagi á Alþingi Íslendinga. 

"Ég hef vilja, kjark og þor til að takast á við þau verkefni sem bíða komandi kjörtímabils," segir Jónina sem er fædd og uppalin á Akranesi. Hjartað í Jónínu brennur fyrir fólkið í landinu, reynslu þess og lífi hvort sem er í sorg og í gleði.  ,,Ég fæst mikið við söng. Í gegnum sönginn hef ég fengið að taka þátt í gleðilegustu og erfiðustu stundum í lífi fólks,” segir Jónína sem er alin upp í mikilli tónlistarfjölskyldu. ,,Pabbi söng í kórum og spilaði á orgel, nikku og melódiku og sög og kenndi okkur systkinum að það er margt tónlist þó ekki komi hún frá hefðbundnum hljóðfærum.” Hún segir mömmu sína ekki hafa verið sérlega lagvísa, en að hún hafi elskað að dansa og dansað við börnin í eldhúsinu undir nikkuspili húsbóndans. ,,Ég er ekki sérlega góður dansari en lét þó syni mína ekki fá vasapening nema þeir væru búnir að dansa nokkra hringi af „kassa-vals“ við mig” viðurkennir Jónína, sem á þrjú börn með Guðmundi Sigurðssyni, trésmiði, eldsmiði, hleðslumanni, víkingi, keiluþjálfara og fleiru. 

Getur ekki þagað yfir óréttlæti

Jónína hefur komið víða við og starfað við allt frá keiluþjálfun til vitavörslu. ,,Það er ekki fyrir neðan virðingu mína að vinna nokkurt starf, ekkert starf er mikilvægara en annað,” segir Jónína sem telur að réttlætiskenndina og samkenndina með þeim sem minna mega sín hafi hún fengið frá æskuheimili sínu. ,,Ég er þeim ósköpum búin að geta illa þagað þegar óréttlæti á sér stað og tek þá til máls,” segir Jónína, “og er þá nokkuð sama við hvern ég er að etja eða fyrir hvern ég er að opna munninn.“

Vill hlusta á aðra

Mest hefur Jónína þó unnið umönnunarstörf með fötluðum og sem stuðningsfulltrúi í grunnskólum Akraneskaupstaðar. ,,Ég tel það heldur ekki fyrir neðan virðingu mína að hlusta á alla óháð aldri eða uppruna og læra af þeirra orðum og hugsun,” segir Jónína og bætir við að allir hafa eitthvað til málanna að leggja. ,,Við öðlumst ekki virðingu náungans nema að veita öðrum virðingu. Ég er ekki merkilegri en nokkur annar og enginn eitthvað merkilegri en ég.”

Ég vil að við komum jafnt fram við alla þegna þessa lands sama hvort að þeir séu ungir eða gamlir, íslenskir að uppruna eða erlendir, ríkir eða fátækir.

Jónína Björg Magnúsdóttir 2. sæti í Norðvesturkjördæmi

Jónína hefur trú á nýjum hugmyndum í atvinnumálum og frumkvöðlastarfsemi. Hún telur að tryggja þurfi jafna möguleika fólks til að geta komið sínum hugmyndum á fót. ,,Þannig viðhöldum við fjölbreyttu og skapandi atvinnulífi,” segir Jónína sem hefur trú á því að heimsfaraldurinn hafi fært okkur reynslu í fjarfundahaldi og fjarnámi. ,,Það eykur möguleika fólks á að búa á landsbyggðinni en geta samt unnið og numið í heimabyggð. Tryggjum stöðuga nettenginu ekki stopula.”

Dauðinn fer ekki í manngreinarálit eftir stjórnmálaskoðunum

Jónína vill stuðla að áframhaldandi uppbyggingu vega um landið til að tryggja öryggi fólks og áframhaldandi búsetumöguleika á afskekktum svæðum. ,,Ég vil að allir eigi möguleika á góðri heilbrigðisþjónustu því það er 100% öruggt að sjúkdómar og veikindi og dauði fer ekki í manngreinaálit þegar kemur að stjórnmálaskoðunum.”

Vill passa upp á innflutta Íslendinga

Þá vill Jónína bæ kjör þeirra sem að minnstu launin hafa og finnst skipta máli að sinna erlenda verkafólkinu okkar, passa upp á réttindi þeirra og bæta aðbúnað. ,,Íslenskukennsla og móðurmálskennsla fyrir börn af erlendum uppruna er mikið áhugamál hjá mér og mun ég beita mér fyrir því,” bætir hún við.

Úr fjölskyldualbúminu...

 • Pakkað saman af barnabörnunum
  Ég á tíu barnabörn og get ekki hugsað mér lífið á þeirra. Þegar ég á auðan tíma, þá ver ég honum með þeim. Það er ekki vetur nema ég renni mér á snjóþotu og búi til snjókarl.
 • Laðast að textum með innihaldi
  Ég hef sungið frá því að ég man eftir mér, enda yngst af stórum og tónelskum hópi. Á unglingsárunum byrjaði ég að spila gítar og hlusta á Bergþóru Árna og Joan Baez og þá urðu textarnir mínir pólitískir.
 • Fékk sér krummaflúr um daginn
  Mig hefur langað í tattú í mörg ár og daginn eftir að ég var búin að taka ákvörðunina um að láta flúra hrafn á upphandlegginn, settist hrafn á vegg hjá vinnunni og krunkaði á mig, eins og til staðfestingar. Hrafninn hefur verið minn fugl síðan ég var lítil.

Nokkrar laufléttar...

 • Ég get sungið eins og sög...

 • Franskbrauð, piparrótarsósa, roast beef og radísur. Þetta verður að vera sterkt og rautt.

 • Að vera sáttur við sjálfan sig. Annars getum við ekki gefið af okkur til hinna sem þurfa á því að halda. Bara eins og þegar þú situr í flugvélinni - þá þarftu að setja súrefnið á þig fyrst. Ég kem ekki að miklum notum súrefnislaus, hvort sem það er andlega eða líkamlega.

Æviágrip

Uppvöxtur

Jónína er fædd og uppalin á Akranesi, en að móðurætt hennar er af Vestfjörðum og föðurættin af Austfjörðum. Faðir Jónínu hét Magnús Sigurjón Guðmundsson og var frá Hrauni á Reyðarfirði en móðir hennarhét Sigurbjörg Oddsdóttir og var fædd á Flateyri og ólst þar upp fyrstu árin en síðan á Álfadal á Ingjaldssandi. Jónína er yngst tíu systkina en níu komust á legg. 

Fjölskylduhagir

Sambýlingur Jónínu til 39 ára er Guðmundur Sigurðsson hljóðfæra-, húsa- og eldsmiður. Hans ættir eru að mestu frá Suðurlandsundirlendinu en hann ólst á sumrin upp á Dröngum á sumrin. Þau eiga þrjú börn, tvíburana Sigurð og Magnús fædda 1986 og dótturina Steinunni Ingu, sem fædd er í Svíþjóð 1993. Barnabörnin eru tíu.

Námsferill

Vorið 1988 tók Jónína stúdentinn frá Fjölbrautaskóla Akraness og hélt svo til Svíþjóðar með fjölskylduna. Fyrst áttum þau heima í Stokkhólmi 1½ ár þar sem að Jónína nam málvísindi og ensku en svo fluttist fjölskyldan til Umeå í norður Svíþjóð þar sem þau áttu heima í 6½ ár.  

Starfsferill

Jónína hefur komið víða við. Eftir heimkomu frá Svíþjóð hóf hún störf hjá frystihúsi HB Granda á Akranesi og starfaði þar þangað til bolfiskvinnslan var lögð niður haustið 2017. Síðan þá hefur Jónína starfað sem stuðningsfulltrúi í Brekkubæjarskóla á Akranesi, kynnst atvinnuleysi, þjálfað keilu, sungið í athöfnum og fleira. 

Stjórnmálaferill

Afskipti Jónínu af stjórnmálum hófust í kringum tvítugt og þá sem fulltrúi Alþýðubandalagsins í Æskulýðsnefnd Akraneskaupstaðar. Jónína var í þriðja sæti á lista í síðustu alþingiskosningum og sat á þingi í eina viku 2018.