Lög Fulltrúaráðs Samfylkingarinnar í Reykjavík

FSR 

1. grein - Vettvangur

Fulltrúaráð Samfylkingarinnar í Reykjavík, FSR. er sameiginlegur vettvangur Samfylkingarfólks í Reykjavík og samstarfsvettvangur aðildarfélaga í Reykjavík skv. 2. kafla laga Samfylkingarinnar. FSR er sjálfstætt um eigin málefni og hefur sjálfstæðan fjárhag sé ekki á annan veg mælt fyrir um í lögum Samfylkingarinnar. Heimili FSR og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein - Hlutverk

FSR fer með hlutverk og ber skyldur kjördæmisráða Reykjavíkurkjördæmanna beggja og fulltrúaráðs í sveitarfélaginu skv. 9. og 10. kafla laga Samfylkingarinnar og stendur fyrir framboði við alþingis- og borgarstjórnarkosningar. FSR beitir sér m.a. fyrir málefna- og stefnumótunarvinnu og samhæfingu kosningastarfs.

3. grein - Aðild og samstarf aðildarfélaga

Aðild að FSR eiga öll starfandi aðildarfélög Samfylkingarinnar sem eiga heimilisfesti í Reykjavík, hafa óskað aðildar og uppfylla skyldur aðildarfélaga skv. 3. kafla laga Samfylkingarinnar.

FSR er samstarfsvettvangur félaganna í Reykjavík og beitir sér fyrir nánu samstarfi og samvinnu allra aðildarfélaga sinna.

Framkvæmdastjórn FSR hefur heimild til að ákvarða árgjöld á starfstíma sínum.

4. grein - Skipan

Í FSR eiga sæti fulltrúar allra starfandi aðildarfélaga í kjördæmunum, þingmenn Samfylkingarinnar í Reykjavík og borgarfulltrúar. Hvert aðildarfélag á rétt á einum fulltrúa í ráðinu fyrir hverja 10 aðalfélagsmenn sem lögheimili eiga í Reykjavíkurkjördæmunum og síðan til viðbótar einn fulltrúa fyrir brot úr þeirri tölu, sem þó sé eigi minna en 1/3. Félagi hefur aðeins kosningarétt og kjörgengi til Fulltrúaráðsins í því aðildarfélagi þar sem hann er aðalfélagi sbr. grein 3.11 í lögum Samfylkingarinnar. Til að ákvarða fulltrúafjölda hvers aðildarfélags skal miða við fjölda félagsmanna fjórum vikum fyrir reglulegan aðalfund. Aðildarfélög skila til framkvæmdastjórnar nöfn fulltrúa sinna í síðasta lagi tveimur vikum fyrir aðalfund. Aðildafélögum er heimilt að kjósa á ný sína fulltrúa á milli aðalfunda. Breytingar á fulltrúaskipan skal aðildarfélag tilkynna til skrifstofu Samfylkingarinnar. Breytingar sem tilkynntar eru innan tveggja vikna fyrir boðaðan aðalfund eða boðaðan almennan fund í fulltrúaráðinu taka þó ekki gildi fyrr en að hinum boðaða fundi loknum.

5. grein - Kjörgengi, kjör og hæfi fulltrúa

Rétt til að bjóða sig fram til Fulltrúaráðsins eiga þeir félagsmenn í aðildarfélögunum sem eiga lögheimili í Reykjavík. Aðal- og varafulltrúar skulu kjörnir á félagsfundi aðildarfélags. Fulltrúa er óheimilt að taka þátt í meðferð máls í Fulltrúaráðinu sem varðar sérstaka eða verulega hagsmuni hans eða honum nákominna. 

6. grein - Fundir Fulltrúaráðs

Fulltrúaráðið skal boðað til a.m.k. eins fundar árið milli aðalfunda en fundar að öðru leyti eins oft og þurfa þykir. Framkvæmdastjórn FSR boðar fundi Fulltrúaráðsins með tölvupósti og/eða skriflega með dagskrá með a.m.k. fjögurra vikna fyrirvara. Heimilt er að víkja frá þessum fresti og boða fund með auglýsingu auk tölvupóstsendinga, eigi aðalfundur ekki í hlut og brýnar aðstæður krefja. Skylt er að halda fund innan tveggja vikna ef minnst 20 aðalfulltrúar óska þess skriflega og tilgreina fundarefni.

Fundur Fulltrúaráðs er lögmætur sé hann réttilega boðaður.

7. grein - Aðalfundur

Aðalfundur fulltrúaráðsins skal haldinn í september eða október annað hvert ár á oddatöluári. Aðalfund skal boða með tölvupósti og/eða skriflega með a.m.k. fjögurra vikna fyrirvara. Í fundarboði aðalfundar skal birta dagskrá fundarins og tillögur framkvæmdastjórnar um lagabreytingar ef einhverjar eru. Dagskrá aðalfundar FSR.

1.     Skýrsla framkvæmdastjórnar

2.     Ársreikningar og árshlutareikningur þess árs sem aðalfundur er haldinn

3.     Skýrslur aðildarfélaga

4.     Skýrslur þingsveitar og borgarstjórnarflokks

5.     Lagabreytingar

6.     Kjör framkvæmdastjórnar

a.     Kjör formanns

b.     Kjör gjaldkera

c.     Kjör þriggja aðalmanna og fimm varamanna

7.     Kjör félagslegra skoðunarmanna

8.     Önnur mál

Fráfarandi framkvæmdastjórn FRSR gerir á aðalfundi um nýja framkvæmdastjórn Kynjahlutfall í framkvæmdastjórn skal vera í samræmi við lög Samfylkingarinnar hverju sinni.

8. grein - Lagabreytingar

Tillögur framkvæmdastjórnar Fulltrúaráðsins að lagabreytingum skal senda út með fundarboði aðalfundar. Aðrar tillögur um breytingar á lögum þessum skal senda framkvæmdastjórninni eigi síðar en 3 vikum fyrir boðaðan aðalfund. Framkvæmdastjórn skal birta allar lagabreytingartillögur á vef Samfylkingarinnar eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund. Um lagabreytingar skal hafa eina umræðu. Til lagabreytinga þarf minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða.

9. grein - Skipan framkvæmdastjórnar

Framkvæmdastjórn FSR er kjörin á aðalfundi og er hún skipuð fimm mönnum og jafn mörgum til vara. Formaður framkvæmdastjórnar og gjaldkeri skulu kjörnir sérstaklega á aðalfundi Fulltrúaráðsins en að öðru leyti skiptir framkvæmdastjórnin með sér verkum.

Formenn aðildarfélaga, fulltrúi þingsveitar Samfylkingarinnar í Reykjavík og fulltrúi borgarstjórnarflokks skulu boðaðir á alla fundi framkvæmdastjórnar og eiga seturétt á fundum hennar með málfrelsi og tillögurétti, eða varamenn í forföllum þeirra.

10. grein - Hlutverk og fundir framkvæmdastjórnar

Framkvæmdastjórn ber ábyrgð á rekstri og fjárreiðum Fulltrúaráðs í umboði ráðsins og stýrir störfum þess á milli funda. Formaður boðar framkvæmdastjórnarfundi og allsherjarfundi Samfylkingarfélaganna í Reykjavík sbr. 13.-14. grein og stýrir þeim, en er heimilt að skipa varafundarstjóra. Komi formaður ekki til boðaðs fundar skal varaformaður stýra fundinum. Mæti hvorugur skal kosinn sérstakur fundarstjóri. Gjaldkeri annast fjárreiður Fulltrúaráðsins og er ábyrgur fyrir sjóðum þess. Á fyrsta fundi nýrrar framkvæmdastjórnar skal kjörinn varaformaður og ritari. Ritari færir fundargerðir, gætir á aðgengilegan hátt allra bréfa til og frá Fulltrúaráðinu og gætir skjala annarra en þeirra, er heyra undir gjaldkera. Í hans vörslu skulu vera gjörðabækur, sem ráðum og nefndum er skylt að halda. Sé ritari forfallaður skal skipa fundarritara í hans stað. Við upphaf fundar skal ritari bera upp fundargerð næstliðins fundar til samþykktar. Framkvæmdastjórn er ekki heimilt að skuldbinda Fulltrúaráðið fjárhagslega nema fyrir liggi samþykki meirihluta framkvæmdastjórnar. Fundur framkvæmdastjórnar er lögmætur ef meirihluti stjórnarinnar mætir til fundar. Framkvæmdastjórn skal gefa flokksstjórn Samfylkingarinnar árlega skýrslu um starfsemi Fulltrúaráðsins. 

11. grein - Allsherjarfundur Samfylkingarfélaganna í Reykjavík

Allsherjarfundur er sameiginlegur félagsfundur allra aðildarfélaga Samfylkingarinnar í Reykjavík. Rétt til setu á allsherjarfundi með málfrelsi, tillögu- og atkvæðisrétti eiga allir fullgildir félagsmenn aðildarfélaganna sem lögheimili eiga í Reykjavíkurkjördæmunum 1. janúar næstliðins skv. félagaskrám þeirra.

12. grein - Hlutverk og boðun allsherjarfundar

Allsherjarfundur afgreiðir tillögu um meirihlutasamstarf í Reykjavík sbr. grein 3.15 í lögum Samfylkingarinnar. Fulltrúaráðið getur einnig samþykkt að fela framkvæmdastjórn Fulltrúaráðsins að boða til allsherjarfundar allra aðildarfélaga Samfylkingarinnar í samstarfi við stjórnir þeirra til að afgreiða tiltekin sameiginleg mál aðildarfélaganna. Skylt er að boða til allsherjarfundar innan viku ef minnst 1% félagsmanna aðildarfélaga óska eftir því skriflega og tiltaka fundarefni. Framkvæmdastjórn skal boða allsherjarfund með dagskrá með auglýsingum auk boðunar með tölvupósti eða sms-skilaboðum með þriggja sólarhringa fyrirvara. Heimilt er að stytta fyrirvara boðunar niður í 24 klukkustundir ef brýna nauðsyn ber til að mati framkvæmdastjórnar Fulltrúaráðsins. 

13. grein - Ráð og nefndir

Fulltrúaráð getur skipað ráð og nefndir sem sinna skilgreindum verkefnum. Ráð og nefndir hafa ekki sjálfstæðan fjárhag, heldur heyra fjármál þeirra undir gjaldkera Fulltrúaráðsins. Kynjahlutfall í ráðum og nefndum skal vera í samræmi við lög Samfylkingarinnar.

14. grein - Atkvæðagreiðslur

Einfaldur meirihluti ræður úrslitum í sérhverju máli innan Fulltrúaráðsins, framkvæmdastjórnar, ráða og nefnda og á allsherjarfundum, nema annað sé tilgreint í lögum þessum. Falli atkvæði jöfn í framkvæmdastjórn ræður atkvæði formanns. Framkvæmdastjórn Fulltrúaráðsins eða meirihluti Fulltrúaráðsins geta kallað eftir ráðgefandi atkvæðagreiðslu allra reykvískra félagsmanna í aðildarfélögunum um tiltekið málefni. 10% allra reykvískra félagsmanna í aðildarfélögunum geta knúið fram ráðgefandi atkvæðagreiðslu um tiltekna afgreiðslu Fulltrúaráðsins, skrifi þeir undir kröfu þess efnis. Kröfuna ber að senda framkvæmdastjórn innan mánaðar frá viðkomandi afgreiðslu Fulltrúaráðsins. Framkvæmdastjórn ákveður fyrirkomulag atkvæðagreiðslna.

15. grein - Fulltrúar í flokksstjórn

Fulltrúaráð kýs 10 aðalfulltrúa og 6 varafulltrúa í flokksstjórn Samfylkingarinnar til tveggja ára í senn skv. 9. kafla laga Samfylkingarinnar. Atkvæðaseðill er eigi gildur nema kosin sé full tala.

16. grein - Um kjördæmaskipan

Meðan sú skipan helst að Reykjavík er tvö kjördæmi kemur Fulltrúaráð Samfylkingarinnar í Reykjavík fram sem kjördæmisráð beggja kjördæmanna, óháð búsetu félagsmanna og fulltrúanna innan Reykjavíkur. Það skal í störfum sínum skoða Reykjavík sem eina heild. Val á framboðslista beggja kjördæmanna skv. 17. grein skal óháð búsetu félagsmanna og stuðningsmanna innan Reykjavíkur.

17. grein - Val frambjóðenda á framboðslista

Fulltrúaráðið ákveður framkvæmd og fyrirkomulag röðunar á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík við alþingis- og borgarstjórnarkosningar í samræmi við reglur sem flokksstjórn Samfylkingarinnar setur.  Stjórn FSR starfar sem uppstillingarnefnd nema að fundur Fulltrúaráðsins ákveði annað. Ákvarðanir um framkvæmd og fyrirkomulag, skulu að jafnaði liggja fyrir eigi síðar en fjórum mánuðum fyrir kjördag. Val á framboðslista skal fara fram samtímis í kjördæmunum tveimur. Allsherjarfundur staðfestir frambjóðendur og röð þeirra á framboðslistum Samfylkingarinnar í Reykjavík við alþingis- og borgarstjórnarkosningar að fenginni tillögu uppstillingarnefndar. Kynjahlutfall á framboðslistum skal vera í samræmi við lög Samfylkingarinnar.

18. grein - Tilvísun

Að öðru leyti en því sem kveður á um í lögum þessum fer skv. lögum Samfylkingarinnar.

19. grein - Gildistaka

Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

Samþykkt á aðalfundi FRSR 31. janúar 2012 og með breytingum á aðalfundi FRSR 7. október 2013 og breytingum 2. sept. 2019.