Lög Samfylkingarinnar - jafnaðarmannaflokks Íslands

1. kafli Stefnumið og starfsaðferðir

1.01       Samfylkingin - jafnaðarflokkur Íslands er stjórnmálaflokkur. Hlutverk  hennar er að vinna að mótun íslensks samfélags í anda jafnaðarstefnunnar. Samfylkingin jafnaðarflokkur Íslands er opin öllum sem þetta styðja.

1.02     Samfylkingin - jafnaðarflokkur Íslands vill lýðræðislegt þjóðskipulag byggt á virkri þátttöku almennings, valddreifingu og virðingu fyrir mannréttindum.

1.03     Samfylkingin - jafnaðarflokkur Íslands berst fyrir því að kynferði, trú, kynhneigð, fötlun, efnahagur eða uppruni hindri ekki aðgang að áhrifum, menntun eða störfum.  

1.04     Að þessu hlutverki starfar Samfylkingin - jafnaðarflokkur Íslands á grundvelli lýðræðis og þingræðis með því að bjóða fram við Alþingis- og sveitarstjórnarkosningar og með því að beita áhrifum sínum á Alþingi, í ríkisstjórnum og sveitarstjórnum í samræmi við stefnu sína á hverjum tíma.

2. kafli Stjórn, skipulag og meginreglur

2.01     Samfylkingin - jafnaðarflokkur Íslands er lýðræðisleg fjöldahreyfing íslenskra jafnaðar. Stjórnmálastarf hennar krefst náins sambands við flokksmenn og kjósendur.

Flokkurinn ber ábyrgð á:

  • útbreiðslu hugsjóna jafnaðarstefnunnar út frá stefnu-skrá flokksins,
  • framþróun hugmynda jafnaðar, stefnuskrár þeirra og vinnuaðferða,
  • skipulagningu og samhæfingu kosningabaráttu,
  • samhæfingu stjórnmálastarfs í sveitarstjórnum og í kjördæmum,
  • skipulagi alþjóðastarfs sem flokkurinn tekur þátt í,
  • stefnumótun um samstarf og samráð við verkalýðshreyfinguna,
  • stuðningi við flokksstarf í sveitarfélögum,
  • fræðslu og þjálfun flokksmanna,
  • sameiginlegri skipan á félagaskrá flokksins og innheimtu flokksskatts. 

2.02     Landsfundur Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands er æðsta vald í þeim málefnum sem varða stjórn hennar á landsvísu, stefnumál og samræmt stjórnmálastarf. Landsfundur markar stefnu hennar og setur henni lög.

2.03     Flokksstjórn fer á milli landsfunda með það vald sem ella er í höndum landsfundar með þeim takmörkunum sem lög þessi geyma.

2.04     Stjórn Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands skipa sjö menn: formaður flokksins, sem jafnframt er formaður stjórnar, varaformaður, ritari, gjaldkeri, formaður þingflokks, formaður sveitarstjórnarráðs og formaður framkvæmdastjórnar.

2.05     Stjórnin ber höfuðábyrgð á stjórnmálastarfi flokksins og stuðlar að stefnumótunar- og málefnavinnu sem fram fari á breiðum grundvelli í málefnanefndum, sjálfstæðum málefnahópum og ráðum á vegum flokksins. Fundargerðir stjórnar skulu lagðar fram á fundum framkvæmdastjórnar. Stjórn flokksins á sjálfkrafa sæti í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar, á fundum þingflokks hennar og sveitarstjórnarráði.

2.06     Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands skipa stjórn flokksins skv. gr. 2.04 og 6 aðalfulltrúar og 6 varafulltrúar sem kosnir eru sérstakri kosningu á landsfundi. Framkvæmdastjórnin stýrir málefnum flokksins í umboði landsfundar og flokksstjórnar, sbr. 8. kafla.

2.07     Flokksstarf Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands byggist á sjálfstæðum, staðbundnum aðildarfélögum, sem eru grunneiningar flokksins sbr. 3. kafla. Staðbundin aðildarfélög ungra jafnaðar teljast til grunneininga. Grunneiningar mynda saman kjördæmis- og fulltrúaráð og kjósa fulltrúa á landsfund. Auk grunneininga starfa málefnafélög, klúbbar og áhugafélög að tilteknum málefnum og hugðarefnum, en teljast ekki til grunneininga.  

2.08    Réttindi félagsmanna í aðildarfélögum eru að:

  • greiða atkvæði á félagsfundum, við val fulltrúa á landsfund, á framboðslista, til kjördæmisráðs eða fulltrúaráðs og í almennri atkvæðagreiðslu í flokknum ásamt því að bera upp tillögur á félagsfundi,
  • bjóða sig fram til trúnaðarstarfa innan félagsins og flokksins,
  • taka þátt í stefnumótun flokksins og fræðslustarfi á vegum hans.

Skyldur félagsmanna í aðildarfélögunum eru að:

  • samþykkja grunnhugmyndir flokksins eins og þær koma fram í stefnu og lögum hans,
  • vinna að stefnumálum flokksins af heilindum, vera reiðubúnir til þátttöku í starfi flokksins og valda flokknum eða starfsemi hans ekki skaða,
  • greiða árgjald í þeim félögum þar sem það er skilyrði aðildar.

2.09     Aðildarfélög Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands í hverju kjördæmi landsins mynda kjördæmisráð sem fer með sameiginleg málefni aðildarfélaganna í kjördæminu, sbr. 9. kafla.

2.10     Aðildarfélög Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands í hverju sveitarfélagi landsins mynda fulltrúaráð sem fer með sameiginleg málefni aðildarfélaganna í sveitarfélaginu, sbr. 10. kafla.

2.11     Kjördæmis- og fulltrúaráð aðildarfélaganna eru sjálfstæð um eigin málefni sé ekki á annan veg mælt fyrir um í lögum þessum.

2.12     Skrifstofa Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands heldur rafræna félagaskrá fyrir flokkinn og öll aðildarfélög hans.. Hún sér um að færa fólk milli aðildarfélaga í samræmi við búferlaflutninga og tilkynna stjórnum aðildarfélaga um það. Óheimilt er að láta utanaðkomandi aðilum í té félagaskrár aðildarfélaga eða annast áritanir úr félagatali fyrir aðra.

2.13     a. Í öllum stofnunum flokksins, sem kosið er til, skal þess gætt að konur skipi hið minnsta 40% aðalfulltrúa og 40% varafulltrúa, svo fremi að nægilega margir séu í framboði. Ef færri konur en 40% eru í framboði teljast þær sjálfkjörnar. Við skipan á framboðslista skal stefnt að því að ekki halli á konur. Hið sama á við, þegar skipað er í ráðherrastörf á vegum flokksins.

b. a-liður þessarar greinar gildir ekki um þær stofnanir flokksins sem myndaðar eru af einstaklingum kjörnum í einstaklingskjöri, t.d. stjórn flokksins sbr. a-lið gr. 6.06.

2.14     Einfaldur meirihluti skal ráða úrslitum í sérhverju máli innan Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands, nema annað sé ákveðið í lögum þessum. Að jafnaði skulu allar kosningar vera leynilegar og ávallt ef þess er óskað.

2.15    Við val fulltrúa í ráð og nefndir utan Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands,  hvort heldur á Alþingi eða í sveitarstjórnum, skal að því stefnt, að fulltrúar hennar gegni ekki sömu trúnaðarstörfum lengur en átta ár í röð.

3. kafli Aðildarfélög

3.01    Stjórnmálafélög sem hlíta vilja grundvallarstefnuskrá Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands  undirgangast lög hennar og hafa a.m.k. 10 fullgilda félaga eiga rétt á aðild að Samfylkingunni.

3.02    Hlutverk aðildarfélags er meðal annars;

  • að breiða út grunnhugmyndir jafnaðar og stefnu Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands,
  • að vinna að stefnumótun í sveitarstjórnarmálum fyrir starfssvæði félagsins,
  • að standa fyrir umræðum um lands- og bæjarmál,
  • að veita félögum fræðslu og þjálfun í hugmyndafræði jafnaðar og starfsemi flokksins,
  • að auka gildi flokksaðildarinnar með nánu samstarfi og samráði við flokksmenn,
  • að bera ábyrgð á framboði til sveitarstjórnarkosninga, meirihlutamyndun og nánu samráði félagsmanna og kjörinna fulltrúa,
  • að vera bakhjarl og samráðsvettvangur kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum, nefndum og ráðum,
  • að kjósa fulltrúa frá starfssvæði sínu á landsfund Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands,  og í kjördæmis– eða fulltrúaráð,
  • að taka til umræðu og láta í ljós álit sitt á framkomnum tillögum fyrir flokksstjórnar- og landsfundi.

3.03     Í hverju aðildarfélagi er heimilt að starfi skoðunarnefnd skipuð 3 fulltrúum kosnum á aðalfundi. Hlutverk hennar er að yfirfara reikninga félagsins og starfsemi stjórnarinnar og nefnda og ráða sem starfa á vegum félagsins. Nefndin skal hafa eftirlit með fundargerðum, skjalavörslu og bókfærðum, samþykktum fjárútlátum. Formaður skoðunarnefndarinnar, eða fulltrúi hans úr nefndinni, hefur rétt til að sitja stjórnarfundi og hefur aðgang að öllum gögnum félagsins. Skoðunarnefndin skal gefa aðalfundi skýrslu um álit sitt á starfi stjórnarinnar næstliðið ár.

3.04     Ef félag óskar eftir aðild, getur flokksstjórnin veitt því viðtöku til næsta landsfundar með sömu réttindum og aðildarfélög þau hafa, sem landsfundur hefur samþykkt en á næsta landsfundi skal lagður fullnaðarúrskurður á það mál. Umsókn félags um inngöngu skal fylgja afrit af lögum félagsins.

3.05     Félög sem fengið hafa aðild að Samfylkingunni, jafnaðarflokki Íslands  skulu leitast við að kenna sig við Samfylkinguna - jafnaðarflokk Íslands, í heiti sínu.

3.06     Hvert aðildarfélag hefur fullt frelsi um sín innri mál, svo fremi að ekki brjóti í bága við lög þessi.

3.07     Rétt til inngöngu í aðildarfélag á hver einstaklingur, sem náð hefur 18 ára aldri og skuldbindur sig til að hlíta lögum félagsins. Aldursákvæði þetta tekur ekki til aðildarfélaga ungs fólks sem aðild á að Samfylkingunni, jafnaðarflokki Íslands. Réttur til inngöngu í aðildarfélag er háður því að umsækjandi sé ekki félagi í öðrum stjórnmálaflokkum.

3.08     Aðildarfélagi er heimilt að takmarka aðild að félaginu við búsetu innan þess sveitarfélags sem félagið starfar í.

3.09     Skriflegri umsókn um inngöngu má beina til aðalskrifstofu Samfylkingarinnar , jafnaðarflokks Íslands, sem þá skipar umsækjanda í félag eftir búsetu hans, komi ekki fram ósk um annað. Þó skulu einstaklingar undir 35 ára aldri vera skráðir í Unga jafnaðarmenn eftir búsetu þeirra komi ekki fram ósk um annað. Tilkynning hér að lútandi skal senda viðkomandi aðildarfélagi þegar í stað.

3.10     Enginn getur verið fullgildur félagi nema í einu aðildarfélagi. Um réttindi og skyldur aukafélaga fer skv. lögum viðkomandi aðildarfélaga.

3.11     Hvert aðildarfélag skal tilgreina í lögum sínum hvenær skuli halda aðalfund svo og dagskrá hans. Í lögum skal tilgreint hvernig standa skuli að kjöri stjórnar, varastjórnar og skoðunarmanna. Á aðalfundi skulu og lagðir fram reikningar félagsinsfyrir næstliðið ár og teknar ákvarðanir um önnur þau mál er fyrir fundinum liggja. Reikningsár aðildarfélags er almanaksárið. Í lögum aðildarfélags skal jafnframt tilgreina hvernig standa skuli að fundarboði svo fundur teljist löglegur og einnig hvernig fara skuli með félagsslit. 

3.12     Hvert aðildarfélag hefur rétt til að skjóta öllum ágreiningsmálum sem rísa kunna í félaginu og varða starfsemi þess og lög til framkvæmdastjórnar. Úrskurður framkvæmdastjórnar er bindandi fyrir báða eða alla aðila en vísa má þeim úrskurði til flokksstjórnar og er hann ekki bindandi fyrr en flokkstjórn hefur afgreitt hann.  

3.13     Þar sem Samfylkingin - jafnaðarflokkur Íslands á kjörna sveitarstjórnarfulltrúa ein og sér eða í samstarfi með öðrum flokkum skal starfa bæjar/borgarmálaráð, sem skal halda reglulega fundi um bæjar/borgarmál.

3.14     Kjörnir sveitarstjórnarfulltrúar og stjórn aðildarfélags eða eftir atvikum fulltrúaráð í viðkomandi sveitarfélagi skulu í sameiningu leggja fram tillögu til félagsfundar um meirihlutamyndun og verkaskiptingu við stjórn sveitarfélagsins.  

3.15     Rísi ágreiningur milli tveggja eða fleiri aðildarfélaga, sem varðar starfsemi þeirra og samskipti innan Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands og sem þeim tekst ekki að jafna skal honum áfrýjað til framkvæmdastjórnar sem sker úr deilunni eins fljótt og tök eru á eftir að leitað hefur verið sátta með aðilum. Úrskurður framkvæmdastjórnar er bindandi fyrir báða eða alla aðila, en vísa má þeim úrskurði til flokksstjórnar og er hann ekki bindandi fyrr en flokksstjórn hefur afgreitt hann.

3.16     Gætt skal jafnræðis með aðilum við meðferð deilumála og skal þeim gefinn kostur á því, að koma að sjónarmiðum sínum innan hæfilegra fresta áður en deila er tekin til úrskurðar.

3.17    Úrsögn úr flokknum eða einstökum aðildarfélögum skal vera skrifleg með vottaðri undirskrift eða með auðkennanlegum rafrænum hætti í gegnum vefsetur flokksins.

3.18     Tillögu um að aðildarfélag segi sig úr Samfylkingunni, jafnaðarflokki Íslands,  eða hætti störfum innan hennar má einungis taka til afgreiðslu ef hún er skriflega fram borin við stjórn félagsins af eigi færri en 1/4 hluta fullgildra aðalfélaga. Hljóti tillagan samþykki tveggja löglega boðaðra félagsfunda sem haldnir hafa verið með tveggja vikna millibili skal um hana höfð allsherjaratkvæðagreiðsla. Tillagan telst samþykkt ef 2/3 hlutar greiddra atkvæða eru með henni.

3.19     Bækur, sjóðir og aðrar eignir félags, þær sem til ráðstöfunar eru eftir að skuldir hafa að fullu verið gerðar upp, skulu er félag segir sig úr Samfylkingunni,jafnaðarflokki Íslands, eða hættir störfum falla til Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands, og ber að afhenda þær skrifstofu hennar.

3.20     a. Skrifstofa flokksins heldur skrá yfir aðalfundi aðildarfélaga, innsenda ársreikninga og ársskýrslur og er skráin framkvæmdastjórninni ávallt tiltæk. Sama á við landshreyfingar, sbr. gr. 11.04.

b. Skili aðildarfélag eða landshreyfing ekki ársreikningi og ársskýrslu, sbr. a lið, í tvö ár skal stjórn flokksins heimilt að boða til aðalfundar.

4. kafli Landsfundur

4.01     Landsfund Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands skal halda annað hvert ár. Framkvæmdastjórn boðar til landsfundar og ákveður fundarstað.

4.02     Landsfund skal halda annað hvort á tímabilinu 1. október til 30. nóvember eða á tímabilinu 1. mars til 30. apríl og skal hann standa í a.m.k. 2 almanaksdaga. Framkvæmdastjórn hefur heimild til þess að boða landsfund á öðrum tíma ef nauðsyn þykir bera til, t.d. vegna þingrofs. Landsfundur er lögmætur ef hann er löglega boðaður.

4.03     Afl atkvæða ræður niðurstöðu mála á landsfundi. Í starfsnefndum á landsfundi, eins og í öðru starfi Samfylkingarinnar - jafnaðarflokki Íslands, skal þó leitast við að ná sameiginlegri niðurstöðu um helstu mál án atkvæðagreiðslu.

4.04     Allir félagar í Samfylkingunni, jafnaðarflokki Íslands og aðildarfélögum hennar eiga sæti á landsfundum með málfrelsi og tillögurétti. Kjörgengi miðast við 18 ára aldur. Um atkvæðisrétt fer samkvæmt 5. kafla.

4.05     Landsfund skal boða bréflega með minnst 16 vikna fyrirvara til allra aðildarfélaga flokksins og með a.m.k. einni almennri auglýsingu í útbreiddum fjölmiðli.

4.06     Tillögur málefnanefnda skulu berast stjórn minnst 10 vikum fyrir upphaf landsfundar. Þær skal senda aðildarfélögum til umræðu og umsagnar minnst 8 vikum fyrir upphaf landsfundar.

4.07     Tillögur að ályktunum frá aðildarfélögum og einstökum félagsmönnum skulu berast framkvæmdastjórn minnst 4 vikum fyrir upphaf landsfundar. Þær skulu birtar á vef flokksins þá þegar.

4.08     Samhliða útsendingu fundarboðs til landsfundar skal boðað til fundar formanna aðildarfélaga og landshreyfinga þar sem farið er yfir undirbúning og vinnulag í aðdraganda landsfundar í aðildarfélögum.

4.09     Þó er heimilt að boða til aukalandsfundar með skemmri fyrirvara, ef sérstakar og óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi að dómi flokks- eða framkvæmdastjórnar, eða ef meirihluti aðildarfélaga krefst þess skriflega.

4.10     Sé boðað til aukalandsfundar með hinum skemmri fyrirvara er óheimilt að láta fara fram kosningar til æðstu stjórna eða afgreiða lagabreytingar.

4.11     Landsfundur samþykkir fundarsköp og skal fundum stjórnað samkvæmt þeim. Ritari flokksins og ritari framkvæmdastjórnar hafa umsjón með ritun fundargerðar landsfundar og bera ábyrgð á frágangi hennar.

4.12     Framkvæmdastjórn kýs fimm manna landsfundarnefnd sem undirbýr dagskrá landsfundar og gerir tillögur um embættismenn fundarins.

4.13     Landsfund skal halda í heyranda hljóði. Þó skal umræða um ákveðin mál fara fram fyrir luktum dyrum, ef tillaga þess efnis hlýtur meira en helming greiddra atkvæða.

4.14     Atkvæðisbærir fulltrúar á landsfundi skulu skipta með sér ferðakostnaði sínum til og frá landsfundi, þannig að allir greiði sem næst sömu fjárhæð í beinan ferðakostnað hvar sem þeir eru búsettir á landinu.

4.15     Fulltrúar á landsfundi eða félög sem þeir eru fulltrúar fyrir skulu greiða kostnað við landsfund. Framkvæmdastjórn ákveður upphæð greiðslu og skal hún innt af hendi í síðasta lagi við upphaf landsfundar.

5. kafli Fulltrúar á landsfundi og val þeirra

5.01     Hverju aðildarfélagi er skylt að láta fram fara kosningu atkvæðisbærra fulltrúa á landsfund úr hópi félaga sinna. Tala fulltrúa miðast við tölu fullgildra aðalfélaga eins og hún var samkvæmt flokksskrá 31. desember næstliðins árs. Fyrir 10 félagsmenn sé kjörinn einn fulltrúi og síðan til viðbótar einn fulltrúi fyrir hverja 10 félagsmenn eða brot úr þeirri tölu sem þó sé eigi minna en einn þriðji. Kjósa skal jafn marga fulltrúa til vara.

5.02     Nýtt félag miði fulltrúatölu sína við tölu félaga eins og hún var þegar félagið sótti um inngöngu. Sé félag stofnað innan 3ja mánaða fyrir boðaðan landsfund öðlast það félag ekki rétt til fulltrúakjörs.

5.03     Félag sem ekki hefur haldið aðalfund undanfarin 2 ár fyrir boðaðan reglulegan landsfund og sent ársskýrslu sína ásamt ársreikningi til framkvæmdastjórnar eða vanrækt skattgreiðslur til Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands hefur ekki rétt til að senda atkvæðisbæra fulltrúa á landsfund.

5.04     Enginn félagi getur neytt atkvæðisréttar við fulltrúakjör til landsfundar í nema einu aðildarfélagi og þá einungis þar sem hann er fullgildur félagi.

5.05     Komi nafn einstaklings fram sem aðalfélaga á fleiri en einni innsendri félagaskrá telst hann við ákvörðun fjölda landsfundarfulltrúa tilheyra því aðildarfélagi sem hann gekk fyrst í. Komi ekki fram í innsendri félagaskrá, hvort viðkomandi er aðal- eða aukafélagi, telst hann við ákvörðun á fjölda landsfundarfulltrúa sem aukafélagi. Framkvæmdastjórn setur nánari reglur um þetta efni ef þurfa þykir. 

5.06     Framkvæmdastjórn fyrirskipar kosningar til landsfundar. Stillt skal svo til að þær geti sem víðast farið fram á sama tíma og verið lokið um líkt leyti. Þó getur framkvæmda-stjórn, ef sérstaklega stendur á fyrir einhverju aðildarfélagi eða félögum, veitt þeim annan tíma til kosningarinnar en almennt er ákveðinn ef félagsfundur eða stjórn félagsins ber fram ósk þar um við framkvæmdastjórn.

5.07     Engu aðildarfélagi er heimilt að hefja kosningu til landsfundar fyrr en framkvæmdastjórn hefur fyrirskipað kosningar. Kosningar til landsfundar skal tilkynna hverju aðildarfélagi bréflega.

5.08     Kosningar fulltrúa og varafulltrúa á landsfund skulu fara fram á félagsfundi. Ef fleiri eru í kjöri en fulltrúatala segir til um þá skal kosning fara fram leynilega og skriflega.

5.09     Félagsstjórn er heimilt að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu við kosningar til landsfundar. Þá er og flokksstjórn heimilt að fyrirskipa allsherjaratkvæðagreiðslu við fulltrúakosningar til landsfundar í öllum aðildarfélögum.

5.10     Kjörtímabil fulltrúa er tímabilið milli reglulegra landsfunda og má aðildarfélag ekki kjósa oftar en einu sinni á kjörtímabilinu nema fulltrúar þess deyi eða missi kjörgengisskilyrði sín og varafulltrúum er ekki til að dreifa. 

5.11     Aðildarfélög skulu þremur vikum fyrir landsfund senda framkvæmdastjórn lista með nöfnum kjörinna landsfundarfulltrúa. Framkvæmdastjórn skal til bráðabirgða athuga hvort samræmi sé milli fjölda félagsmanna og kjörinna fulltrúa en afhenda kjörstjórn síðan gögn þessi við upphaf landsfundar.

6. kafli Kosningar forystu, atkvæðisréttur, dagskrá landsfundar og störf

6.01     Formaður Samfylkingarinnar - jafnaðarflokki Íslands skal kjörinn allsherjaratkvæðagreiðslu meðal allra skráðra félagsmanna enda komi fram krafa þar um frá a.m.k. 150 flokksmönnum eigi síðar en 45 dögum fyrir boðaðan landsfund. 

Framkvæmdastjórn skipar sérstaka 3ja manna kjörstjórn vegna allsherjaratkvæðagreiðslu um formannskjör 12 vikum fyrir landsfund. Hún auglýsir m.a. framboðsfrest sem skal vera a.m.k. 10 dagar. Framboðum skulu fylgja meðmæli a.m.k. 20 félagsmanna úr hverju kjördæmi landsins. Kosningarétt í kjörinu hafa þeir sem eru á félagaskrá flokksins við lok framboðsfrests. Hin sérstaka kjörstjórn afhendir kjörstjórn landsfundar niðurstöðu kjörsins á landsfundi. Berist einungis eitt framboð fellur allsherjaratkvæðagreiðsla niður og formaður skal kjörinn á landsfundi, sbr. gr. 6.02. Flokkstjórn setur nánari reglur um allsherjaratkvæðagreiðslu og störf hinnar sérstöku kjörstjórnar.

6.02.   Fari ekki fram allsherjaratkvæðagreiðsla um embætti formanns samkvæmt gr. 6.01 skal formaður kjörinn á reglulegum landsfundi sbr. 6.04. Kjörgengir eru allir félagar 18 ára og eldri. Framboð skulu berast framkvæmdastjórn skriflega eigi síðar en einni viku fyrir upphaf landsfundar. Kosning skal fara fram þótt aðeins einn hafi gefið kost á sér.

6.03     Fari ekki fram allsherjaratkvæðagreiðsla um embætti formanns samkvæmt gr. 6.01 skal framkvæmdastjórn skipa 3ja manna kjörstjórn 6 vikum fyrir landsfund.

6.04     Framkvæmdastjórn skal gera tillögu um embættismenn landsfundar og 5 manna uppstillingarnefnd sem kjósa skal við upphaf landsfundar. 

6.05     Landsfundur kýs fimm fulltrúa í stjórn verkalýðsmálaráðs og fimm til vara. Stjórnin skiptir með sér verkum og boðar til fyrsta fundar ráðsins innan mánaðar eftir reglulegan landsfund. Rétt til setu á fundinum eiga kjörnir fulltrúar og starfsmenn stéttarfélaga sem eru félagar í flokknum

6.06     Á reglulegum landsfundi skal kjósa til tveggja ára sem hér segir:

a. Stjórn flokksins aðra en formann þingflokks og formann sveitarstjórnarráðs; formann flokksins nema viðhöfð sé allsherjaratkvæðagreiðsla skv. ákvæðum gr. 6.01, varaformann, ritara, gjaldkera flokksins og formann framkvæmdastjórnar hvern um sig sérstaklega og í ofangreindri röð.

b. Framkvæmdastjórn: Sex fulltrúa og sex til vara. Atkvæðaseðill er ekki gildur nema kosnir séu a.m.k. sex fulltrúar og er ógildur ef kosnir eru fleiri en tólf fulltrúar. Þau sex sem flest atkvæði hljóta teljast réttkjörnir aðalfulltrúar. Næstu sex sem hljóta næstflest atkvæði án þess að ná kjöri sem aðalfulltrúar teljast réttkjörnir varafulltrúar.

c.  Þrjátíu fulltrúa í flokksstjórn.

d. Formann laganefndar, framkvæmdastjórn skipar aðra tvo fulltrúa í stjórn laganefnd eftir landsfund.   

6.07.    Starfsmenn flokksskrifstofu hafi ekki kjörgengi í  framkvæmdastjórn flokksins

6.08     Komi ekki fram fleiri framboð eða tilnefningar til starfa sem kjósa þarf til en sem nemur fullri tölu í viðeigandi störf teljast viðkomandi sjálfkjörin til starfa.

6.09     Kjörstjórn tekur við framboðum og tilnefningum til allra starfa sem kjósa þarf til á landsfundi.

6.10     Kjörstjórn afhendir uppstillinganefnd öll framboð og allar tilnefningar og skal uppstillinganefnd sjá til þess að framboð og tilnefningar fáist til allra starfa sem kjósa á til, leitar eftir samþykki þeirra sem tilnefnd eru og afhendir kjörstjórn endanlegan lista um framboð og tilnefningar.

6.11     Uppstillinganefnd er heimilt að stilla upp fleiri einstaklingum í framboð en sem tilnefndir hafa verið eða boðið sig fram.

6.12     Kjörstjórn útbýr kjörseðla fyrir allar kosningar í samræmi við lista uppstillinganefndar.

6.13     Engum atkvæðisbærum landsfundarfulltrúa má afhenda nema einn kjörseðil og engum landsfundarfulltrúa er heimilt að skila nema einum kjörseðli til kjörstjórnar.  

6.14     Kjörstjórn stýrir talningu með aðstoð þeirra sem hún velur til þeirra starfa, hefur endanlegt úrskurðarvald um gildi vafaatkvæða og tilkynnir úrslit kosninga.

6.15     Formaður framkvæmdastjórnar og ritari flokksins skulu ekki vera þingmenn. Nái þeir kjöri til Alþingis skal flokksstjórn kjósa í þeirra stað út kjörtímabilið.

7. kafli Flokksstjórn

7.01     Flokksstjórnin hefur milli landsfunda æðsta vald í öllum málefnum Samfylkingarinnar - jafnaðarflokki Íslands og ber hverju aðildarfélagi og hverjum þeim sem telst til félaga og gegnir trúnaðarstarfi fyrir hana að hlýða fyrirmælum hennar og úrskurðum er varða störf fyrir Samfylkinguna - jafnaðarflokk Íslands.  

7.02     Hvert aðildarfélag og einstaklingur hefur rétt á að skjóta ágreiningsmálum sínum við flokksstjórn til landsfundar sem þá fellir fullnaðarúrskurð í málinu.

7.03     Í flokksstjórn eiga sæti með fullum atkvæðisrétti:

a. Framkvæmdastjórn flokksins,

b. Þrjátíu og einn fulltrúi kjörnir af kjördæmisráðunum (sbr. gr. 9.14),

c. Þrjátíu fulltrúar kjörnir á landsfundi,

d. Alþingismenn og sveitarstjórnarfulltrúar Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands enda séu þeir jafnframt félagar í Samfylkingunni – jafnaðarflokki Íslands,

e. Formenn kjördæmis- og fulltrúaráða,

f. Formenn aðildarfélaga

g. Stjórn verkalýðsmálaráðs.

7.04     Hlutverk flokksstjórnar er:

a. Að sjá um að starfsemi Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands, sé í samræmi við lög hennar, stefnuskrá og ályktanir landsfunda.

b. Að leggja höfuðlínur í stefnu Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands, á grundvelli laga hennar og ályktana landsfunda.

c. Að taka ákvörðun um afstöðu til ríkisstjórna og ákveða þátttöku Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands í myndun ríkisstjórnar.

d. Að staðfesta tilnefningu þingflokks Samfylkingarinnar , jafnaðarflokks Íslands á ráðherralista flokksins við stjórnarmyndun.

e. Að úrskurða í málum sem framkvæmdastjórn, þingflokkur eða aðildarfélög vísa til flokksstjórnar.

f. Að taka afstöðu til skýrslna framkvæmdastjórnar, þingflokks og sveitarstjórnaráðs sem þau skulu leggja fyrir flokksstjórn um störf sín eigi sjaldnar en einu sinni á ári.

g. Að setja flokknum skuldbindandi reglur um val á framboðslista.

7.05     Ef formaður Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands fellur frá, segir af sér eða missir kjörgengi á kjörtímabilinu tekur varaformaður sæti hans og kýs þá flokksstjórn nýjan varaformann í hans stað úr sínum hópi fyrir þann tíma sem eftir er af kjörtímabilinu. Ef varaformaður Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands fellur frá, segir af sér eða missir kjörgengi á kjörtímabilinu kýs flokksstjórn nýjan varaformann í hans stað úr sínum hópi fyrir þann tíma sem eftir er af kjörtímabilinu.

7.06     Flokksstjórnarfundi skal boða með auglýsingu og bréfi til allra meðlima flokksstjórnar með a.m.k. 6 vikna fyrirvara. Ef sérstaklega stendur á er heimilt að boða til flokksstjórnarfundar með skemmri fyrirvara með auglýsingum, símtölum, netskeytum eða símskeytum sem birt skulu eða eiga sér stað með a.m.k. 24 klukkustunda fyrirvara. Sé flokkstjórn kölluð saman skv. grein 7.10 má fyrirvari fyrir fund vera 7 dagar.

7.07     Flokksstjórnarfundur er lögmætur sé hann réttilega boðaður með þeim atkvæðisbæru fulltrúum sem hann sækja.

7.08     Ályktunartillögur fyrir reglulega flokkstjórnarfundi skv. grein 7.06, sem aðrir flytja en stjórn eða framkvæmdastjórn, skulu hafa borist a.m.k. tveimur vikum fyrir boðaðan fund og skulu kynntar á heimasíðu flokksins og eftir föngum í viðeigandi málefnanefndum hans.

7.09     Flokksstjórnin skal koma saman a.m.k. tvisvar á ári, nema það ár sem landsfundur er haldinn en þá skal haldinn a.m.k. einn flokksstjórnarfundur. Annan fundinn skal halda á tímabilinu 15. febrúar til 15. mars og hinn á tímabilinu 15. október til 15. nóvember.   

7.10     Flokksstjórn heldur fundi að öðru leyti þegar formaður eða framkvæmdastjórn ákveður.

7.11     Þá er og skylt að kalla flokksstjórnina saman til fundar þegar 40 flokksstjórnarmenn eða fleiri krefjast þess skriflega og tilgreina fundarefni, svo og þegar þingflokkurinn áfrýjar máli til flokksstjórnar. Flokksstjórnarfundur, skv. þessari grein, er lögmætur þegar 40 flokksstjórnarmenn eru mættir.

7.12     Ritari Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands ritar fundargerðir flokksstjórnar og skulu þær sendar öllu flokksstjórnarfólki eins fljótt og kostur er.

7.13     Fundir flokksstjórnar eru opnir öllu félagsfólki Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands sem njóta skal málfrelsis, tillöguréttar og kjörgengis en ekki atkvæðisréttar. Framkvæmdastjórn getur kallað til flokksstjórnarfundar, ef hún telur ástæðu til, þar sem einungis til þess bærir fulltrúar hafa seturétt.

7.14     Flokksstjórn er þó heimilt að funda fyrir luktum dyrum, samþykki meirihluti atkvæðisbærra og viðstaddra flokksstjórnarfulltrúa þá ráðstöfun í atkvæðagreiðslu.

8. kafli Framkvæmdastjórn

8.01     Í framkvæmdastjórn eiga sæti þrettán aðalfulltrúar og sex fulltrúar til vara. Auk þess eiga sæti í framkvæmdastjórn með málfrelsi og tillögurétti, formenn; Ungs jafnaðarfólks, Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands, Landssamtakanna 60+ og verkalýðsmálaráðs og varaformenn í forföllum þeirra.

8.02     Í framkvæmdastjórn á sjálfkrafa sæti stjórn Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands.

8.03     Til viðbótar við þá sem taldir eru í grein 8.02 skulu kjörnir á landsfundi sex aðalfulltrúar og sex til vara og ráða atkvæði röð þeirra (sbr. gr. 6.06). Forfallist aðalfulltrúi tekur varafulltrúi sæti hans.

8.04     Á fyrsta fundi nýkjörinnar framkvæmdastjórnar skulu fulltrúar velja úr röðum sínum varaformann framkvæmdastjórnar og ritara framkvæmdastjórnar.

8.05     Formaður framkvæmdastjórnar boðar fundi framkvæmdastjórnar og stýrir þeim. Fundi skal boða með viku fyrirvara. Heimilt er að boða fundi með styttri fyrirvara þegar nauðsyn krefur.

8.06     Hlutverk framkvæmdastjórnar er:

a. Að vinna með stjórn flokksins að tillögum um stefnumótun og málefnavinnu,

b. Að fjalla um stjórnmál líðandi stundar og mál frá fulltrúum í framkvæmdastjórn,

c. Að vinna að undirbúningi mála og stefnumótun fyrir landsfund og flokksstjórn,

d. Að sjá um framkvæmd á ályktunum landsfundar og flokksstjórnar,

e. Að annast tengsl við aðildarfélög, ráð, hópa og félaga og vinna að eflingu flokkstarfs um land allt,

f.  Að standa árlega fyrir opnum fundum í öllum kjördæmum um stjórnmál líðandi stundar,

g. Að kjósa fimm menn, þar af a.m.k. einn úr sínum hópi, í fræðsluráð,

h. Að kjósa fimm menn, þar af a.m.k. einn úr sínum hópi, í fjármálaráð,

i.  Að hafa yfirumsjón með rekstri Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands, og eignum hennar,

j.  Að ráða starfsmenn að fengnum tillögum stjórnar,

k. Að tilnefna fólk af hálfu Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands, í stjórnir, ráð, nefndir og aðrar trúnaðarstöður eftir því sem við á og það hlutverk ekki falið þingflokki í landslögum eða lögum þessum.

8.07     Framkvæmdastjórn annast og ber ábyrgð á rekstri Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands í umboði landsfundar og tekur allar ákvarðanir um fjárhagslegar skuldbindingar hennar.

8.08     Framkvæmdastjórn er heimilt að veita formanni framkvæmdastjórnar, gjaldkera flokksins og framkvæmdastjóra hans almennt eða sérstakt umboð til þess að skuldbinda Samfylkinguna -  jafnaðarflokk Íslands.

9. kafli Kjördæmisráð og val á framboðslista við alþingiskosningar

9.01     Í hverju kjördæmi landsins skal vera kjördæmisráð starfi þar fleiri en eitt aðildarfélag Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands. Heimildir félags til að krefjast stofnunar kjördæmisráðs skv. þessari grein verða fyrst virkar þremur mánuðum eftir að flokksstjórn hefur samþykkt aðild félagsins.

9.02     Hlutverk kjördæmisráðs er að skipuleggja og efla flokksstarfið í kjördæminu, fara með sameiginleg mál Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands þar og standa fyrir framboði við alþingiskosningar.

            Kjördæmisráð ber ábyrgð á:

  • að standa fyrir umræðum um stefnumarkandi mál í samvinnu við aðildarfélögin,
  • kosningastarfi vegna alþingiskosninga í kjördæminu, framkvæmd og fyrirkomulagi niðurröðunar á framboðslista Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands, við alþingiskosningar,
  • samþykkt og frágangi á framboðslistum til Alþingis,
  • virku sambandi við flokksstofnanir á starfssvæðinu og landshreyfingar,
  • stuðningi við starfsemi aðildarfélaganna,
  • að halda stefnuþing kjördæmisins til undirbúnings fyrir landsfundi.

9.03     Stjórn kjördæmisráðs skal m.a.:

  • sjá um að flokksstarfið sé í samræmi við skipulagsreglur flokksins,
  • framfylgja ákvörðunum kjördæmisráðs,
  • fylgjast með því að aðildarfélögin eða fulltrúaráðin kjósi fulltrúa í kjördæmisráð,
  • hafa með höndum vörslu kjördæmissjóðs,
  • eiga samstarf við aðildarfélögin í kjördæminu og framkvæmdastjórn flokksins.

9.04     Í kjördæmisráði eiga sæti fulltrúar allra starfandi aðildarfélaga í kjördæminu í hlutfalli við félagatölu þeirra eftir þeim reglum sem samþykktir eða lög kjördæmisráðsins kveða á um svo og aðrir sem samþykktir ráðsins kveða á um.

9.05     Kjördæmisráð skal skipa til tveggja ára í senn, en ráðið skal koma saman til funda a.m.k. árlega.

9.06     Á aðalfundi skal a.m.k. taka eftirfarandi fyrir, auk annarra mála:

1. Skýrslu stjórnar,

2. Ársreikning fyrir næstliðið ár,

3. Skýrslu þingmanna kjördæmisins,

4. Lagabreytingar, ef einhverjar eru,

5. Yfirlit um starfsemi aðildarfélaga,

6. Kjör stjórnarmanna og varamanna þeirra,

7. Kjör valnefndar og skoðunarmanna reikninga.

9.07     Aðalfundur kýs 5 manna stjórn kjördæmisráðsins og jafnmarga til vara. Formenn aðildarfélaga hafa seturétt á fundum stjórnar kjördæmisráðsins með málfrelsi og tillögurétti.

9.08     Kjördæmisráð setur sér sjálft samþykktir sem ekki mega stangast á við lög þessi. Þar skal kveðið á um hlutverk ráðsins og skipan og stjórn þess og starfsvettvang svo og gjaldskyldu aðildarfélaga og kostnað af störfum ráðsins.

9.09     Komi upp ágreiningur innan kjördæmisráðs um lög flokksins eða samþykktir ráðsins skal framkvæmdastjórn skera úr. Úrskurður framkvæmdastjórnar er bindandi fyrir báða eða alla aðila en vísa má þeim úrskurði til flokksstjórnar og er hann ekki bindandi fyrr en flokkstjórn hefur afgreitt hann.

9.10     Kjördæmisráð skulu gefa flokksstjórn árlega skýrslu um starfsemi ráðsins.

9.11     Kjördæmisráð ákveða framkvæmd og fyrirkomulag niðurröðunar á framboðslista Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands við alþingiskosningar. Val á framboðslista fer skv. reglum sem flokksstjórn samþykkir.

9.12     Framboð til Alþingis á vegum Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands þarf endanlega staðfestingu flokksstjórnar.

9.13     Þar sem eitt sveitarfélag eru tvö kjördæmi eða fleiri, fer fulltrúaráð aðildarfélaganna í sveitarfélaginu sameiginlega með hlutverk kjördæmisráða þeirra beggja eða allra. 

9.14     Kjördæmisráð Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands skulu kjósa í flokks-stjórn hennar til tveggja ára í senn alls 31 fulltrúa og 18 til vara. Fjöldi fulltrúa, sem hvert kjördæmisráða kýs í flokksstjórn, skal vera sem hér segir:

a. Norðvesturkjördæmi: fimm fulltrúar og þrír til vara.

b. Norðausturkjördæmi: fimm fulltrúar og þrír til vara.

c. Suðurkjördæmi: fimm fulltrúar og þrír til vara.

d. Suðvesturkjördæmi: sex fulltrúar og þrír til vara.

e. Reykjavíkurkjördæmi norður: fimm fulltrúar og þrír til vara.

f. Reykjavíkurkjördæmi suður: fimm fulltrúar og þrír til vara.

9.15     Fulltrúar kjördæmanna skulu kosnir óhlutbundinni kosningu. Er atkvæðaseðill eigi gildur nema kosin sé full tala.

9.16     Kjördæmisráðin skulu hafa lokið kosningu fulltrúa sinna í flokksstjórn fyrir reglulegan landsfund Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands.

10. kafli Fulltrúaráð og framboð til sveitarstjórna

10.01   Í hverju sveitarfélagi landsins skal vera fulltrúaráð starfi þar fleiri en eitt aðildarfélag Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands, enda hafi eitthvert aðildarfélaganna krafist stofnunar þess. Komi slík krafa ekki fram skal það af aðildarfélögunum sem stærst er fara með það umboð sem fulltrúaráðið fer með skv. lögum þessum. Heimildir félags til að krefjast stofnunar fulltrúaráðs skv. þessari grein verða fyrst virkar þremur mánuðum eftir að flokksstjórn hefur samþykkt aðild félagsins.

10.02  Hlutverk fulltrúaráðsins er að skipuleggja og efla flokksstarfið í sveitarfélaginu, fara með sameiginleg mál Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands í því og standa fyrir framboði til sveitarstjórnar.

            Fulltrúaráð ber ábyrgð á:

  • að standa fyrir umræðum um stefnumarkandi mál í samvinnu við aðildarfélögin,
  • kosningastarfi, framkvæmd og fyrirkomulagi niðurröðunar á framboðslista Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands við sveitarstjórnarkosningar og alþingiskosningar ef við á,
  • samþykkt og frágangi á framboðslistum,
  • virku sambandi við flokksstofnanir á starfssvæðinu og landshreyfingar,
  • stuðningi við starfsemi aðildarfélaganna.

10.03   Í fulltrúaráði eiga sæti fulltrúar allra starfandi aðildarfélaga í sveitarfélaginu svo og aðrir þeir sem samþykktir ráðsins kveða á um í hlutfalli við félagatölu þeirra eftir þeim reglum sem samþykktir eða lög fulltrúaráðsins kveða á um svo og aðrir þeir sem samþykktir ráðsins kveða á um. 

10.04  Fulltrúaráð skal skipa til tveggja ára í senn, en ráðið skal koma saman til funda a.m.k. árlega.

10.05  Fulltrúaráð setur sér sjálft lög sem ekki mega stangast á við lög þessi. Þar skal kveðið á um hlutverk ráðsins, skipan, stjórn þess, starfsvettvang, gjaldskyldu aðildarfélaga og kostnað af störfum ráðsins.

10.06   Komi upp ágreiningur innan fulltrúaráðsins um lög flokksins eða samþykktir ráðsins skal framkvæmdastjórn skera úr. Úrskurður framkvæmdastjórnar er bindandi fyrir báða eða alla aðila en vísa má þeim úrskurði til flokksstjórnar og er hann ekki bindandi fyrr en flokksstjórn hefur afgreitt hann.

10.07  Fulltrúaráð Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands skulu gefa flokksstjórn árlega skýrslu um starfsemi ráðanna.

10.08  Fulltrúaráðin ákveða framkvæmd og fyrirkomulag niðurröðunar á framboðslista Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands við kosningar til sveitarstjórna. Val á framboðslista fer skv. reglum sem flokksstjórn samþykkir.

10.09   Sé í sveitarfélagi einungis starfandi eitt aðildarfélag fer það með hlutverk fulltrúaráðs skv. lögum þessum.

11. kafli Landshreyfingar

11.01   Innan Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands starfa landshreyfingar. Landshreyfing er starfrækt í öllum kjördæmum, hún er mynduð um tiltekna málaflokka s.s. málefni ungs fólks, fólks 60 ára og eldri eða málefni kvenna. Flokksstjórn veitir landshreyfingu aðild að flokknum og réttindi skv. þessum kafla. Um inntöku gilda sömu reglur og gilda um inntöku nýrra aðildarfélaga.

11.02   Ungir jafnaðarmenn, Kvennahreyfing Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands og Landssamtökin 60+ teljast til landshreyfinga Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands. Heimilt er að stofna nýja landshreyfingu sem uppfyllir skilyrði skv. þessum kafla.

11.03   Landshreyfingar geta starfrækt staðbundin félög og klúbba sem starfa skulu í nánu samráði við viðkomandi grunneiningar/aðildarfélög, sbr. þó það sem segir í gr. 2.07 um staðbundin félög ungra jafnaðar.

11.04   Landshreyfingar halda ársfundi/ársþing. Þær senda framkvæmdastjórn ársreikning næstliðins árs og gefa flokksstjórn árlega skýrslu um starfsemi sína.

11.05   Landshreyfingar skulu kveða nánar á um boð á ársfund, dagskrá, fjármál, kosningar og slit hreyfingar í samþykktum sínum.

11.06   Formenn landshreyfinga eiga seturétt á fundum framkvæmdastjórnar með málfrelsi og tillögurétti. Sama gildir um fundi flokksstjórnar.

12. kafli Málefnanefndir, málefnahópar og ráð

12.01   Á fyrsta fundi flokksstjórnar eftir landsfund leggur framkvæmdastjórn fram tillögu um forystu og fyrirkomulag málefnanefnda.

12.02  Málefnanefndir starfa að stefnumótun flokksins. Allir skráðir flokksfélagar geta tekið þátt í starfi nefndanna. Málefnanefndir hafa þríþætt hlutverk;

1) stefnumótun flokksins í öllum helstu málaflokkum,

2) að rýna þingmál,

3) eftirlit með því að samþykktri stefnu sé framfylgt.

            Niðurstöður málefnanefnda skulu sendar til umfjöllunar í aðildarfélögum Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands  a.m.k. 8 vikum fyrir landsfund

12.03  Málefnahópar eru frjáls vettvangur málefnavinnu félagsmanna Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands um hvert það málefni sem þeir kjósa og sem varðar viðfangsefni stjórnmálanna. Að stofnun málefnahóps geta staðið félagsmenn, félög og stofnanir samtakanna.  

12.04   Til þess að hópur félagsmanna teljist málefnahópur í skilningi laga þessa þurfa að eiga aðild að honum a.m.k. 5 félagsmenn Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands.

12.05   Stofnun málefnahóps skal tilkynnt framkvæmdastjórn og skal hún leitast við að efla starf þeirra. Í tilkynningu skal koma fram það eða þau málefni sem hópurinn starfar að, hverjir séu stofnendur hans og hver verði tengiliður hans við framkvæmdastjórn og skrifstofu Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands.

12.06   Málefnahópar skulu, eftir því sem tök eru á hverju sinni, eiga aðgang að húsnæði og aðstöðu Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands í samráði við framkvæmdastjóra og samkvæmt þeim reglum sem framkvæmdastjórn ákveður. Hóparnir hafa og rétt til þess að skila til landsfundar og flokksstjórnar tillögum sínum og niðurstöðum.

12.07   Fjöldi hópa er ótakmarkaður. Framkvæmdastjórn er heimilt að standa að stofnun málefnahópa um þau málefni sem hún telur æskilegt að um sé fjallað hverju sinni.

12.08   Í fræðsluráði eiga sæti 5 fulltrúar sem framkvæmdastjórn kýs og skal a.m.k. einn þeirra vera úr hópi framkvæmdastjórnarmanna.

12.09   Hlutverk fræðsluráðs er að starfa að fræðslu og útbreiðslumálum Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands, jafnt innan hennar sem á almennum vettvangi. Fræðsluráð er undirnefnd framkvæmdastjórnar.

12.10   Í fjármálaráði eiga sæti 5 fulltrúar. Framkvæmdastjórn kýs 4 þeirra en jafnframt á gjaldkeri Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands, sæti í ráðinu og er hann formaður þess.

12.11   Hlutverk fjármálaráðs er að vera framkvæmdastjórn og gjaldkera til ráðuneytis og aðstoðar um fjármál og fjáröflun fyrir Samfylkinguna - jafnaðarflokk Íslands.

12.12   Stjórn verkalýðsmálaráðs skal boða fundi ráðsins, undirbúa og ákveða dagskrá þeirra. Meginverkefni stjórnar verkalýðsmálaráðs er að standa að og styðja við virkt samráð forystu Samfylkingarinnar við jafnaðarfólk í forystu verkalýðshreyfingarinnar.

12.13   Formaður stjórnar verkalýðsmálaráðs er tengiliður forystu flokksins við forystufólk í launþegahreyfingunni. Í samráði við framkvæmdastjóra og formann Samfylkingarinnar skipuleggur hann og boðar reglubundna samráðsfundi með fulltrúum stéttarfélaga. Stjórn verkalýðsmálaráðs má kalla saman sérstaklega, með skömmum fyrirvara, framkvæmdastjórn og/eða þingflokki til ráðuneytis.

12.14   Formaður eða varaformaður verkalýðsmálaráðs er einnig tengiliður ráðsins við framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar og hefur seturétt á fundum framkvæmdastjórnar með málfrelsi og tillögurétti. Í tengslum við flokkstjórnarfundi heldur stjórn verkalýðsmálaráðs opnar málstofur eftir þörfum.

13. kafli Þingflokkur og sveitarstjórnarráð

13.01   Þingflokkur Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands, kýs í upphafi hvers þings formann úr hópi þingmanna. Stýrir hann fundum þingflokksins og er formælandi hans á Alþingi.

13.02   Þingflokkurinn tilnefnir fulltrúa til setu í nefndum, ráðum og stjórnum sem kjörnar eru á Alþingi.

13.03   Stjórn Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands (sbr. gr. 2.04) á sæti á fundum þingflokksins með málfrelsi og tillögurétti þótt stjórnarmenn eigi ekki setu á Alþingi.

13.04   Samráðsfundir framkvæmdastjórnar og þingflokks skulu haldnir a.m.k. fjórum sinnum á ári. Þar skal fjalla um afstöðu Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands og samræma málflutning hennar innan þings og utan í meiriháttar pólitískum stefnumálum.

13.05   Þegar Samfylkingin - jafnaðarflokkur Íslands myndar ríkisstjórn skal formaður stýra gerð málefnasamnings fyrir hönd flokksins í samráði við stjórn flokksins. Við val á ráðherrum hefur formaður verkstjórn og skal leita samráðs við stjórn flokksins og þingflokk. Um endanlega staðfestingu ráðherralista og afstöðu til ríkisstjórna, myndun og slit fer skv. grein 7.04 c og d um hlutverk flokksstjórnar og skal svo fljótt sem auðið er kalla saman flokksstjórn og bera upp til samþykktar málefnasamning ríkisstjórnar með þátttöku Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands og aðra tillögu um ráðherralista. Komi fram breytingartillaga um ráðherraval á flokksstjórnarfundi skal gengið til leynilegrar atkvæðagreiðslu. Hafni flokksstjórn ráðherralista skal formaður bera fram nýja tillögu að ráðherralista. Sama gildir um breytingar á starfandi ríkisstjórn.

13.06   Sveitastjórnarráð Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands, skal skipað öllu því fólki sem kjörið eru sem aðalmenn f.h. Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands í sveitarstjórnir í landinu í sveitarstjórnarkosningum hverju sinni. Fulltrúar af sameiginlegum framboðslistum eiga þar þó einungis sæti ef þeir eru félagar í Samfylkingunni - jafnaðarflokki Íslands.

13.07   Hlutverk þess er að styðja sveitarstjórnarfulltrúa Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands í þeirra störfum og fjalla með reglubundnum hætti um þróun sveitarstjórnarmála á hinum ýmsu sviðum þeirra og marka meginstefnuna í þeim málum á grundvelli stefnuskrár Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands og samþykkta landsfunda.

13.08   Það skal koma saman til aðalfundar einu sinni á ári og skal þá m.a. kjósa þriggja manna stjórn þess. Skal hún skipuð formanni, ritara og gjaldkera er allir skulu kosnir sérstaklega. Einnig skulu kosnir tveir menn til vara. 

13.09 Stjórn Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands á rétt til setu á fundum sveitarstjórnarráðs með málfrelsi og tillögurétti þótt stjórnarmenn eigi ekki sæti í sveitarstjórn.

14. kafli Sáttanefnd

14.01   Á fyrsta flokksstjórnarfundi eftir landsfund skal kjörin 3ja manna sáttanefnd og einn til vara. Tilgangur sáttanefndar er að stuðla að lausn erfiðra mála sem kunna að koma upp innan og/eða á milli aðildarfélaga, kjördæmisráð, fulltrúaráða og/eða einstakra flokksmanna vegna:

a. alls ágreinings sem kann að koma upp innan aðildarfélaganna og varða starfsemi þeirra og lög/samþykktir,

b. ágreinings sem kann að koma upp milli aðildarfélaga varðandi starfsemi þeirra og samskipti sem ekki tekst að jafna,

c. ágreinings sem kann að kom upp innan kjördæmisráðs/fulltrúaráðs um lög flokksins eða samþykktir ráðsins,

d. brota á lögum og reglum flokksins.

14.02   Þeir sem skipa sáttanefndina skulu ekki vera kjörnir fulltrúar flokksins á Alþingi og/eða sveitarstjórnum, fulltrúar í framkvæmdastjórn flokksins, starfsmenn skrifstofu flokksins né heldur vera kjörnir fyrir hönd flokksins í stjórnir ríkisstofnana eða valdir af ráðherrum til slíkra verka.

14.03   Sáttaferlið fer fram á sáttafundi, einum eða fleiri, með deilendum og nefndarmönnum sáttanefndarinnar. Aðilum að deilumálum er frjálst að segja sig frá sáttatilraunum á vegum sáttanefndar allt þar til samkomulag liggur fyrir.

14.04   Nefndinni er heimilt að leggja til að fenginn verði óhlutdrægur sáttamaður utan nefndarinnar. Flokkstjórn skal setja nánari reglur um starfshætti sáttanefndar, sáttaferlið og hlutverk og hæfi sáttamanns.

15. kafli Fjármál Samfylkingarinnar - jafnaðarmannaflokks Íslands

15.01   Reikningsárið er almanaksárið. Gjaldkeri semur reikning yfir tekjur og gjöld flokkssjóðs fyrir hvert reikningsár og skal leggja hann fyrir flokksstjórnina í febrúar ár hvert. Reikningurinn skal síðan lagður fyrir næsta landsfund til fullnaðargreiðslu. Það ár sem landsfundur er ekki haldinn skal gjaldkeri semja milliuppgjör og leggja fyrir flokksstjórn.

15.02   Á landsfundi skulu kosnir tveir skoðunarmenn reikninga og einn til vara. Skulu þeir hafa nákvæmt eftirlit með fjárhaldi flokksins milli þinga og endurskoða reikninga hans.

15.03   Landsfundur eða flokksstjórn í umboði hans tekur ákvörðun um flokksgjöld og þær almennu reglur sem gilda um skipan fjármála Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands. Að öðru leyti skipa kjördæmisráð, fulltrúaráð og grunneiningar Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands fjármálum sínum sjálf.  

15.04   Á landsfundi og fundum flokksstjórnar er heimilt að innheimta jöfnunargjald til greiðslu ferðakostnaðar. Einnig er heimilt að verja ákveðnum hluta tekna af innheimtu flokksgjaldi í þessu skyni í samræmi við ákvörðun framkvæmdastjórnar.

15.05   Hvert aðildarfélag greiði árlega til flokksjóðs, miðað við tölu félagsmanna, eins og hún er 1. janúar ár hvert. Gjald þetta skal ákveðið af hverjum reglulegum landsfundi eða flokksstjórn í umboði þess fyrir eitt kjörtímabil í senn. Gjalddagi er 1. september ár hvert.

15.06   Nýtt aðildarfélag greiðir gjald á fyrsta gjalddaga eftir að það hefur verið tekið í Samfylkinguna, jafnaðarflokk Íslands eftir félagatölu sinni eins og hún er við inngöngu. Skal félagið greiða hlutfallslegt árgjald miðað við það sem eftir er ársins. Sé nýtt félag stofnað og því veitt aðild eftir 1. september og landsfundur haldinn fyrir 1. september árið eftir skal hið nýja félag þó greiða gjald skv. 1. ml. í síðasta lagi fyrir upphaf þess landsfundar.

15.07   Gjöld aðildarfélaga og gjöld einstakra stuðningsmanna renna í flokkssjóð. Í hann renna allar aðrar tekjur sem til verða í starfi Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands, þar með taldir þeir styrkir sem veittir eru af Alþingi. 

15.08   Flokkssjóður greiðir kostnað við landsfund, útbreiðslu-kostnað, laun starfsmanna, húsaleigu, ritfanga- og prentkostnað og annan óhjákvæmilegan kostnað milli þinga.

15.09   Félagsmönnum Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands er að jafnaði óheimilt að gangast við sjálfsskuldarábyrgðum fyrir flokkinn, aðildarfélög hans, kjördæmisráð og fulltrúaráð.

 

16. kafli Brottvikning

16.01   Landsfundur hefur rétt til að víkja aðildarfélagi úr Samfylkingunni – jafnaðarflokki Íslands ef hann lítur svo á að það hafi gert sig sekt um athöfn sem sé Samfylkingunni - jafnaðarflokki Íslands til tjóns eða vanvirðu eða brjóti í bága við samþykktir hennar.

16.02   Hvert aðildarfélag sem vikið hefur verið úr Samfylkingunni, jafnaðarflokki Íslands, eða sem segir sig úr henni missir þegar í stað öll réttindi sín innan Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands og fulltrúar þess í hverju starfi sem er á vegum hennar missa þar með umboð sitt. Sama gildir um einstaka félaga sem aðildarfélög hafa vikið út ef flokksstjórnin hefur samþykkt brottvikninguna.

17. kafli Lagabreytingar

17.01   Tillögur um breytingar á lögum þessum skal senda skrifstofu Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands ekki síðar en 6 vikum fyrir boðaðan landsfund. Tillögum skal dreifa með öðrum landsfundargögnum svo tímanlega sem hægt er.

17.02   Um lagabreytingar skal hafa tvær umræður. Til lagabreytinga þarf tvo þriðju hluta greiddra atkvæða og taka þær gildi þegar í stað nema annað sé tekið fram.

18. kafli Lok samtakanna

18.01   Ákvörðun um slit samtakanna skal tekin af tveimur landsfundum í röð. Til samþykktar þarf 2/3 hluta atkvæða á báðum fundum. Seinni landsfundur skal ákveða um ráðstöfun eigna samtakanna.

19. kafli Ákvæði til bráðabirgða

19.01   Ákvæði 3.15 gildir ekki um aðildarfélög Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins og Samtaka um Kvennalista meðan þessi stjórnmálasamtök eru enn til sem sjálfstæðir lögaðilar.

Samþykkt á landsfundi Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands, Grand Hótel, Reykjavík 28.-29. október 2022.