Verklag um móttöku og meðferð umkvartana á sviði eineltis og áreitni

Í stefnu Samfylkingarinnar gegn einelti og áreitni er því lýst að Samfylkingin skapi félagsmönnum vettvang til þess að koma umkvörtunum um ótilhlýðilega háttsemi á framfæri, taki umkvörtunum alvarlega og setji þær í formlegan, málefnalegan farveg sem leiðir til réttlátrar niðurstöðu og að kvartendum verði veittur viðeigandi stuðningur við úrvinnslu atburða. Hér á eftir fer lýsing á því verklagi sem beitt er við móttöku og meðferð umkvartana á þessu sviði.

1. Erindi til trúnaðarnefndar

1.1. Tekið er á móti erindum til trúnaðarnefndar með hverjum þeim hætti sem málshefjandi velur. Upplýsingar um nefndarmenn og leiðir til samskipta við þá eru aðgengilegar á vefsíðu Samfylkingarinnar, auk þess sem senda má nefndinni tölvupóst á netfang nefndarinnar. Trúnaðarmaður getur aðstoðað málshefjanda við erindið. Trúnaðarmaður getur leiðbeint um hvernig má nálgast trúnaðarnefndina.

1.2. Engar kröfur eru gerðar um form erinda. Þau geta borist munnlega, skriflega, á formlegum fundi eða í óformlegu samtali. Erindi eru sett í viðeigandi farveg og varðveitt í trúnaðarbók, hvernig sem þau berast.

1.3. Tekið er á móti nafnlausum erindum en óvíst er að þau leiði til fullnægjandi úrlausnar í samræmi við efni erindisins. Nafnlaus erindi eru varðveitt í trúnaðarbók og geta haft áhrif þó síðar verði.

2. Móttaka og farvegur erinda hjá trúnaðarnefnd

2.1. Öllum erindum til trúnaðarnefndar er komið til aðalmanna í nefndinni. Nefndin kemur saman til ákvörðunar um farveg erindisins á grundvelli þess verklags sem hér er lýst. Engum erindum er vísað frá trúnaðarnefndinni en farvegurinn er misítarlegur.

2.2. Viðbragðstími trúnaðarnefndar er breytilegur í samræmi við eðli og efni erindisins og alvarleika tilkynnts atviks. Aldrei líður lengri tími en 30 dagar frá því erindi berst nefndinni þar til nefndin tekur erindið til umfjöllunar og ákveður farveg þess.

3. Ótilhlýðileg háttsemi

3.1. Verklag þetta lýsir viðbrögðum og meðferð umkvartana um hvers kyns einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni eða ofbeldi. Við mat á því hvort háttsemi teljist ótilhlýðileg er meðal annars horft til umfangs atviks, endurtekninga og eftirfarandi skilgreininga: 3.1.1. Einelti: Endurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa, útiloka eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta.

Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

3.1.2. Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

3.1.3. Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

3.1.4. Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.

4. Upplýsingagjöf, leiðbeiningar og miðlun upplýsinga

4.1. Við upphaf umfjöllunar trúnaðarnefndar eru aðilar upplýstir um þær reglur og verklag sem unnið er eftir hjá nefndinni.

4.2. Leiki grunur á að um refsivert athæfi sé að ræða er málshefjanda leiðbeint um að kæra athæfið til lögreglu. Trúnaðarnefndin sendir tilkynningu til barnaverndaryfirvalda ef grunur leikur á broti gegn barni.

4.3. Trúnaðarnefndin fundar með aðila sem kvörtun beinist að, kynnir fyrir honum umkvörtunarefnið ásamt gögnum málsins og gefur honum færi á því að koma athugasemdum á framfæri. Frestur til andmæla er veittur í samræmi við nauðsynlegan málshraða, fresturinn getur verið stuttur ef málsatvik er viðkvæm en almennt er miðað við að veita aðilanum allt að 30 daga frest til að koma á framfæri andmælum.

4.4. Trúnaðarnefndin getur takmarkað upplýsingarnar sem aðilanum eru veittar í því skyni að vernda hagsmuni þess sem varð fyrir þeirri ótilhlýðilegu hegðun sem til skoðunar er. Takmörkun aðgangs með þessum hætti getur haft áhrif á niðurstöðu nefndarinnar þar sem íþyngjandi ákvörðun verður ekki byggð á þeim gögnum sem aðili fékk ekki aðgang að.

4.5. Aðilar eru upplýstir um framgang erindisins, farveg og niðurstöðu.

5. Vinnuaðferðir og vinnsla erinda

5.1. Trúnaðarnefndin ákveður farveg og fyrirkomulag málsmeðferðar, byggt á skilgreiningu á ótilhlýðilegri háttsemi. Trúnaðarnefndin ákveður umfang og form málsmeðferðar ásamt því hvaða gögn hafa þýðingu fyrir málið og hvaða gögn eru notuð við málsmeðferðina.

5.2. Rætt er við aðila máls eins oft og þurfa þykir til þess að upplýsa málið nægjanlega.

6. Niðurstöður trúnaðarnefndar

6.1. Við ákvörðun trúnaðarnefndar skal lagt mat þann atburð sem erindi snýst um og hvort atburður brjóti í bága við reglur og verklag flokksins, þar á meðal stefnu um einelti og áreitni. Hafa skal til hliðsjónar áhrif atburðar á líðan þess sem fyrir verður, tilfinningalegt álag eða skaða og hvaða áhrif atburður hefur haft á virkni þess sem fyrir verður í flokksstarfi.

Eftirfarandi niðurstöður eru mögulegar:

6.1.1. Umfjöllun lokið án viðurlaga. Ekki ástæða til viðbragða.

6.1.2. Samtal og eftir atvikum ráðgjöf til málsaðila, annars eða beggja.

6.1.3. Áminning trúnaðarnefndar.

6.1.4. Tillaga um að víkja aðila úr öllum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn.

7. Trúnaðarbók

7.1. Fundargerðir trúnaðarnefndar, erindi sem nefndin hefur tekið til meðferðar, úrskurðir, skjöl sem nefndin aflar eða henni eru látin í té sem og skjöl sem verða til vegna málsmeðferðarinnar skulu geymd í húsnæði flokksins og varðveitt á þann hátt að óviðkomandi hafi ekki aðgang að þeim.

Samþykkt í Reykjavík, 03.03.2018