Stefna Samfylkingarinnar gegn einelti og áreiti

Öll eigum við rétt til frelsis og gagnkvæmrar virðingar. Við höfum frelsi til þess að setja öðrum mörk í samskiptum og kröfu til þess að mörkin verði virt. Við eigum jafnframt rétt á því að komið sé fram við okkur af virðingu við allar aðstæður, hvort sem er á formlegum fundum, óformlegum samkomum eða í samtölum þess á milli. Einelti og hvers kyns áreitni eða ofbeldi líðum við ekki og við grípum til aðgerða þegar við verðum slíkrar hegðunar vör. Hugsjónir okkar um félagslegt réttlæti fyrir alla, sameina okkur innan Samfylkingarinnar og við látum hugsjónirnar ná jafnt til stjórnmálabaráttu okkar sem okkar eigin hegðunar í samskiptum við aðra.

Samfylkingin vinnur að framgöngu þessarar stefnu innan flokksins með eftirfarandi aðferðum:

  1. Að skapa gott og jákvætt umhverfi fyrir félagsmenn þar sem hættan á hvers kyns einelti, áreitni eða ótilhlýðilegri hegðun er hverfandi.
  2. Að halda fræðslufundi á hverju hausti um efni stefnunnar og merkingu hennar.
  3. Að kynna stefnu þessa og verklagsreglur henni tengdar, sérstaklega fyrir frambjóðendum, kjörnum fulltrúum og öðrum sem gegna trúnaðarstörfum í flokknum eða fyrir hann.
  4. Að skilgreina hlutverk trúnaðarmanns í skipuriti Samfylkingarinnar.
  5. Að skapa félagsmönnum vettvang til þess að koma umkvörtunum á framfæri.
  6. Að taka umkvörtunum alvarlega og setja þær í formlegan, málefnalegan farveg.
  7. Að veita kvartendum viðeigandi stuðning við úrvinnslu atburða.
  8. Að hafa stefnu þessa aðgengilega öllum félagsmönnum.
  9. Að endurskoða innihald og framkvæmd þessarar stefnu á vettvangi framkvæmdastjórnar við lok hvers starfsárs.

Stefnu þessari er fylgt eftir með viðeigandi verklagsreglum í gæðahandbók Samfylkingarinnar.

Samþykkt í Reykjavík, 03.03.2018