Inngangur að Öruggum skrefum í heilbrigðis- og öldrunarmálum
Öryggi er tilfinning sem er mikils virði
Við höfum öll persónulega reynslu af heilbrigðiskerfinu. Þegar það virkar sem skyldi þá veitir það fólki öryggi. Og það er á okkar viðkvæmustu stundum sem reynir á — þegar eitthvað kemur upp á hjá okkur sjálfum eða fólkinu sem stendur okkur næst. Þá reynir á hvort við búum við sterka velferð.
Þetta er tilfinning sem er erfitt að lýsa með orðum eða meta til fjár. Heilbrigðisþjónustan getur virst okkur fjarlæg um stundarsakir — eða jafnvel lengst af séum við heppin — en á einu augnabliki getur hún orðið svo nálæg að nær allt annað hverfur í samanburði. Þá veltur öryggið á aðgengi að vel menntuðu og vel þjálfuðu heilbrigðisstarfsfólki, sem vinnur við öruggar vinnuaðstæður og getur nýtt eins fullkomin tæki og lyf og kostur er á.
En öryggið felst líka í fleiru sem er erfitt að mæla í afköstum eða skilvirkni: í mannlegri tengingu. Augnsamband, hönd á öxl, manneskja sem tengir, hlustar og skilur — einhver sem annast mann og hefur tíma til að gera það af fullri athygli og alúð. Þessi mannlega tenging getur skipt sköpum þegar á reynir.
Stjórnmálafólk ber ábyrgð á umgjörð og stjórn heilbrigðis- og öldrunarmála í landinu. Milljarðarnir sem fara til þessara málaflokka á ári hverju geta virst fjarlæg stærð. En við sem erum í stjórnmálum megum þó aldrei missa sjónar á hinum daglega veruleika fólks sem þetta snýst allt um þegar upp er staðið.
SÓTT TIL FÓLKSINS
Þess vegna settum við í Samfylkingunni – Jafnaðarflokki Íslands af stað metnaðarfullt málefnastarf með breyttu sniði eftir kjör nýrrar forystu í flokknum. Við gerðum það að meginverkefni flokksins að opna starfið upp á gátt; færa málefnavinnuna nær almenningi um land allt, hleypa öllum að og halda fleiri tugi opinna funda — þar sem fólk innan og utan flokks var hvatt til að mæta til leiks.
Heilbrigðis- og öldrunarmál voru fyrst á dagskrá og þau hafa átt athygli okkar alla síðasta hálfa árið. Næstu málaflokkar verða svo atvinna og samgöngur, sem við tökum fyrir næsta hálfa árið, og loks húsnæðis- og kjaramál.
Nú eru að baki hátt í 40 opnir fundir um heilbrigðis- og öldrunarmál með almenningi um land allt — í bakaríum, menningarsölum, húsakynnum verkalýðsfélaga og félagsheimilum. Og annað eins af fundum á vinnustöðum, með fólkinu af gólfinu og öðrum sérfræðingum um heilbrigðiskerfið. Þó að vinna af slíku umfangi sé vitaskuld leidd af pólitískri forystu og grundvallist á klassískum gildum jafnaðarmennsku þá er tilfinningin, innblásturinn og forgangsröðunin sótt milliliðalaust til fólksins í landinu. Það gefur okkur styrk og fullvissu.
FÓLK VILL ÖRYGGI
Á opnu fundunum teiknaðist fljótt upp skýr mynd. Fólk vill öryggi en upplifir víða öryggisleysi. Margir sakna þess að hafa ekki fastan tengipunkt við heilbrigðiskerfið. Það munar mestu fyrir eldra fólk og þau okkar sem þurfa reglulega að reiða sig á heilbrigðisþjónustuna — en þessi skortur á festu hefur líka áhrif á allt kerfið. Til dæmis eru innlagnir á sjúkrahús um 30% algengari hjá þeim sem hafa ekki fastan heimilislækni.
Eldri maður upplifir öryggisleysi þegar hann hittir alltaf nýtt heilbrigðisstarfsfólk á heilsugæslunni. Konan hans hefur áhyggjur af því að fá ekki viðeigandi heimaþjónustu eða hjúkrunarrými þegar þar að kemur. Og brotakennd þjónusta við þennan hóp bitnar líka á hraustu fólki á höfuðborgarsvæðinu þegar það þarf að leita á bráðamóttöku Landspítala — fyrir utan alla umönnunarbyrðina sem lendir í fangi aðstandenda á öllum aldri. Á landsbyggðunum er óöryggið ennþá áþreifanlegra. Foreldrum er ekki rótt nema hægt sé að reiða sig á samgöngur og sjúkraflutninga. Og ef læknirinn í bænum þarf að fara á eftirlaun eða flytja þá er engin bráðamóttaka eða læknavakt þar sem fyllir í skarðið.
HEILBRIGÐISSTARFSFÓLK VILL LÍKA ÖRYGGI
Saga heilbrigðismála á Íslandi er saga stórkostlegra framfara. Heilbrigðiskerfið okkar er hjartað í því velferðarsamfélagi sem tekist hefur að byggja upp á Íslandi. Það er afrakstur stórhuga pólitískra ákvarðana og ósérhlífni fjölda fólks — samstöðu á vettvangi stjórnmála, verkalýðshreyfingar, atvinnulífs og frjálsra félagasamtaka. Enda vill fólkið í landinu halda fast í grundvallarprinsippið um frjálst og jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu á Íslandi; að við hjálpum hvert öðru þegar heilsan brestur — óháð tekjum fólks, bakgrunni eða búsetu. Þetta veitir okkur öryggi og stolt.
En við þekkjum líka aðra hlið á heilbrigðiskerfinu. Hjúkrunarfræðingar sem þurfa að hlaupa alltof hratt með þeim afleiðingum að fjórðungur þeirra er hættur að sinna hjúkrun innan 5 ára frá útskrift. Læknar með fulla biðstofu sem hafa vart tíma til að horfa í augun á sjúklingnum. Og sjúkraliðar sem ná ekki að nema óvænt bakslag í ástandi einstaklings því að það bíður alltaf annað og brýnt verkefni sem þarf að sinna með hraði.
Við heyrum hvernig niðurskurður í stoðþjónustu hefur grafið undan heilbrigðisþjónustunni. Og við vitum að það fer enginn neitt einn — ekki heldur heilbrigðisstarfsfólk. Í einu sjávarplássinu hitti ég hjúkrunarfræðing sem hafði gefist upp og fundið sér annað starf, meðal annars af því að húsnæðið var óásættanlegt. Hún sagði frá því að húsverðinum hefði verið sagt upp í sparnaðarskyni og þá var enginn til staðar til að passa alla litlu hlutina sem skipta samt svo miklu máli; skortur á viðhaldi og endalaus aukaverkefni sem heilbrigðisstarfsfólk þurfti í kjölfarið að sinna sjálft. Fyrir tilviljun kom húsvörðurinn á opna fundinn um kvöldið. Þá kom á daginn að hann hafði gerst verktaki í bænum eftir áratuga starf á sjúkrastofnunni — og viti menn; nú var hann einmitt farinn að taka að sér verkefni á sínum gamla vinnustað.
Ég hef átt samtöl við fjölda heilbrigðisstarfsfólks. Við höfum fundað með fagfélögunum. Svo þekki ég líka til persónulega því að mamma starfaði sem heimilislæknir og á bráðamóttöku Landspítalans, systir mín er læknir í Svíþjóð og mágkona mín er sjúkraliði á Grensásdeildinni. Heilbrigðisstarfsfólk þráir í rauninni það sama og fólkið sem það sinnir: Öryggi. Það vill öruggar vinnuaðstæður, viðunandi mönnun og meiri tíma með sjúklingnum svo það geti sinnt starfi sínu eins og best verður á kosið.
SAMFYLKINGIN VILL ÖRUGG SKREF
Það er eilífðarverkefni að passa upp á heilbrigðiskerfið. Þar hafa síðustu ríkisstjórnir lagt ýmislegt gott til en annað má betur fara. Það sem liggur algjörlega fyrir er að uppi er pólitískur ágreiningur um sýn og stefnu, aðferðir og fjármögnun. Þar vill Samfylkingin bjóða upp á skýran valkost. Þess vegna kynnum við nú — með góðum fyrirvara fyrir kosningar — sýn okkar og stefnu: Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum — verklýsingu fyrir nýja ríkisstjórn, fimm þjóðarmarkmið og örugg skref í rétta átt.
Þetta útspil er ekki tæmandi listi yfir aðgerðir sem þarf að ráðast í. Við segjumst ekki geta gert allt fyrir alla. Það er ekki sérstakur kafli um einstaka undirflokka heilbrigðismála, jafnvel þó víða sé ærið verk að vinna — til að mynda á sviði geðheilbrigðis, krabbameins og kvennaheilsu. Þetta plagg tekur hins vegar á heildarmyndinni. Við höfum hlustað, meðtekið og aflað upplýsinga sem búa að baki. Spurningarnar sem við höfum reynt að svara eru til dæmis: Hvað sameinar fólkið í landinu? Hvernig styrkjum við grunninn í heilbrigðiskerfinu svo að hinir ýmsu hlutar þess geti starfað með betri hætti? Og hvernig nýtum við fjármagn sem best?
Það er sú leið sem við veljum í stað þess að lofa að leysa stakan biðlista á einum stað eða ráðast í afmarkað mönnunarátak annars staðar í kerfinu. Enda er víða verið að vinna afbragðsvinnu í dag sem má halda áfram.
Upplifun mín er sú að fólk sé ekki endilega að biðja um eitthvað flókið eða óframkvæmanlegt. Flestir sem við töluðum við hafa raunhæfar vonir um gerlegar breytingar sem myndu styrkja grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins. Og almenningur skilur alveg heildarsamhengi hlutanna — þar á meðal samspilið á milli skatta og velferðar. Það útheimtir fjármagn að taka örugg skref í stórum málaflokkum eins og heilbrigðis- og öldrunarþjónustu. En fólk skilur líka að meðvituð ákvörðun um fjármögnun getur leitt til aukinna útgjalda til skamms tíma en um leið komið í veg fyrir ómeðvitaðan og óumflýjanlegan vöxt í útgjöldum til lengri tíma. Stundum þarf að taka ákvarðanir um fjármögnun viljandi til að koma í veg fyrir að kostnaðurinn vindi upp á sig og maður fái útgjöldin í fangið óviljandi.
TVEGGJA KJÖRTÍMABILA VEGFERÐ
Samfylkingin boðar engar töfralausnir. Við erum hreinskilin við fólkið í landinu um að þetta mun allt taka sinn tíma — en við viljum fá þjóðina með okkur í þetta verkefni. Samfylkingin vill styrkja grunnstoðir heilbrigðiskerfisins fyrir alla landsmenn: Við viljum að fólk fái fastan heimilislækni og heimilisteymi, þjóðarátak í umönnun eldra fólks og öruggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu um land allt — af því að samþjöppun í þjónustunni má ekki vera á kostnað aðgengis í dreifbýli.
Samhengið er svo þannig að það mun hafa áhrif á allt heilbrigðiskerfið að styrkja grunninn með því að tryggja fólki fastan heimilislækni og heimilisteymi og bæta úr brotakenndri þjónustu við eldra fólk. Það mun létta á álagi annars staðar kerfinu, ekki síst á sjúkrahúsum, og um leið styðja við betri mönnun og öryggi á vinnustað. Samfylkingin vill að heilbrigðisstarfsfólk fái meiri tíma með sjúklingnum — svo sem með því að styrkja stoðþjónustuna, fjárfesta í nýjum tæknilausnum og draga úr tímanum sem er varið í ýmiskonar skriffinnsku. Það mun jafnframt styðja við betri mönnun. Loks viljum við taka ábyrgð á heilbrigðiskerfinu í heild og tryggja að einkarekstur verði á forsendum hins opinbera og almannahagsmuna.
Fólk á það til að ofmeta hvað hægt er að gera á einu ári en vanmeta hve mikið er hægt að gera á einum áratug. Við ætlum ekki að umturna heilbrigðis- og öldrunarmálunum á örfáum árum — það er hvorki gerlegt né skynsamlegt. Við teljum hins vegar að nú sé tækifæri til að breyta um kúrs við stjórn velferðar- og efnahagsmála í landinu.
Meðal þess sem heilbrigðisstarfsfólk óskar helst eftir er skýr framtíðarsýn og pólitísk forysta. Stóra verkefni Samfylkingarinnar núna er að veita fólkinu sem starfar í heilbrigðisþjónustu von um að hægt sé að bæta vinnuaðstæður og tryggja betri mönnun, styrkja þannig grunn heilbrigðiskerfisins og getu þess til að mæta áskorunum framtíðar. Um leið vonumst við til að vekja traust almennings á þessum tillögum. Þess vegna erum við gagnorð og horfum á stóru myndina — en við veljum ekki auðveldustu verkefnin; þau sem hægt er að afgreiða hratt og líta vel út í fréttatilkynningu en krafsa í raun bara í yfirborðið. Og þess vegna biðjum við um tíma til að framkvæma í öruggum skrefum — til að virkja samstöðu þjóðar og fjármagna þessa vegferð í átt að sterkari velferð og betur reknu ríki.
Við getum litið á þetta sem tveggja kjörtímabila vegferð — þar sem fólkinu í landinu gefst tækifæri til að taka punktstöðu í hálffleik. Valkosturinn sem Samfylkingin býður upp á í næstu kosningum verður skýr — en það verður auðvitað í höndum fólksins í landinu að velja þessa leið.
Njótið lestursins. Og komið sem flest með okkur!
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands
Sérstakar þakkir: Stýrihópur Samfylkingarinnar um heil- brigðis- og öldrunarmál, Anna Sigrún Baldursdóttir formaður, Guðný Birna Guð- mundsdóttir og Sindri Kristjánsson, auk fjölda fólks um land allt sem mætti til leiks og lagði okkur lið með einum eða öðrum hætti í málefnavinnunni.