Reglur um formannskjör úr lögum Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands
6.01 Formaður Samfylkingarinnar - jafnaðarmannaflokks Íslands skal kjörinn allsherjaratkvæðagreiðslu meðal allra skráðra félagsmanna enda komi fram krafa þar um frá a.m.k. 150 flokksmönnum eigi síðar en 45 dögum fyrir boðaðan landsfund.
Framkvæmdastjórn skipar sérstaka 3ja manna kjörstjórn vegna allsherjaratkvæðagreiðslu um formannskjör 12 vikum fyrir landsfund. Hún auglýsir m.a. framboðsfrest sem skal vera a.m.k. 10 dagar. Framboðum skulu fylgja meðmæli a.m.k. 20 félagsmanna úr hverju kjördæmi landsins. Kosningarétt í kjörinu hafa þeir sem eru á félagaskrá flokksins við lok framboðsfrests. Hin sérstaka kjörstjórn afhendir kjörstjórn landsfundar niðurstöðu kjörsins á landsfundi. Berist einungis eitt framboð fellur allsherjaratkvæðagreiðsla niður og formaður skal kjörinn á landsfundi, sbr. gr. 6.02. Flokkstjórn setur nánari reglur um allsherjaratkvæðagreiðslu og störf hinnar sérstöku kjörstjórnar.
6.02. Fari ekki fram allsherjaratkvæðagreiðsla um embætti formanns samkvæmt gr. 6.01 skal formaður kjörinn á reglulegum landsfundi sbr. 6.04. Kjörgengir eru allir félagar 18 ára og eldri. Framboð skulu berast framkvæmdastjórn skriflega eigi síðar en einni viku fyrir upphaf landsfundar. Kosning skal fara fram þótt aðeins einn hafi gefið kost á sér.
6.04 Á reglulegum landsfundi skal kjósa til tveggja ára sem hér segir:
a. Stjórn flokksins aðra en formann þingflokks og formann sveitarstjórnarráðs; formann flokksins nema viðhöfð sé allsherjaratkvæðagreiðsla skv. ákvæðum gr. 6.01, varaformann, ritara, gjaldkera flokksins og formann framkvæmdastjórnar hvern um sig sérstaklega og í ofangreindri röð.
b. Framkvæmdastjórn: Sex fulltrúa og sex til vara. Atkvæðaseðill er ekki gildur nema kosnir séu a.m.k. sex fulltrúar og er ógildur ef kosnir eru fleiri en tólf fulltrúar. Þau sex sem flest atkvæði hljóta teljast réttkjörnir aðalfulltrúar. Næstu sex sem hljóta næstflest atkvæði án þess að ná kjöri sem aðalfulltrúar teljast réttkjörnir varafulltrúar.
c. Þrjátíu fulltrúa í flokksstjórn.
Ákvæði til bráðabirgða
19.02 Þrátt fyrir ákvæði gr. 6.01, 6.02 og 6.04 í lögum þessum skal formaður sem kosinn er í allsherjaratkvæðagreiðslu sem lokið er áður en aukalandsfundur í Reykjavík 3.-4. júní 2016 hefst, teljast réttkjörinn formaður Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands frá því að kjöri er lýst á aukalandsfundinum og til reglulegs landsfundar árið 2019.
(Samþykkt á aukalandsfundi 3. júní 2016.)