Róbert Zakaríasson - 3. sæti
Ég heiti Róbert Zakaríasson og er 45 ára sjálfstætt starfandi listamaður, einstæður faðir táningsstúlku. Ég er fæddur í Gdynia (GdanskI í Póllandi en flutti til Íslands 1996, þá 19 ára gamall. Í Póllandi útskrifaðist ég úr hárgreiðslu ásamt því að læra og keppa í samkvæmisdönsum. Eftir að ég flutti til Íslands vann ég við ýmis störf. Fór t.d. á sjóinn og vann í fiski. Seinna fór ég í nám í vöruhönnun og útskrifaðist frá LHÍ árið 2019. Við feðginin höfum búið í Kópavogi síðastliðin 14 ár og okkur líkar vel að búa hér.
Ég ákvað að taka þátt í framboðskönnun hjá Samfylkingunni í Kópavogi vegna þess að bærinn er mér mikilvægur og hér vil ég taka þátt og geta haft raunveruleg áhrif á líf fólks og hlúa að framtíð okkar. Mál sem tengjast vistfræði og umhverfisvernd eru mér mikilvæg. Ísland er einstaklega fallegt og náttúran fjölbreytt, ég tel að það eigi að hugsa vel um þau verðmæti því hnattrænar loftslagsbreytingar gefa okkur enga aðra kosti. Þetta er eitt mikilvægasta atriðið sem huga verður að við að skapa framtíð bæjarins okkar og lands.
Menntun, sem ég upplifi á hverjum degi gegnum dóttur mína, er eitt mikilvægasta viðfangsefnið því hún mótar að miklu leyti unga fólkið sem er að fara að byggja samfélag okkar. Það er þess virði að hlusta á raddir ungra borgara við uppbyggingu bæjarrýmis okkar því unga fólkið hefur ferskar hugmyndir sem okkur, sem eldri erum, skortir stundum.
Ég vil styðja við einstæða foreldra því ég veit hvaða áskorunum þau stannda frammi fyrir í daglegu lífi.
Ég tek reglulega þátt í allskonar samfélagslegum gjörningum, t.d. menningarátaki til að krefjast nýrrar stjórnarskrár. Ég vil að raddir frá fleiri menningarsvæðum heyrist opinberlega og að fulltrúar þeirra hafi áhrif á stjórnun bæjarins.
Ég vil gera bæinn okkar meira aðlaðandi fyrir íbúa og ferðamenn sem heimsækja okkur og hef fjölmargar hugmyndir sprottnar af reynslu minni og viðræðum við fólk. Hér væri gott að hafa fleiri veitingastaði og menningarlegir samverustaðir fyrir fólk svo að íbúar í Kópavogi og gestir vilji verja frítíma sínum hér og kaupa hér fjölþætta þjónustu og vörur.
Takist mér að ná kjöri og verða frambjóðandi Samfylkingarinnar verð ég stoltur fulltrúi fólksins og mun vinna af festu og einurð fyrir bæjarfélagið.
Ég sækist eftir stuðningi í 3ja sæti framboðslistans.