Siðareglur Samfylkingarinnar
Siðareglur Samfylkingarinnar lýsa grunngildum jafnaðarstefnunnar - frelsi, jafnrétti og samábyrgð - sem öllum flokksfélögum, hvort sem er ráðherrum, þingmönnum, sveitarstjórnarfulltrúum, öðrum sem starfa í nafni Samfylkingarinnar eða almennum flokksmönnum, ber að hafa í heiðri í verkum sínum og framkomu. Siðareglum þessum er ætlað að auðvelda einstaklingum að rækja verk sín vel. Þær leysa fólk þó ekki undan þeirri ábyrgð að reiða sig á eigin samvisku í siðferðilegum efnum.
1. Við komum fram af heilindum og háttvísi í verkum okkar og virðum umbjóðendur, samflokksmenn, samstarfsmenn og andstæðinga.
2. Við gætum þess að afstaða okkar og ákvarðanir mótist ávallt af virðingu fyrir almannahagsmunum og að sem flestir hafi aðkomu að undirbúningi ákvarðana.
3. Við höfum ávallt að leiðarljósi grundvallarreglur góðrar stjórnsýslu og leggjum áherslu á gagnsæja og upplýsta ákvarðanatöku hvort sem er innan flokks eða utan, þar sem lögmæt og málefnaleg sjónarmið ráða afstöðu okkar.
4. Við öxlum ábyrgð á verkum okkar og eflum þannig traust á jafnaðarstefnunni og þeim sem vinna að framgangi hennar.
5. Við tökumst á við ágreining með málefnalegum hætti og viðurkennum að hann er eðlilegur hluti af samskiptum þar sem frjáls skoðanaskipti fara fram.
6. Við tryggjum að fjölbreytileiki samfélagsins endurspeglist í stefnu og starfsháttum Samfylkingarinnar. Allir þeir sem aðhyllast grunngildi jafnaðarstefnunnar eiga rétt á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri innan flokksins og fá umræðu um þau.
7. Við gætum þess að allar upplýsingar um hagsmuni og hagsmunatengsl liggi fyrir í hverju máli og sjáum til þess að þær komist til allra hlutaðeigandi aðila. Við látum vita ef siðferðileg álitamál koma upp.
8. Við virðum þagnarskyldu en tökum ekki þátt í að leyna verkum og upplýsingum sem varða almannahagsmuni.
9. Við vinnum gegn samtryggingu stjórnmálamanna og greiðasemi vegna vináttu- og hagsmunatengsla. Við beitum okkur gegn spillingu.
10. Við þiggjum ekki gjafir eða fríðindi frá hagsmunaaðilum.
11. Við gagnrýnum af sanngirni og með málefnalegum rökum, sýnum tillitssemi og leggjum þannig okkar að mörkum til góðs og heilbrigðs starfsanda á stjórnmálasviðinu.
12. Við kynnum og skýrum stefnu Samfylkingarinnar í þeim málum sem eru til umræðu hverju sinni og styðjumst í málflutningi okkar við þá stefnumótun sem unnin hefur verið á vettvangi flokksins.
13. Við berum sameiginlega ábyrgð á framgangi og framkvæmd jafnaðarstefnunnar á Íslandi, stöndum vörð um gildi hennar og eflum þannig traust á jafnaðarstefnunni og þeim sem vinna að framgangi hennar.
14. Við stuðlum að jákvæðum flokksanda og forðumst að aðhafast nokkuð sem getur orðið okkur sjálfum, kjósendum okkar eða Samfylkingunni til vanvirðu og álitshnekkis.
15. Við förum eftir reglum og verklagi flokksins í störfum okkar fyrir Samfylkinguna.
Samþykkt í Reykjavík, 03.03.2018