Sjálfbært Ísland - Ályktun og aðgerðalisti Samfylkingarinnar um aðgerðir við loftslagsvá
Ályktun flokksstjórnarfundar Samfylkingarinnar í Austurbæ, Reykjavík, 19. október 2019 um aðgerðir við loftslagsvá
Flokksstjórnarfundurinn tekur undir kröfur skipuleggjenda loftslagsverkfallanna og skorar á ríkisstjórn Íslands að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Í því felst að ráðast í aðgerðir af þeim þrótti að dregið verði úr losun gróðurhúslofttegunda um a.m.k. 55% árið 2030.[1] Ísland setji stefnuna til framtíðar á að verða grænt velsældarhagkerfi með jöfnuð að leiðarljósi. Til nauðsynlegra breytinga skal á næstu árum verja a.m.k. 2.5% af vergri landsframleiðslu verði veitt til loftlagsaðgerða.
Loftslagsváin er mesta ógnin sem mannkynið stendur nú frammi fyrir. Loftslagsbreytingar eru ekki aðeins umhverfismál, heldur snerta allt samfélagið með einum eða öðrum hætti. Grípa þarf til alvöru aðgerða, skapa um þær samstöðu meðal þjóðarinnar og veita þeim sterka pólitíska forystu.
Jarðefnaeldsneyti – sem er sökudólgurinn – þarf að uppræta jafnt og þétt og aðrir orkugjafar – grænir – þurfa að koma í staðinn til að mæta orkuþörf okkar. Samfara orkuskiptum þarf að binda kolefni í ríkum mæli með öllum aðferðum sem tiltækar eru, ekki síst með því að koma landinu í upprunalegt horf með endurheimt votlendis og aukinni ræktun. Hér þarf að flokka aðgerðir eftir árangri og ganga hratt til verks.
Fyrst og fremst vekja loftslagsbreytingar okkur upp við þann vonda draum að lifnaðarhættir okkar ganga ekki og að við þurfum að skoða alvarlega forgangsröðun í samfélaginu, neyslu okkar, hegðunarvenjur og skipulag. Hagkerfið þarf að taka stakkaskiptum og sjónarmið sjálfbærni að verða leiðarljós þess.
Að efnaminni líði ekki fyrir breytingar
Tryggja þarf, í samræmi við áherslur jafnaðarmanna, að hinir efnaminni líði ekki við þær vandasömu og kostnaðarsömu breytingar sem fram verða að fara á því umbreytingartímabili sem fram undan er við færsluna yfir í samfélag án kolefna – þó ljóst sé að allir verði með einum eða öðrum hætti að taka ábyrgð á þeim breytingum. Meginreglan við opinbera stefnumótun og aðgerðir er að sá sem mengar borgar (mengunarbótareglan/greiðslureglan), sem meðal annars verður grundvallarreglan við upptöku hærri kolefnisgjalda og annarra grænna skatta.
Forvitni og jákvæðni
Samfélagið þarf að breytast. Hægt er að vinna að því verkefnið er með forvitni og jákvæðni eða reyna standa á móti nauðsynlegum breytingum í ótta – en að endingu snýst málið raunverulega um að bjarga okkur sjálfum og lífríki jarðar. Verkefnið er nátengt og fer saman við önnur mál jafnaðarmanna, til dæmis styttingu vinnuvikunnar og betri geðheilbrigðisþjónustu. Færa má rök fyrir því að það að streita og álag samfélagsins minnki hafi jákvæð áhrif á líðan fólks og vinnugleði, og stuðli að aukinni lýðheilsu.
Mannkynið hefur sjaldan staðið frammi fyrir jafnstórri áskorun. Til að mæta henni þurfum við nýsköpun í hugsun á flestum sviðum samfélagsins – ekki síst í stjórnmálum – hætta að hugsa aðeins út frá núverandi kerfum. Við þurfum að temja okkur djarft viðhorf og sýna pólitískt hugrekki. Við stefnum að framtíðarsýninni Sjálfbært Ísland – og tillögurnar hér að neðan eru fyrsta varðan í leið að þeirri samfélagsmynd.
Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar leggur til eftirfarandi aðgerðir, að tillögu umhverfishóps flokksins:
- Lýst verði yfir neyðarástandi í loftslagsmálum, og gripið til þessara aðgerða:
- Dregið verði úr losun umm.k. 55% á tímabilinu til loka árs 2030 (miðað við losun 2005). Markmiðið verði bundið í lög.
- Varið verði a.m.k 2,5% af vergri landsframleiðslu til loftslagsaðgerða.
- Ákveðin verði og færð í lög tímasett og magnbundin áætlun um samdrátt gróðurhúsalofttegunda í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og innlend markmið, í samræmi við lið 2.
- Græn fjárlög og grænt hagkerfi. Sjálfbærni og grænar áherslur verði færð inn í fjárlagagerðina[2] og við fjárhagsáætlunargerð ríkis og sveitarstjórna. Íslendingar setji sér það markmið á að verða grænt velsældarhagkerfi með áherslu á hringrásarhagkerfið. Breytingar verði skoðaðar á hagvaxtarlíkani og aðrir þættir teknir inn. Þá verði teknar upp fleiri grænar vottanir og ívilnanir fyrir fyrirtæki á sviði grænna lausna.
- Komið verið á sérstöku ráðuneyti loftslagsráðherra – sem sér um að framfylgja verkefnum þvert á ráðuneyti. Það endurspeglist á Alþingi með skipan tímabundinnar fastanefndar sem fjalli sérstaklega um loftslagsmál. Sveitarstjórnir styrki áherslur á sviði loftslagsmála í stjórnkerfi sínu með svipuðum hætti.
- Stjórnsýsla loftslagsmála, sem nú er í uppnámi, verði gerð öflug og skilvirk.
- Opinberar áætlanir verði loftslagsmetnar. Loftslagsmat fylgi öllum stjórnarfrumvörpum á Alþingi.
- Tímasett útfösun jarðefnaeldsneytis. Nýtum þá meðgjöf sem land og þjóð hafa með endurnýjanlegum orkugjöfum og jarðvarma. Flýta þarf uppbyggingu á dreifikerfi rafmagns um allt land í sátt við samfélag og náttúru. Með útfösun jarðefnaeldsneytis fæst umtalsverður ávinningur – efnahagslegur með því að gjaldeyrir sparast við að innflutningi á olíu er hætt, mengun minnkar og loftgæði aukast til muna.[3] Markviss markmið ár frá ári verði sett um þessa umbreytingu í samræmi við aðgerðaáætlunina, og samráð haft um hana við samtök atvinnurekenda og almannasamtök. Stefnt skal að því að þessum aðgerðum ljúki árið 2030 og að þá verði jarðefnaeldsneyti ekki lengur nýtt á Íslandi nema í undantekningartilvikum.
- Til að hraða orkuskiptum í vegasamgöngum verði stóraukið opinbert fjármagn til uppbyggingar rafhleðslustöðva um landið og við heimili. Ríki og sveitarfélög þurfa að huga að einfalda ferli við skipulag, leyfisveitingar og eftirlit til að hægja ekki á ferlinu.
- Hafnar verði sérstakar rannsóknir um súrnun sjávar og áhrif hennar á lífríki í hafinu umhverfis landið. Íhugað verði hvort hægt er að efla rannsóknir og undirbúning aðgerða með alþjóðlegri samvinnu strandríkja.
- Nýskráningum á bensín- og díselbílum hætt sem fyrst. Núverandi áætlun ríkisstjórnarinnar miðast við 2030 sem er of seint. Nú þegar þarf að aðstoða almenning við að velja rafmagnsbíl í stað bensín- eða dísilbíls, einkum á eftirmarkaði.
- Hækkun kolefnisgjalds. Sjónarmiðið hér er að sá sem mengar borgar. Á meðan breytingin stendur yfir með útfösun jarðefnaeldsneytis þarf að leggja á hátt kolefnisgjald, einkum á atvinnugreinar sem standa fyrir utan ETS-kerfið, en jafnframt á notkun bíla.
- Stórfellt átak við endurheimt votlendis, ræktun og bindingu í jörðu. Þessar leiðir geta skilað árangri á tiltölulega skömmum tíma, þótt ólíklegt sé að nokkur þeirra geti komið í stað beins samdráttar í losun. Lagalegar flækjur sem kunna að standa þessum verkefnum í vegi verði einfaldaðar.
- Opinberar fjárfestingar við hágæðaalmenningssamgöngur. Fjármögnun almenningssamgangna um allt land verði tryggð.
- Aukið fjármagn renni til rannsókna og þróunar. Þak verði afnumið á endurgreiðslum til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar sem leiða til grænna lausna og rannsóknarsjóðir hins opinbera á þessu sviði efldir.
- Lífrænni matvælaframleiðslu verði gert hærra undir höfði – með aukinni áherslu á ræktun grænmetis og ávaxta. Hér þarf að huga að ívilnunum og opinberum styrkjum. Endurskoða þarf búvörusamninga.
- Regluverk fyrir grænar fjárfestingar – regluverk verði sett um grænar fjárfestingar, græn skuldabréf.
- Sjálfbærir neytendur og þeir sem huga að kolefnisfótspori sínu fái betri opinberan stuðning og umbun. Til þess verði skoðaðar ívilnanir í gegnum skattkerfi, samgöngustyrkir auknir og útfærðar frekar hugmyndir á borð við „grænar ávísanir“. Verslanir bjóði í meira mæli umbúðalausar vörur.
- Matvæli verði merkt með kolefnisfótspori, og skattkerfinu beitt til að draga úr neyslu á mengandi afurðum og hvetja til kaupa á afurðum sem menga minna.
- Markvissari skref tekin í átt að styttingu vinnuvikunnar. Stytting vinnuvikunnar er dæmi um vinnumarkaðsmál sem stuðlar að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Rannsóknir sýna að við það að stytta vinnuvikuna um 20% myndum við draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um allt að 16% vegna breyttra samgöngumáta og neysluhátta.
- Stöðvuð verði svartolíumengun frá skemmtiferðaskipum í íslenskum höfnum og á íslensku hafsvæði, og komið upp aðstöðu til annarskonar orkuþjónustu við skipin.
- Ísland verði leiðtogi í umhverfismálum á alþjóðavettvangi. Loftslagsmál verði forgangsmál í samskiptum við Evrópusambandið, m.a. á vettvangi EES, og í öðru alþjóðasamstarfi. Stjórnvöld tali fyrir öflugum aðgerðum og viðsnúningi vegna loftslagsmála og umhverfismála, fyrst og fremst með því að sýna árangur á heimavelli.
[1] 55% samdráttur fyrir 2031 miðað við stöðuna 2005 er nú til umræðu innan Evrópusambandsins í stað þeirra 40% sem í fyrstu voru talin duga til að uppfylla markmið Parísarsamningsins frá 2015. Íslensk stjórnvöld hafa hingað til rætt um 29% samdrátt.
[2] Hjá OECD – Efnahags- og framfarastofnun Evrópu er að finna töluvert efni um græn fjárlög (e. green budgeting).
[3] Í Ósló hefur borgarstjórnin sett þau markmið að borgin verði án jarðefnaeldsneytis árið 2030.