Verum Samfó

Stefnumál Samfylkingarinnar og félagshyggjufólks í Norðurþingi

Skipulagt til framtíðar

Á kjörtímabilinu viljum við að skipulags- og húsnæðismál verði tekin föstum tökum. Greining á mögulegum þéttingarreitum innan þéttbýlis fari fram og horft verði sérstaklega til endurskoðunar á iðnaðarsvæðum. Innan tveggja ára verði búið að hanna heildarmynd á nýju hverfi í Grundargarði á Húsavík og hefja uppbyggingu. Með þéttingu byggðar og fleiri lóðum viljum við tryggja nægt framboð af húsnæði og gera byggðina sjálfbærri í sveitarfélaginu. Þannig er einnig lagður grunnur að heilnæmara samfélagi og fjölbreyttari samgöngum.

Við viljum nýtt og grænt aðalskipulag með áherslu á barnvænt og fjölbreytt samfélag fyrir fólk. Við viljum stórlega bæta innviði fyrir gangandi og hjólandi, bæta gönguleiðir barna og skapa rými fyrir meira mannlíf. Við viljum gera bílastæðastefnu og hjólreiðaáætlun fyrir sveitarfélagið ásamt því gera metnaðarfulla loftslagsáætlun sem setur sveitarfélagið í fremstu röð. Þannig tökumst við á við loftslagsvána og sköpum nútímalegt samfélag þar sem við getum öll fundið okkur stað.

  • Ráðum verkefnastjóra til að halda áfram að móta og þróa græna iðngarða á Bakka.
  • Hönnum til framtíðar tjaldsvæðið á Húsavík á núverandi stað með stækkun vestur fyrir veginn í huga.
  • Stuðlum að sjálfbærri orkuframleiðslu sem nýtist til uppbyggingar á svæðinu.
  • Beitum okkur fyrir uppbyggingu á salernisaðstöðu niður á höfn á Húsavík í samstarfi við einkaðila.
  • Setjum fókus á framkvæmdir á austursvæði sem stuðla að eflingu ferðamennsku. t.d. að klára áningastaðaverkefni og huga að frekari uppbyggingu á tjaldsvæðum á Kópaskeri og Raufarhöfn.

Grunnurinn styrktur

Við viljum koma eignum Norðurþings í stand fyrir starfsfólk og notendur byggingana. Allir eiga skilið heilbrigðan og öruggan vinnustað. Því ætlum við að fara í aukna viðhaldsvinnu á byggingum Norðurþings, svo sem skólahúsum, sundlaugum og íþróttamannvirkjum. Fyrsta verk nýkjörinna fulltrúa verður að fara yfir núverandi viðhaldslista og gera viðhaldsáætlun til næstu átta ára.

  • Lögum gangstéttir á Kópaskeri og Raufarhöfn. Mikilvægt er á uppbyggingartímum að sveitarfélagið leggi sitt af mörkum í að gera umhverfið fallegra og aðgengilegra.
  • Sækjum styrki í uppbyggingu, viðhald og merkingu göngu- og hjólastíga.
  • Kortleggjum gönguleiðir skólabarna og tryggjum á þeim öruggar og upphækkaðar gangbrautir.
  • Klárum aðgengi að Sjóböðunum og útivistarstíginn frá böðunum alla leið að golfvellinum og niður með Þorvaldsstaðará.
  • Höldum áfram uppbyggingu heilsárs útivistarvæðis við Reyðarárhnjúk með áherslu á gönguskíðasvæðið.
  • Fjárfestum í öflugum dráttarbát fyrir hafnir Norðurþings.

Hugað að íbúum!

Við viljum teikna viðbyggingu og endurhanna Borgarhólsskóla á Húsavík. Einnig að teikna upp breytingu á skólahúsinu í Lundi og skoða nýtingu skólahúss á Raufarhöfn. Allt þetta í ljósi breyttra þarfa í samfélaginu og með hugmyndafræði fjölnýtts húsnæðis að leiðarljósi. Á kjörtímabilinu verði líka búið að hanna og undirbúa uppbyggingu á nýjum leikskóla á Húsavík í takti við áætlaða fólksfjölgun í bænum. Skoðum leikskólamál á Kópaskeri til framtíðar og viljum stofna starfshóp í samræmi við óskir íbúa.

Við viljum skoða málefni félagsþjónustu aldraðra og langveikra með hagsmuni þeirra að leiðarljósi þegar kemur að þjónustu sveitarfélagsins í samvinnu við aðrar stofnanir. Við viljum að passað sé upp á sú þjónusta sem í boði er fari saman og viljum stíga skref í átt til frekari samþættingar í þeim efnum.

Við viljum útvíkka starfssvið og hækka starfshlutfall fjölmenningarfulltrúa með tilliti til móttöku allra nýbúa í Norðurþingi. Við viljum að fólk sem ákveður að flytja í Norðurþing viti um alla þá virku félagsstarfsemi sem í boði er svo að það geti tekið virkan þátt í samfélaginu öllum til heilla.

  • Hækkum frístundastyrk í 30.000 fyrir lok kjörtímabils og skoðaður verði möguleikinn á að ungmenni geti nýtt styrkinn til líkamsræktar.
  • Klárum vinnu við að skilgreina leikvelli í Norðurþingi og fylgja eftir áætlun varðandi uppbyggingu.
  • Systkinaafsláttur vegna skólamáltíða verði settur á, 25%.
  • Myndum starfshóp allra hagsmunaðila fyrir Hvamm og skipuleggja í hvað nýta eigi húsnæðið til framtíðar.
  • Byggjum nýjan íbúðakjarna fyrir einstaklinga með fjölþættar stuðningsþarfir á kjörtímabilinu.
  • Aukum stöðugildi sálfræðings í skólaþjónustu.