Stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar - samþykkt á flokksstjórnarfundi

Eftirfarandi stjórnmálaályktun var samþykkt á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem haldinn var í Háskólanum á Bifröst 16. mars 2019.

Stjórnmálaályktun
Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar – 16. mars 2019

Samfylkingin telur nauðsynlegt að leysa íslenskt samfélag úr greipum stöðnunar og íhalds sem allra fyrst.

Hér þarf að byggja upp samkeppnishæft velferðarþjóðfélag að norrænni fyrirmynd þar sem ungir og aldnir geta notið sín á eigin forsendum. Þar sem  líf barnafólks er einfaldara, húsnæðismarkaðurinn  öruggari, matarkarfan ódýrari og lánabyrðin léttari. Þar sem réttlát skipting ríkir á byrðum og gæðum. Þar sem tækifæri til náms og vinnu eru jöfn svo að mannauður og hugvit samfélagsins nýtist sem best. Þar sem búið er vel að gömlu og veiku fólki og mannleg reisn höfð að leiðarljósi í kjörum og i umönnun öryrkja. Þar sem gagnkvæmt umburðarlyndi ríkir milli ólíkra hópa. Þar sem barist er gegn hvers konar mismunun. Þar sem loftslagsmál eru alltaf höfð í huga við skipulag og ákvarðanir. Þar sem þátttaka og velferð innflytjenda og fólks sem leitar verndar er tryggð og þar sem samvinna við aðrar þjóðar er mikil og náin.

Íhaldssöm hægri stefna síðustu ára hefur þjónað sérhagsmunum, aukið byrðar á lág- og meðaltekjuhópa og grafið undan stoðum velferðarkerfis okkar með kerfisbundnu aðgerðarleysi í húsnæðismálum og menntamálum. Algjör skortur á framtíðarsýn í atvinnumálum hefur leitt til þess að færri ungmenni sjá tækifæri og möguleika til framtíðarbúsetu hér á landi. Fyrirhugaður niðurskurður  ríkisstjórnarinnar á framlögum til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga leiða til skerðingar á nauðsynlegri nærþjónustu við fólkið í landinu og samskipti ríkis og sveitarfélaga sett í uppnám um leið. Íslenskt dómskerfi er auk þess í uppnámi eftir afgerandi niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu vegna embættisafglapa fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Sátt um kjör
Stöðugur vinnumarkaður endurspeglast í stórum og smáum fyrirtækjum, sem geta greitt starfsfólki góð laun og búa við öruggt rekstrarumhverfi og heilbrigða samkeppni. Talsmenn launafólks og atvinnulífsins hafa ítrekað bent á að fleira en launahækkanir þurfi til að tryggja góð lífskjör hér á landi. Samfylkingin berst eins  og verkalýðshreyfingin fyrir réttlátara skattkerfi, hagfelldara umhverfi fyrir barnafólk, gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu og traustum og hagkvæmum húsnæðismarkaði.

Ríkisstjórnin býður hins vegar upp á óréttlátar skattaútfærslur, hlífir þeim ríku en gefur millitekjuhópum langt nef, viðheldur þeirri hægri stefnu að hafa barnabætur í lágmarki og vaxtabótakerfið svo til ónýtt.

Krónan er óstöðugur gjaldmiðill, hún gæti veikst, vextir hækkað og verðlag rokið upp og þá er jafnvel hugsanlegt að almenningur standi  uppi með kjararýrnun eftir gerð kjarasamninga. Aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru er mikilvægt skref í átt til efnahagslegs stöðugleika og betri rekstrarskilyrða fyrir heimili og fyrirtæki.

Menntun og sköpun
Það er löngu tímabært að menntamál njóti aukins forgangs. Í húfi er verðmætasköpun í framtíðinni, jöfn tækifæri burtséð frá stétt og stöðu, aukin lífsfylling og betri búsetuskilyrði hér á landi.

Við verðum að tryggja  fjölbreytt tækifæri til menntunar og þroska. Það mun leiða til spennandi atvinnutækifæra og góðra lífskjara. Við verðum að stórauka framlög til háskólanna svo að þau verði sambærileg  við það sem tíðkast meðal nágrannaþjóða. Við þurfum líka að stórefla rannsóknarsjóði okkar og gjörbreyta fyrirkomulagi námslána og færa í átt að námsstyrkjakerfi. Við þurfum að styrkja rekstrargrundvöll þeirra skóla sem kenna skapandi greinar, setja í forgang framlög til verk- og tæknigreina, efla símenntun og afnema alveg  þak á endurgreiðslu fyrirtækja vegna rannsókna og þróunarvinnu.

Græni sáttmálinn
Nú er svo komið að Íslendingar losa tvöfalt meira af gróðurhúsalofttegundum en aðrir Evrópubúar og nauðsynlegt að grípa til róttækra aðgerða. Gera þarf breytingar á skattkerfinu, samgöngu- og húsnæðismálum, matvælaframleiðslu og auðlindanýtingu með sjálfbærni að leiðarljósi – og efla rannsóknir og skapa hvata til nýsköpunar svo um munar. Við verðum að virkja hugvit og verða fyrirmyndir í baráttunni gegn hlýnun jarðar á alþjóðavettvangi.

Við þurfum nýjan  grænan sáttmála og hér má enginn skorast úr leik. Stjórnvöld, fyrirtæki og einstaklingar þurfa að koma sér saman um víðtækar aðgerðir og gjörbreytta hegðun og stefnu í umhverfismálum. Samfylkingin mun leggja fram tillögur að slíku sem byggja á samráði við helstu fræði- og vísindamenn, atvinnulífið, stofnanir, félagasamtök og einstaklinga.

Samfylkingin til forystu
Samfélög sem sækja ekki markvisst fram, dragast aftur úr og staðna. Íhaldssömum samfélögum vegnar ekki vel til lengri tíma litið.

Jafnaðarmenn hafa verið í fararbroddi í því að móta samfélög í Norður-Evrópu sem talin eru til fyrirmyndar. Ein höfuðforsenda þess að slík sjónarmið ríki við stjórn landsins er sú að Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands hafi nægan styrk til að bjóða hægri flokkunum byrginn.

Enginn á að þurfa að líða skort í allnægtasamfélagi nútímans. Þetta er réttlætismál. Það er líka forsenda þeirrar sóknar sem íslenskt samfélag verður að ráðast í til að tryggja samkeppnishæfi þjóðarinnar. Við þurfum stjórnvöld sem tryggja öllum mannsæmandi lífskjör, öflugt atvinnulíf, aðgang að fjölbreyttri og lifandi menningu, framúrskarandi menntun, öruggt heilbrigðiskerfi, vernd gegn mismunun og aðgang að góðu umhverfi og náttúru.