Umhverfis-, skipulags- og samgöngumál

Skipulag á forsendum mannlífs og lífsgæða

Samfylkingin leggur áherslu á að allir geti búið í öruggu húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Tryggja þarf nægt framboð af lóðum og bjóða upp á fjölbreytta valkosti á húsnæðismarkaði. Hafnarfjörður hefur dregist aftur úr nágranna bæjarfélögum hvað varðar uppbyggingu á íbúðarhúsnæði og fjölgun íbúa er langt undir áætlunum og því þarf að breyta.

Lífsgæði íbúa og iðandi mannlíf eru í forgangi þegar kemur að skipulagi. Horfa þarf á heildarmyndina jafnt sem mannleg smáatriði í umhverfinu þegar ný hverfi eru skipulögð og eldri svæði eru breytt. Skipulag þarf að vera fjölbreytt, bæði hvað varðar nýtingu lóða innan hverfa og eins íbúðagerða innan lóða. Stuðla þarf að jöfnu framboði lóða til nýbygginga, bæði með þéttingu byggðar og nýjum hverfum. Nauðsynlegt er þó að tryggja að þétting skerði ekki lífsgæði þeirra íbúa sem fyrir eru. Einnig verður skipulagið að taka mið af fjölbreyttum og ólíkum þörfum og Samfylkingin telur mjög mikilvægt í allir skipulagsvinnu verði unnið eftir hugmyndafræði algildrar hönnunar og aðgengi allra verði tryggt.

Samfylkingin leggur áherslu á lýðræðislega þátttöku íbúa, aukið aðgengi fólks að ákvarðanatöku og samráði við íbúa áður en ákvarðanir eru teknar og gagnsæi í allri ákvarðanatöku í skipulagsmálum.

Á næstu fjórum árum ætlum við að:

  • ná raunverulegum árangri í loftslagsmálum og vinna eftir markvissri og aðgerðabundinni umhverfisstefnu þar sem forgangsröðun verkefna er skýr og vel fjármögnuð,
  • fjölga hvötum til bygginga á umhverfisvottuðum byggingum og stefna því að nýbyggingar á vegum bæjarins og endurbætur séu umhverfisvottaðar,
  • setja fram metnaðarfulla stefnu til verndunar vatnsbóla í upplandi Hafnarfjarðar,
  • standa betur að fegrun og hreinsun um allan bæ, fjölga ruslatunnum með flokkun og stuðla að betri umhirðu þeirra – Hreinn bær okkur kær,
  • berjast fyrir varanlegri lausn á umferðarflæði um Reykjanesbraut í gegnum Hafnarfjörð í samstarfi við ríkið, t.d. að brautin verði sett í stokk frá Hlíðartorgi og leita til þess að dreifa umferðarþunga frá Hafnarfirði með því að ýta á um skipulag og gerð ofanbyggðarvegar,
  • ýta á um að tvöföldun Reykjanesbrautar suðvestur við Straumsvík verði lokið hið fyrsta,
  • efla almenningssamgöngur með Borgarlínu og öflugu innanbæjarkerfi strætó,
  • vera með frítt í strætó fyrir 18 ára og yngri,
  • opna Bláfjallaveg á nýjan leik og tryggja endurbætur á honum og viðhald, þar á meðal vetrarþjónustu, einnig verður barist hart fyrir áframhaldandi opnun svonefnds Flóttamannavegar,
  • tryggja að Þjónustumiðstöð Hafnarfjarðar hafi ávallt greiðan aðgang að besta fáanlegum tækjabúnaði vegna snjómoksturs og að starfsemin verði styrkt til hagsbóta fyrir alla bæjarbúa,
  • fjölga rafhleðslustöðvum í bænum og rafvæða bílaflota bæjarfélagsins,
  • gera stórátak í að bæta göngu,- hjóla- og reiðstíga í bæjarlandinu og tengingar þeirra við önnur bæjarfélög,
  • bæta aðstöðu fyrir útivistarfólk í upplandi Hafnarfjarðar,
  • bæta aðgengi og aðstöðu við náttúruperlur í nágrenni bæjarins svo allir bæjarbúar geti notið þeirra,
  • að efla Krýsuvík sem útivistar- og ferðamannasvæði með frekari uppgræðslu og skógrækt í góðri samvinnu við opinbera aðila, frjáls félagasamtök og sjálfboðaliða,
  • útrýma plasti í starfsemi bæjarfélagsins svo bærinn fari þar fram með góðu fordæmi,
  • minnka kolefnis- og vistspor sveitarfélagsins með kolefnisjöfnun og fræðslu með áherslu á sjálfbærni.
  • varðveita og efla Óla Run tún sem grænt fjölskyldusvæði með útivistar möguleikum, bæði á sumrin sem og á veturna,
  • halda áfram að fegra og bæta Hellisgerði sem verður 100 ára á þessu ári,
  • styðja við öfluga umhverfisfræðslu í skólum bæjarins,
  • reka öfluga umhverfisvöktun með hágæðamælingum á mengun í umhverfinu,
  • draga úr sóun í bæjarfélaginu með öflugri sophirðu þar sem bærinn fer í fararbroddi m.a. með metnaðarfulltri sorpflokkunarstefnu í öllum stofnunum bæjarins.
  • bæta umhverfi grenndarstöðva og fjölga móttökuflokkum,
  • bæta vetrarþjónustu í hverfum bæjarins og hvetja þannig til þess að börn og fullorðnir geti farið styttri ferðir gangandi eða hjólandi allt árið,
  • bæta rafrænar upplýsingar á vefsvæði bæjarins um t.d. mokstur, hreinsun gatna, vorhreinsanir o.s.frv. þannig að fólk geti fylgst betur með,
  • tryggja framboð lóða til að stuðla að uppbyggingu húsnæðis fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur sem og til þess byggja upp öruggan leigumarkað,
  • huga að nýjum svæðum innan bæjarmarka til íbúðauppbyggingar, t.d. í Óttarstaðalandi handan álversins,
  • taka upp samstarf við félög sem ekki eru rekin í hagnaðarsjónarmiði um uppbyggingu á stúdentaíbúðum, íbúðum fyrir aldraða og tekjulágar fjölskyldur og einstaklinga,
  • stuðla að meira mannlífi í miðbænum okkar og varðveita bæjarmyndina,
  • bæta grænu svæðin svo bæjarbúar geti notið útivistar og samverustunda,
  • gera betri göngu- og hjólastígatengingar til nærliggjandi sveitarfélaga,
  • halda áfram þéttingu byggðar þar sem þess er kostur enda styður hún við ýmis mikilvæg verkefni t.d. uppbyggingu hvers kyns þjónustu og almenningssamgangna.